Steiney ehf

2022

Steiney ehf. er rótgróið verktakafyrirtæki á Vopnafirði í eigu Eyjólfs Sigurðssonar sem stofnaði fyrirtækið árið 1984, þegar hann keypti sér steypubíl. Tveimur árum seinna kaupir Steiney tæki og tól Sigurðar Björnssonar, föður Eyjólfs, sem hafði áratugum saman unnið við vörubílaakstur í Vopnafirði.

Starfsemin
Verkefni Steineyjar verið mörg og mismunandi þau ríflega 35 ár sem fyrirtækið hefur verið starfrækt. Fyrst um sinn var mest áhersla lögð á sölu steinsteypu en með kaupum á fleiri og fjölbreyttari tækjum óx og dafnaði starfsemin með árunum. Auk steypunnar má segja að stærstu verkefnin hafi í gegnum tíðina verið snjómokstur og ýmiskonar vegavinna í og við Vopnafjörð fyrir Vegagerð ríkisins, þjónusta við sjávarútveg á Vopnafirði og kranavinna. Smærri verkefni og þjónusta af margskonar toga við smærri fyrirtæki og einstaklinga hefur ávallt verið stór hluti af starfseminni auk þess sem skólaakstri var sinnt af fyrirtækinu í 10 ár. Síðustu ár hefur fyrirtækið einnig séð um sorpmál Vopnafjarðarhrepps. Árið 2020 kom Steiney að kaupum á dagvöruversluninni Kauptúni á Vopnafirði sem Eyjólfur og eiginkona hans, Berghildur Fanney Oddsen reka, auk húseignarinnar. Það ár fjárfesti Steiney einnig í litlu trésmíðaverkstæði og mun tíminn leiða í ljós hvernig sú starfsemi þróast. Heilsársstöðugildi við fyrirtækið eru í dag fjögur talsins.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd