Saga steinullarframleiðslu nær allt aftur til ársins 1850 en steinull var þá fyrst framleidd í Þýskalandi, sem einangrunarefni til húsnæðis. Áhugi vaknaði til framleiðslu á steinull á Íslandi á árunum 1974-1976 og voru þá tveir aðilar, á Suðurlandi og í Skagafirði, sem knúðu á við stjórnvöld að kanna með hagkvæmni slíkrar framleiðslu hér innanlands. Í Skagafirði var það Steinullarfélagið hf. sem leiddi málið undir forystu bæjarstjórnar Sauðárkróks. Þar sem ljóst var að þátttaka ríkisins væri lykilatriði í stofnun slíkrar verksmiðju og einungis væri hagkvæmt að reisa eina slíka á landinu þurfti ríkið að velja á milli þeirra áhugasömu aðila sem voru til taks með stofnun slíkrar verksmiðju. Með lögum frá Alþingi, nr. 61 – þann 4. júní 1981, var samþykkt að ríkið tæki þátt í byggingu steinullarverksmiðju og var staðsetning hennar ákveðin á Sauðárkróki, eftir atkvæðagreiðslu á Alþingi.
Hlutafélag um rekstur steinullarverksmiðju á Sauðárkróki var síðan stofnað 2. desember 1982. Við stofnun verksmiðjunnar voru hluthafar 5 talsins; Ríkissjóður með 40%, Steinullarfélagið, sem samanstóð af Sauðárkróksbæ og um 200 einstaklingum og fyrirtækjum, með 26,6%, Samband íslenskra samvinnufélaga með 16,4%, OY Partek AB með 11,6% og Kaupfélag Skagfirðinga með 5,4%. Þrisvar á starfstíma verksmiðjunnar hafa orðið verulegar breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins. Frá árinu 2016 hafa eigendur félagsins verið þrír, Kaupfélag Skagfirðinga með 50% hlut, BYKO hf. með 25% hlut og Húsasmiðjan með 25% hlut.
Vinnulag og framleiðsluferli
Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki hóf framleiðslu í ágústmánuði 1985. Heildarframleiðsla verksmiðjunnar, frá upphafi framleiðslunnar 1985 til ársloka 2019 nemur um 242 þúsund tonnum. Aðalhráefnið sem notað er til framleiðslu á steinull er basalt sandur, sem fenginn er í fjöruborðinu við vestari ós Héraðsvatna og er hráefnatakan í fjöruborðinu umhverfisvottuð. Önnur helstu hráefni eru skeljasandur, úr Faxaflóa, innfluttur olivin-sandur og innflutt súrál. Innlendu hráefnin eru um 90% af heildar steinefnunum. Verksmiðjan er ein af fáum verksmiðjum í heiminum þar sem steinefnin eru brædd í rafbræðsluofni til framleiðslu á steinullinni.
Skipulag og sérstaða
Sala og vöruframboð:
Stærsti hluti framleiðslu verksmiðjunnar hefur verið seldur á innanlandsmarkaði frá upphafi, hlutfallið hefur þó verið mjög misjafnt eftir árum. Söluhæsta árið frá upphafi var árið 2007, en þá voru seldir um 242 þúsund m3 samtals og af því um 182 þúsund m3 á innanlandsmarkaði, sem gerir um 75% hlutdeild. Sala ársins 2019 var um 182 þúsund m3 samtals og af því um 132 þúsund m3 á innanlandsmarkaði, sem gerir um 72,5% hlutdeild.
Þótt grunnuppbygging steinullarinnar sé ávallt sú sama framleiðir verksmiðjan hátt í 30 vörutegundir með mismunandi eiginleikum, allt eftir því hvað skal einangra. Hver vörutegund er sniðin að ákveðnu notkunarsviði. Auk þess hefur verksmiðjan verið með nokkrar tegundir af innfluttri tæknieinangrun til sölu.
Hráefni og orka:
Við framleiðslu á einu tonni af steinull þarf um 1,1 tonn af steinefnum (sandi) og um 52 kg af bindiefnum og rafskautum. Nær enginn fastur úrgangur er frá framleiðslunni og losun á CO2 er óveruleg eða um 14% á hvert framleitt tonn ullar. Kostnaður vegna innfluttra hráefna er innan við 25% af breytilegum framleiðslukostnaði. Afurðin sparar margfalda framleiðsluorkuna á líftíma sínum og dregur þar af leiðandi einnig stórkostlega úr CO2 losun. Af heildarorkuþörf vegna framleiðslunnar er um 93% innlend orka, en einnig er notuð gasolía til þurrkunar á basalt-, skelja- og olivin-sandinum. Til framleiðslu á einu tonni af steinull þarf 2.800 kwh af raforku og 16 kg af gasolíu.
Gæði og vottanir:
Afurðir verksmiðjunnar eru CE merktar og vottaðar, sem þýðir að framleiðsluferli og gæðaeftirlit eru í samræmi við staðla Evrópusambandsins og afurðirnar því gjaldgengar hvar sem er á svæðinu án frekari prófana eða eftirlits. Rannsóknir hafa verið gerðar á afurðum Steinullar varðandi heilsufarsáhrif og þær hafa hlotið vottun og viðurkenningu alþjóðlegra stofnana.
Árið 2012 var gæðastjórnunarkerfi fyrirtækisins vottað samkvæmt ISO 9001 staðli og í framhaldi af því var innleitt umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO 14001 staðli. Þá hefur fyrirtækið sett í gang ferli til að fá vottun fyrir vinnuverndarstaðalinn ISO 45001, sem er stjórnkerfi fyrir heilsu og öryggi. Stefnt er á að sú vottun verði orðin staðfest hjá fyrirtækinu á árinu 2021.
Gerð hefur verið vistferilsgreining (Life Cycle Assessment, LCA) fyrir framleiðslu verksmiðjunnar, en um var að ræða fyrstu vistferilsgreininguna fyrir íslenskt byggingarefni. Vistferilsgreiningar eru notaðar til að meta kolefnisspor eða vistspor vöru. Steinull hf. hefur í framhaldinu fengið EPD umhverfisyfirlýsingu fyrir framleiðsluvörur sínar, fyrst íslenskra framleiðslufyrirtækja. Til grundvallar liggur ítarleg greiningarvinna unnin af EFLU og niðurstöðurnar staðfestar af SINTEF byggforsk í Osló. Umhverfisyfirlýsingin er gefin út af EPD-Norge. Steinull sem framleidd er hjá Steinull hf. á Sauðárkróki hefur þrátt fyrir flutninga til meginlands Evrópu að minnsta kosti helmingi lægra kolefnisspor en sambærileg erlend steinull sem borið var saman við. Framleiðsla steinullareinangrunarinnar sparar mun meiri orku en notuð er til framleiðslu afurðanna.
Framtíðarsýn
Á síðustu árum hafa viðhorf og umræða verið að breytast mjög, í átt að aukinni sjálfbærni og vistvænni hönnun. Sérstaða Íslands er gjöfular endurnýjanlegar auðlindir og vistvæn orka, með lágt kolefnisspor (CO2), sem er uppistaða orkunotkunar í byggingum hérlendis.
Steinull hf. framleiðir einangrun í og á allar tegundir bygginga, óháð byggingarefni og formi. Á þetta við um alla áfanga byggingar, frá undirstöðum og upp á þak. Til viðbótar eru síðan kostir steinullar-einangrunar miklir gagnvart hljóðísogi og brunaþoli.
Aðsetur – Mannauður – Umfang
Steinull hf. er með alla starfsemi sína að Skarðseyri 5, á Sauðárkróki, á um 33.000 fm athafnarlóð, sem hefur húsakost sem telur tæplega 6.000 fm, að grunnfleti. Framleitt er með þriggja vakta vinnufyrirkomulagi, frá sunnudagskvöldi til föstudagskvölds, í viku hverri allt árið. Hjá fyrirtækinu starfa um 40 starfmenn. Stjórn fyrirtækisins skipa árið 2020, Gísli M. Auðbergsson, stjórnarformaður, Guðmundur H. Jónsson, Ingólfur Jóhannsson og Vilmundur Jósefsson. Framkvæmdastjóri er Stefán Logi Haraldsson.
Heildarvelta fyrirtækisins var um 1.560 milljónir króna á árinu 2018 og um 1.620 milljónir á árinu 2019. Steinull hf. hefur átt sæti á lista framúrskarandi fyrirtækja 10 ár í röð, eða frá upphafi þeirrar tilnefningar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd