Stéttarfélagið Samstaða

2022

Stéttarfélagið Samstaða varð 20 ára 22. júní 2017. Árið 1997 voru fjögur stéttarfélög Í Húnavatnsýslum sameinuðuð í eitt, en það voru verkalýðsfélag Austur-Húnvetninga, Verkalýðs- og sjómannafélag Skagastrandar, Verkalýðsfélagið Hvöt á Hvammstanga ásamt Verslunarmannafélagi Húnvetninga. Síðan hafa bæst við Verkalýðsfélag Hrútfirðinga og Iðnsveinafélag Húnvetninga, þar með er búið að sameina öll stéttarfélögin í Vestur- og Austur Húnavatnssýslum, undir merkjum Stéttarfélagsins Samstöðu.
Fyrsti formaður Samstöðu eftir sameiningu var kjörinn Valdimar Guðmannsson og árið 2001 tók Ásgerður Pálsdóttir við stjórnartaumnum og var til ársins 2016, þá var kjörin nýr formaður, Guðmundur Finnbogason.

Réttindi félagsmanna
Í starfsemi Samstöðu er að halda utan um félagsmanninn, vinna að bættum kjörum um laun og réttindum. Vera til taks ef brotið er á viðkomandi og vera vakandi yfir að kjarasamningar séu virtir. Við erum í samfloti við nokkur stéttarfélög um vinnustaðareftirlit, erum með starfsmann á Akureyri, sem kemur á svæðið þegar á þarf að halda og við förum með honum í eftirlitsferðina. Þetta hefur gefið góða raun og brotum hefur fækkað.
Samstaða er með öflugan sjúkrasjóð, orlofsjóð, fræðslusjóð og vinnudeilusjóð. Sjúkrasjóður veitir t.d. sjúkradagpeninga í veikindum eftir að greiðslu er lokið hjá atvinnurekanda/veikindi barna/alvarleg veikindi maka/dánarbætur, einnig eru veittir styrkir t.d. til sjúkraþjálfunar, sálfræðiþjónustu, líkamsræktar og ýmislegt fleira sem má fá upplýsingar um á heimasíðu Samstöðu.
Sjúkrasjóðurinn á eina íbúð í Reykjavík og orlofssjóðurinn á eina, einnig í Reykjavík, við eigum bústað á Illugastöðum og í Ölfusborgum að hálfu á móti Öldunni stéttarfélagi. Á sumrin þá höfum við leigt bústaði og endurleigt okkar félagsmönnum á skikkanlegu verði. Við höfum verið víða með leigubústaði, nú erum við með bústaði á Einarstöðum á Héraði, í Borgarfirði og á Flúðum í Hraunamanahreppi.
Samstaða er aðili að ýmsum starfsmennta- og fræðslusjóðum, Landsmennt, Ríkismennt, Sveitarmennt, Sjómennt, Iðunni og Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks. Félagsmenn okkar sóttu c.a. um fimm milljónir á árinu 2018. Við eru aðilar að Farskólanum, miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra og höfum boðið okkar félagsmönnum upp á nokkur námskeið árlega, þeim að kostnaðarlausu.

Samstaða
Á síðustu missirum hafa verið þreifingar um sameiningu stéttarfélagana í Húnavatnssýslu og Skagafirði, semsagt á milli Samstöðu og Öldunnar. Talið er að með sameiningu, verði félögin sterkari heild en að vera í sitthvoru lagi. Allavega er þetta framtíðarsýn og jafnvel að sameina allt Norðurlandið, frá Húnaflóa til Eyjafjarðar.

Stéttarfélagið Samstaða er aðili í Starfsgreinasambandi Íslands, ásamt 18 öðrum félögum, vítt og breytt um landið. Samstaða er eitt fárra stéttarfélaga sem er blandað (deildarskipt), en við erum með almennadeild, verslunardeild, sjómannadeild, iðnaðarmannadeild og ríkis- og sveitarfélagadeild. Þannig að það er nóg um að vera. Félagsmenn er c.a. 800 að jafnaði. Samstaða er aðili að Lífeyrissjóðnum Stapa og Alþýðusambandi Norðurlands.

Samstaða er með aðalskrifstofu að Þverbraut 1, Blönduósi og eru þar formaður og gjaldkeri almennt til svara og einnig er skrifstofa á Hvammstanga, opin hálfan dag, tvisvar í viku.
Í stjórn Samstöðu árið 2019 eru Guðmundur Finnbogason formaður, Aðalbjörg Valdimarsdóttir varaformaður, Stefanía A. Garðarsdóttir gjaldkeri og Vigdís Þorgeirsdóttir ritari, ásamt deildarformönnunum, Birki Freyssyni, Guðrúnu Sigurjónsdóttur, Sigurey A. Ólafsdóttur, Ingibjörgu Helgadóttur og Baldri Magnússyni.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd