Steypustöð Akureyrar ehf

2022

Steypustöð Akureyrar ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað í febrúar árið 2008. Eigendur eru systkinin Björn, Margrét, Þór og Sigurbergur Konráðsbörn. Foreldar þeirra eru Konráð Vilhjálmsson frá Ytri-Brekkum II, Skagafirði og Valgerður Sigurbergsdóttir frá Svínafelli, Nesjum Hornafirði. Ólust þau systkinin upp á Ytri-Brekkum II í Skagafirði og byrjuðu bræðurnir snemma í verktakabransanum með föður sínum sem átti jarðýtu og vann við ýmis verkefni fyrir bændur, í vegagerð og brúarsmíði um land allt. Eigendur eru öll búsett á Eyjafjarðarsvæðinu.
Bræðurnir eru með yfir 35 ára reynslu á vinnuvélum, vörubílum og 25 ára reynslu af steypuframleiðslu. Margrét hefur unnið í bókhaldi í yfir 20 ár. Valgerður móðir þeirra hefur staðið vaktina í eldhúsinu og eldað ofan í mannskapinn frá upphafi. Konráð faðir þeirra vann fram til seinasta dags en hann lést árið 2011.

Vinnulag og framleiðsluferli
Steypustöð Akureyrar ehf. starfrækir steypustöð að Sjafnarnesi 2, Akureyri og er þar framleidd steypa í margskonar verkefni. Steypustöð Akureyrar framleiðir steypu fyrir almennan markað á Akureyri og nærsveitum ásamt því að sinna sérstökum verkefnum meðfram því. Steypustöð Akureyrar býr einnig til steypta legósteina sem margskonar not eru fyrir og njóta síaukinna vinsælda.
Árið 2019 var reist Liebherr Mobimix steypustöð en framleiðslugeta hennar er mjög mikil en hún afkastar 100 m3 á klukkutíma. Hún leysti af hólmi Elba ESM 60 steypustöð sem var reist á Egilsstöðum í samstarfi við Yl ehf. og sjá þeir um rekstur og sölu á steypu á Egilsstöðum.Steypustöð Akureyrar ehf. leigir 2 stk. Marcantonini steypustöðvar til Húsavíkur önnur steypir 80 m3 pr. klst. og hin steypir 20 m3 pr. klst. og er hún rekin af Steinsteypir ehf. á Húsavík. Árið 2015-2019 voru þær notaðar við framkvæmdir á Þeistareykjum, Bakka og Laxárvirkjun á almennan markað á Húsavík og nágrenni.
Árið 2020 leigir Steypustöð Akureyrar 1 stk. færanlega Fibo 55/8-2200 steypustöð til framleiðslu á steypu til brúargerðar á Steinavötnum – Fellsá – Kvíá – Brunná á Suðurlandi. Steypustöðin í Reykjavík er framleiðsluaðili á steypunni fyrir Ístak hf.
Steypustöð Akureyrar notar CE vottuð hráefni í steypuframleiðslu sína. Sementið kemur frá Aalborg Portland í Danmörku og fylliefnin koma frá Skútabergi.

Gæðaeftirlit
Öflugt gæðaeftirlit er við steypuframleiðsluna. Gerir Steypustöð Akureyrar hluta af því innra eftirliti sjálft og um það sér gæðastjóri Karsten Iversen steypusérfræðingur sem er með margra ára reynslu. Einnig er ytra eftirlit, unnið af Verkfræðiskrifstofunni Eflu. Með þessu gæðaeftirliti tryggir Steypustöð Akureyrar stöðuga steypuframleiðslu.

Verkefni Steypustöðvar Akureyrar hafa verið fjölbreytt í gegnum árin
Árin 2013-2018 var framleidd steypa fyrir Vaðlaheiðargöng, tæpir 50.000 m3 og er það langstærsta steypuverkefnið sem Steypustöð Akureyrar ehf. hefur sinnt. Þar voru oft á tíðum erfiðar aðstæður við afhendingu steypunnar vegna krefjandi aðstæðna í göngunum.
Árið 2019 var meðal annars unnið við steypuframleiðslu í Hlíðarfjalli vegna nýrrar stólalyftu. Þar þurfti að steypa um 600 m3 og koma þeim upp í Hlíðarfjall við mjög krefjandi aðstæður. Þurfti að nota jarðýtu til að draga steypubílana upp í efstu stöð. Einnig var notuð grafa með steypusílói til að koma steypunni á sinn stað ef ófært var fyrir önnur tæki.

Skipulag og sérstaða
Steypustöð Akureyrar notar líkt og áður segir eingöngu CE vottuð hráefni í steypuframleiðslu sína og er það krafa nútímans að öll framleiðsluferli séu vottuð og rekjanleg. Þessu tengt er fullkomin rannsóknarstofa við steypustöðina þar sem eru framkvæmdar allar helstu rannsóknir og nauðsynlegar rannsóknir við innra eftirlit.

Framtíðarsýn
Steypustöð Akureyrar leggur mikinn metnað í steypuframleiðslu sína og stefnir á að auka enn á gæði steypunnar meðal annars með því að fara að nota sand sem er sprengdur, malaður, kúbiseraður og þveginn úr sprengdri klöpp. Þannig næst enn meiri stöðugleiki í framleiðslu á steypu þar sem að bæði er notaður sandur og perla í steypu blöndu.

Aðsetur
Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru að Sjafnarnesi 2, 603 Akureyri. Þar er skrifstofu-, starfsmanna- og verkstæðisaðstaða.

Mannauður og starfsmannafjöldi
Starfsmenn fyrirtækisins eru um 8 talsins og eiga þeir það sameiginlegt að vera flestir með vinnuvéla- og meiraprófsréttindi.

Velta og hagnaður
Steypustöð Akureyrar hefur gengið vel síðan fyrirtækið var stofnað. Fyrirtækið hefur bætt talsvert við bílaflota sinn seinustu ár. Árið 2016 voru keyptir þrír nýir Mercedes Benz steypubílar og árið 2018 var keypt ný Mercedes Benz Putzmeister steypudæla. Fyrirtækið á í heildina fjórar steypudælur og 8 steypubíla.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd