Fyrirtækin Stjörnublástur og Stálstjörnur eru staðsett á Seyðisfirði. Stjörnurblástur starfar einkum að sandblæstri og málun ýmissa stálmannvirkja og skipa, Stálstjörnur í rennismíði, fræsivinnu og allri almennri járnsmíðavinnu.
Sagan
Stjörnublástur er fjölskyldufyrirtæki Sævars Jónssonar. Starfsemin hófst á Fáskrúðsfirði árið 1987 og fólst í fyrstu í ýmis konar viðgerðarstarfsemi og bryggjusmíði, en um 1992 þróaðist reksturinn út í sandblástur og málun. Starfseminni óx fiskur um hrygg og árið 1997 var einkahlutafélagið Stjörnublástur stofnað. Árið eftir flutti fyrirtækið á Seyðisfjörð, þar sem það hefur komið sér vel fyrir í hentugu og rúmgóðu húsnæði. Árið 2000 keypti Stjörnublástur tæki og tól Vélsmiðjunnar Stáls á Seyðisfirði og stofnaði dótturfyrirtækið Stálstjörnur. Fyrirtækin vinna vel saman og styrkja hvort annað enda rekstur þeirra nátengdur.
Á árunum 2004 og 2005 hóf hófu Stálstjörnur að vinna við fraktflutninga fyrir Austfar ehf. á Seyðisfirði, sem var á þessum tíma umboðsaðilli fyrir Smyril Line ferju sem gengur á milli Danmerkur, Færeyja og Íslands (Seyðisfjarðar). Þetta þótti ekki álitlegt þar sem yfir Fjarðarheiðina þurfti að fara og er hún erfið yfirferðar á veturna. En þarna vildu menn reyna að fá betri nýtingu á ferjuna og láta hana sigla á veturna líka, en fram að því hafði hún bara verið í sumarferðum. Þarna sýndum við fram á að þetta var hægt og síðar komu risarnir í flutningabransanum og undirbuðu okkar fyrir tæki. Þess má geta að það er aðeins eitt fyrirtæki sem að þessum flutningum hefur komið sem er á sömu kennitölu í dag.
Starfsfólk
Hjá fyrirtækjunum starfa að jafnaði 8 fastir starfsmenn úr ýmsum greinum iðnaðarins, en flestir hafa þeir verið 40 á álagstímum. Meðal starfsmanna eru vélsmiðir, rennismiðir, rafsuðumenn, sandblásarar og skipamálarar, auk vörubílstjóra og vinnuvélastjóra. Flestir fastra starfsmanna Stjörnublásturs og Stálstjarna hafa mikla reynslu í sínu fagi og þekkja jafnt til gamals handverks og nýrri aðferða. Sú þekking kemur sér oft vel, t.d. við lokusmíði.
Starfsemi og verkefni
Fyrirtækin eru ákaflega vel tækjum búin og eiga allan helsta búnað til renni- og fræsivinnu og allrar almennrar járnsmíðavinnu, auk sérhæfðari tækja, s.s. álhúðunar- og afglóðunarbúnað.
Þá reka fyrirtækin slipp sem ræður við allt að 700 tonna þunga og eiga krana, flutningabíla og ýmsar þungavinnuvélar.
Þótt meginstarfsemi fyrirtækjanna sé á Austurlandi hafa þau unnið ýmis stór verkefni um land allt. Fyrirtækið er virkt á útboðsmarkaði og leggur áherslu á sveigjanleika í starfseminni. Meðal viðskiptavina eru Landsvirkjun, Eimskip, Rafmagnsveitur ríkisins, Eskja, Síldarvinnslan, Skeljungur, Vegagerðin, Loðnuvinnslan og Ríkiskaup.
Á haustmánuðum 2006 tók Stjörnublástur þátt í að stofna nýtt hlutafélag, Launafl ehf., ásamt fimm öðrum fyrirtækjum á Austurlandi, sem sérhæfir sig í þjónustu við Fjarðaál. Stjörnublástur seldi sinn hlut í Launafli 2011 til annara eigenda í Launafli.
Stjörnublástur og Stálstjörnur leggja áherslu á vönduð vinnubrögð og nákvæmni. Mikil áhersla er lögð á að gera viðskiptavini fyrirtækisins ánægða og koma til móts við þarfir þeirra eins og frekast er kostur. Starfsmenn fyrirtækisins eru meðvitaðir um að þeir eru í þjónustuhlutverki og viðskiptavinurinn er í hávegum hafður.
Aurskriðan
19. desember 2020 féll aurskriða á sandblástursaðstöðu Stjörnublásturs að Hafnargötu 29 á Seyðsfirði og hurfu þar 28 ár af sandblásturssögu fyrirtækisins. Húsið fékkst að fullu bætt en þó með 10 % sjálfsábyrgð, þar sem litið er svo á að þeir sem verða fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara beri að hluta til ábyrgð á því hvernig fer. Þarna tapaðist búnaður fyrir sandblásturinn að upphæð u.þ.b. 250.000.000. 28 ára vinna og tækjaöflun farinn í hafið eða undir aur og drullu. Af því fengust bætt u.þ.b. 12 %. Að frádregninni 10% sjálfsáhættu.
Einnig urðu margir af viðskiptavinum Stjörnublásturs fyrir tjóni í þessu aurflóði. Sumir hafa fengið tjón sitt bætt að einhverju leyti, enginn að öllu leyti. Hjá sumum verður ekki hægt að bæta tjónið, þar sem um fornmuni var að ræða.
Framtíðarsýn
Stjörnublástur var að hefja vinnu á stóru verki fyrir Landsvirkjun þegar flóðið skall á. Unnið er að því að að koma aðstöðu upp til að klára það verkefni. Það er í nógu að snúast og lífið heldur áfram.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd