Finnbogi Geirsson lærði blikksmíði á sínum tíma en stofnaði Stjörnublikk ehf. árið 1990 og því fagnaði fyrirtækið 30 ára afmæli í fyrra. Fyrirtækið byrjaði sem hefðbundin blikksmiðja með tvo starfsmenn og hefur síðan vaxið og dafnað. Stjörnublikk er stærsta blikksmiðja landsins með mikla sérhæfingu í loftræstikerfum, klæðningu hitaveituröra og almennri blikksmíði ásamt smíði og uppsetningu á læstum klæðningum. Fyrirtækið er fjölskyldufyrirtæki en í meirihlutaeigu Finnboga Geirssonar sem er jafnframt forstjóri þess. Starfsmenn Stjörnublikks eru flestir hoknir af reynslu og með afbragðsþekkingu á vörum fyrirtækisins. Árið 2008 keypti Stjörnublikk fyrirtækið Timbur og stál og hefur síðan haslað sér völl í framleiðslu á bárujárni og ýmiskonar klæðningum og fer sú starfsemi sívaxandi. Hráefni til framleiðslunnar og vörur byggja á innflutningi frá mörgum birgjum. Heildsala til innlendra aðila er drjúgur hluti veltunnar. Þá er Stjörnublikk með hluta fasteigna sinna í útleigu.
Framleiðsla
Stjörnblikk valsar meðal annars bárujárn og og trapizujárn og gerir líka alla aukahluti sem því fylgja, eins og flasningar, skotrennur og kúlukili.
Almenn blikksmíði
Blikksmíði
Stór þáttur í starfsemi fyrirtækisins er smíði ýmiskonar flasninga fyrir húsbyggjendur og verktaka. Á undanförnum árum hefur Stjörnublikk séð um vinnslu álklæðninga á margar byggingar fyrir verktaka, t.d. Hjúkrunarheimilið Suðurlandsbraut, Hjúkrunarheimilið Eir, Stöðvarhús Hellisheiðarvirkjunar og hús Íslenskrar Erfðagreiningar.
Einangrun og álklæðning lagna
Stjörnublikk hefur sérhæft sig og er umfngsmikið í einangrun og álklæðningu lagna. Starfsmenn fyrirtækisins hafa mjög víðtæka þekkingu á þessu sviði og hafa aflað sér mikillar reynslu á undanförnum árum. Stjörnublikk er með sérhannaða vél til framleiðslu á álkápum. Hún er sú eina sinnar tegundar á landinu enda sérstaklega smíðuð fyrir fyrirtækið til að sinna slíkum verkefnum. Nesjavallavirkjun, Reykjanesvirkjun, Svartsengi og Hellisheiðarvirkjun eru þar góð dæmi.
Læstar klæðningar
Stjörnublikk býður læstar klæðningar úr kopar og zinki. Starfsmenn fyrirtækisins hafa margra ára reynslu af smíði og uppsetningu læstra klæðninga og hafa fullkomnar vélar og tæki til að vinna stór sem smá verkefni. Stjörnublikk hefur unnið mörg slík verkefni undanfarið bæði innanlands og erlendis.
Loftræstingar
Frá upphafi hefur stærsti þátturinn í starfsemi Stjörnublikks verið smíði og uppsetning loftræstikerfa. Starfsmenn fyrirtækisins hafa mikla og víðtæka þekkingu á loftræstikerfum, hvort sem um stór eða smærri verkefni er að ræða. Stjörnublikk hefur mikla reynslu á þessu sviði, og hefur annast mörg stærstu og flóknustu innlend verkefni liðinna ára.
Þak- og veggklæðningar
Árið 2008 keypti Stjörnublikk vélar og starfsemi Timburs og stáls sem hafði um 30 ára skeið verið í fremstu röð á sínu sviði. Þá hóf Stjörnublikk framleiðslu á klæðningum. Boðið er upp á marga möguleika í efnisvali og litum. Áhersla er lögð á að bjóða eingöngu endingargóð efni sem henta vel við Íslenskar aðstæður.
Bárujárn hefur í gegnum tíðina verið algengasta þak- og veggklæðningin á íslenskum byggingum. Stjörnublikk framleiðir 76/18 bárujárn til þak- og veggklæðninga úr lituðu og ólituðu stáli til nota utanhúss og innan. Bárujárnið er framleitt í staðlaðri breidd en plötulengdir samkvæmt óskum kaupenda.
Mannauður og aðsetur
Alls starfa um 85 manns hjá fyrirtækinu. Stjörnublikk ehf. er til húsa að Smiðjuvegi 2 í Kópavogi.
COVID-19
Áhrifa COVID-19 hefur ekki gætt í starfsemi Stjörnublikks nema að því leiti að fyritækið hefur að sjálfsögðu fylgt reglum Almannavarna um fjarlægð og sprittun.
Markaðsmál, starfsmannamál og samfélagið
Fyrirtækið hefur rekið öfluga auglýsingaherferðir í sjónvarpi og hafa þær borið góðan árangur að mati Finnboga. Veltuþróun hefur verið jöfn og stígandi í gegnum árin. Staða fyritækisins er góð. Markaðshlutdeild umtalsverð og stjórnendur bjartsýnir á framtíðina.
Á hverju ári er boðið upp á glæsilegt jólahlaðborð fyrir starfmenn. Stjörnublikk hefur í gegnum tíðina látið af hendi rakna styrki til góðra málefna. Stjörnublikk er í hópi framúrskarandi fyrirtækja ár eftir ár.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd