Verkfræðistofan Stoð

2022

Verkfræðistofan hefur starfað á Sauðárkróki óslitið frá 1988 og á rætur að rekja til ársins 1985 vegna ráðgjafar í tengslum við uppbyggingu Steinullarverksmiðjunnar. Verkfræðistofan STOÐ var formlega stofnuð af Braga Þór Haraldssyni tæknifræðingi og Jóni Erni Berndsen verkfræðingi sem sameignarfélag sumarið 1988, en í maí 1997 kom Eyjólfur Þór Þórarinsson tæknifræðingur inn í félagið með þriðjungs eignarhlut og var rekstrinum breytt í hlutafélagsform með kennitölu 420585-0639. Bragi og Eyjólfur keyptu hlut Jóns Arnar síðsumars 1998, þegar hann fór til annarra starfa. Eyjólfur og Bragi áttu félagið að jöfnu til ársins 2011, þegar Bragi seldi sinn hlut til Atla Gunnars Arnórssonar verkfræðings og Sólveigar Olgu Sigurðardóttur landslagsarkitekts. Eyjólfur og Atli keyptu hlut Sólveigar í mars 2014 og ráku félagið með jöfnu eignarhaldi til ársbyrjunar 2019, þegar Björn Magnús Árnason landfræðingur og Þórður Karl Gunnarsson tæknifræðingur urðu eigendur að jöfnum fjórðungshlut hvor. Í dag eru eigendur að jöfnu og skipa stjórn, þeir Atli, Björn, Eyjólfur og Þórður. Atli Gunnar er formaður stjórnar frá árinu 2011 og Eyjólfur framkvæmdastjóri frá árinu 1998.

Vinnulag og framleiðsluferli
Á starfstíma verkfræðistofunnar hafa orðið verulegar breytingar í tækniþróun. Allt frá því að leggja til hliðar reiknistokk og taka tölvutæknina í notkun, skipta blýöntum og tússpennum ásamt teikniborðum út til að vinna með öflug þrívíddarkerfi við hönnunarferlið og til þess að leggja gamla þríhyrningamælitækinu sem þurfti tvo menn til allra mælinga, og taka í notkun öflugan landmælingardróna sem skilar hæðarlíkönum með loftmyndum. Starfsmenn stofunnar hafa sérhæft sig í fjölbreyttum úrlausnum verkefna á sviðum verkfræði, arkitektúrs, skipulags, landfræði og þéttbýlistækni en aðallega sinnt þjónustu á Norðurlandi vestra. Verkefnin spanna að mestu leyti svið samgangna og umhverfis, bygginga og mannvirkja ásamt framkvæmda og mælinga, fyrir ríki og sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga.

Skipulag og sérstaða
Starfsmenn og eigendur félagsins eiga það allir sameiginlegt að eiga sterkar rætur í héraðinu, ýmist fæddir hér og uppaldir, eða tengdir svæðinu sterkum fjölskylduböndum og hafa með því sérþekkingu á virkni samfélagsins og hreyfiafli þess. Í fjölbreyttu atvinnusamfélagi Norðurlands vestra liggur í hlutarins eðli að hluti starfseminnar sé sérhæfing í þjónustu við bændasamfélagið og afurðastöðvar tengdar því, ásamt þjónustu við sjávarútvegsfyrirtæki svæðisins. Starfsemi svæðisins einkennist einnig af háskólasamfélagi sem tengist, bændasamfélagi, ferðaþjónustu, sjávarútvegi og lífefnafræði. Á síðustu þremur áratugum hefur einnig byggst upp sérþekking á uppbyggingu hitaveitu- og vatnsveitukerfa á svæðinu, jafnt í þéttbýli og dreifbýli. Hitaveituverkefnin hafa þróast með öflugri uppbyggingu Skagafjarðarveitna í Skagafjarðarsýslu, en sem dæmi hefur þekkingin verið nýtt í verkefnum jafnt í Húnavatnssýslunum, Kjósarhreppi og víðar á landinu. Á árunum 2004 til 2007 var samstarf við Blönduósbæ um skipulags- og byggingafulltrúaþjónustu. Frá 2006 hefur verið samstarf við Höfðahrepp um skipulags- og byggingafulltrúaþjónustu. Frá 2015 hefur einnig verið samstarf við Húnaþing vestra um skipulagsfulltrúaþjónustu. Frá 2004 hafa skipulagsmál verið vaxandi þáttur í starfseminni. Verkfræðistofan vann að aðalskipulagi Skagafjarðar 2009-2021, sem var staðfest 2012, í samvinnu við Lendis ehf., þá Árna Ragnarsson arkitekt/skipulagsfræðing og Pál Zóphoníasson tæknifræðing. Einnig hefur verið unnið að ýmissi vinnu á aðalskipulagsstigi ásamt fjölmörgum verkefnum á deiliskipulagsstigi. Auk þess sem stofan hefur annast gerð fjölda afstöðumynda af bújörðum og minni svæðum. Um þessar mundir er sem dæmi unnið að nýju deiliskipulagi Sauðárkrókshafnar með tilheyrandi þróunarvinnu sem fylgir svo fjölbreyttri og lifandi atvinnustarfsemi sem þarf að rúmast á slíku svæði.
Á undangengnum árum hefur verið öflug uppbygging í afurðavinnslu bændasamfélagsins og má þar helst nefna: Þurrkhús FISK Seafood á Sauðárkróki, kæligeymsla, starfsmannaaðstaða, nýtt skrifstofuhúsnæði starfseminnar. Mjólkursamlag KS á Sauðárkróki, skrifstofur, ostalager, próteinverksmiðja, etanólverksmiðja og fleira. Kjötafurðastöð KS á Sauðárkróki, lausfrystir, móttökuhús/rétt, loðdýrafóðurvinnslustöð og fleira. Á Blönduósi, Skagaströnd og á Sauðárkróki hefur Stoð sinnt hönnun, ráðgjöf og byggingarstjórn fyrir Ámundakinn ehf. í ýmsum fasteignaverkefnum, bæði nýbyggingar og viðhald.
Strax á fyrstu starfsárum Stoðar hófst uppbygging sérþekkingar á mannvirkjum Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Sauðárkróki og margvíslegum nýbyggingar- og endurbótaverkefnum verið sinnt yfir áratugina. Nýlega vann stofan stefnumörkun fyrir HSN, um nýtingu á húsnæði stofnunarinnar á Sauðárkróki, alls um einn hektari gólfflatar samanlagt.
Í seinni tíð tók stofan þátt í tilraunaverkefni um BIM væðingu á vegum Ríkiseigna, með uppmælingu og innfærslu á húsakynnum Héraðshælisins á Blönduósi inn í gagnalíkan með BIM hugmyndafræðinni, og borið saman við hönnun nýbyggingar fyrir Hús íslenskra fræða í höfuðborginni, á ráðstefnu sérstaklega þar um. Í gegnum tíðina hafa ótal verkefni verið unnin við mælingar, hönnun og framkvæmdaeftirlit umferðar- og hafnarmannvirkja, sjóvarnargarða, ásamt nýlegu verkefni í framkvæmdaeftirliti með endurröðun ölduvarnar á Gilsárstíflu og fleiru tengdu Blönduvirkjun fyrir Landsvirkjun. Stofan hefur yfir að ráða öflugum tækjum til landmælinga auk mælingardróna, ásamt tilheyrandi úrvinnsluhugbúnaði.
Frá 1996 hefur stofan unnið að uppbyggingu landupplýsingakerfis og viðhaldi kortagrunna sveitarfélaga og veitufyrirtækja. Verkfræðistofan  hefur yfir að ráða hug- og vélbúnaði til landupplýsingavinnslu og kortagerðar. Á árunum 1997 og fram yfir aldamótin var Stoð aðili að Fyrirtækjaneti verkfræðistofa á Íslandi, allt til sameiningarbylgju margra landsbyggðaverkfræðistofa yfir í stórar rekstraeiningar á höfuðborgarsvæðinu með fylgjandi útibúavæðingu. Um allnokkur skeið var Stoð aðili að Skagfirskum verktökum ehf. og sá um framkvæmdastjórn, mælingar og utanumhald verkefna. Á þeim tíma var Þverárfjallsvegur byggður og síðar Þjóðvegur 1 lagður um Hrútafjarðarbotn hjá nýjum Staðarskála.
Einnig hefur félagið verið aðili að nýsköpun og atvinnuþróun í héraði með þátttöku í Atvinnuþróunarfélaginu Hring og á svipuðum tíma Árvirki, félagi um virkjun á vatnasvæði Héraðsvatna, og á síðari árum með þátttöku í Skagafjarðarhraðlestinni, samtökum um atvinnuframfarir í Skagafirði.

Aðsetur
Starfsemin var í upphafi að Aðalgötu 14 á Sauðárkróki, en fluttist að Aðalgötu 21 í byrjun júní 1989 og er þar enn rúmum þremur
áratugum síðar.

Mannauður og starfsmannafjöldi
Tólf starfsmenn vinna nú hjá stofunni, sem eiga það allir sameiginlegt að eiga sterkar rætur í héraðinu, ýmist fæddir hér og uppaldir, eða tengdir svæðinu sterkum fjölskylduböndum og hafa með því sérþekkingu á virkni samfélagsins og hreyfiafli þess.
Starfsmenn eru:
Atli Gunnar Arnórsson, verkfræðingur
Arney Sindradóttir, skrifstofustjórn
Árni Ragnarsson, arkitekt og skipulagsfræðingur
Björn Magnús Árnason, landfræðingur
Bragi Þór Haraldsson, tæknifræðingur
Eyjólfur Þórarinsson, framkvæmdastjóri
Hallgrímur Ingi Jónsson, tæknifræðingur
Helga Berglind Valgeirsdóttir, umsjón húsnæðis
Karen Steindórsdóttir, bókhald og laun
Magnús Freyr Gíslason, arkitekt
Sigurður Óli Ólafsson, tæknifræðingur
Þórður Karl Gunnarsson, tæknifræðingur.
Samanlagt eiga starfsmenn tæp 50 börn og barnabörn.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd