Aflstöð íslenskra fræða – mikilvægt kennileiti í Reykjavík
Hlutverk Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er að vinna að rannsóknum, einkum á sviði íslenskrar tungu og bókmennta, miðla þekkingu á þeim fræðum og varðveita og efla þau söfn sem eru á stofnuninni.
Sérstaða
Sérstaða stofnunarinnar býr í frumgögnum hennar sem hafa gildi á alþjóðlega vísu og einstakur efniviður til rannsókna. Á stofnuninni er stutt við fjölþjóðlegt samfélag fræðimanna, stúdenta og þýðenda sem hafa áhuga á íslenskum fræðum, máli og menningu. Stofnunin þrífst á öflugu samstarfi við háskóla og aðrar háskólastofnanir, innlendar sem erlendar; við rannsóknar- og menningarstofnanir, fræðasetur og söfn um allt land; fyrirtæki á sviði útgáfu, upplýsingatækni, afþreyingar, ferðaþjónustu og menningarmiðlunar; við alþjóðlegar systurstofnanir og háskóla þar sem íslensk fræði eru kennd. En síðast en ekki síst er hún í öflugu samstarfi við almenning í landinu.
Svið stofnunarinnar
Stofnuninni er skipt í fimm rannsóknarsvið auk stjórnsýslusviðs. Þau eru handritasvið, málræktarsvið, nafnfræðisvið, orðfræðisvið og þjóðfræðisvið.
Handrit í vörslu stofnunarinnar koma úr nokkrum söfnum. Að lokinni afhendingu handritanna frá Danmörku árið 1997 eru í handritasafni stofnunarinnar 1666 handrit og handritahlutar úr safni Árna Magnússonar, auk 1345 íslenskra fornbréfa í frumriti og 5942 fornbréfauppskrifta. Til viðbótar er 141 handrit úr Konungsbókhlöðu. Fjöldi handrita er enn varðveittur í Árnasafni og Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn en auk þess eru íslensk handrit varðveitt í ýmsum söfnum víða um heim. Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, setti safn Árna Magnússonar á Íslandi og í Danmörku á sérstaka varðveisluskrá sína árið 2009.
Á handritasviði stofnunarinnar er unnið að ýmiss konar fræðilegum og hagnýtum verkefnum sem snerta varðveislu handritanna, rannsóknir á þeim og útgáfu. Forvörslustofa og ljósmyndastofa eru á einnig á handritasviði. Handritasafnið er varðveitt við bestu skilyrði og áhersla lögð á eflingu þess, viðhald og skráningu og miðlun. Safnið er skráð á vefinn handrit.is sem er samvinnuverkefni Árnastofnunar, Árnasafns í Höfn og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns þar sem finna má stafrænar myndir af handritum.
Viðfangsefni málræktarsviðs lúta annars vegar að málrækt almennt og hins vegar að sérhæfðum orðaforða. Starfsmenn málræktarsviðs veita almenningi og sérfræðingum málfarsráðgjöf og leiðbeiningar um vandað mál, réttritun, orðmyndun, íðorðastarf og fleira og aðstoða við útgáfu orðaskráa í sérgreinum. Málræktarsvið sinnir einnig lögbundinni þjónustu Árnastofnunar við Íslenska málnefnd.
Á nafnfræðisviði stofnunarinnar er unnið að fræðilegum og hagnýtum verkefnum sem snerta örnefni og nafnfræði. Það veitir einstaklingum, stofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum þjónustu sem felst meðal annars í því að miðla upplýsingum og svara fyrirspurnum. Sviðið er í samstarfi við aðrar stofnanir, einkum Landmælingar Íslands og Þjóðskrá Íslands, og annast skrifstofuhald fyrir Örnefnanefnd. Í lok árs 2020 var nýr vefur Árnastofnunar, nafnið.is, formlega opnaður. Á vefnum má finna gögn um íslensk nöfn af ýmsu tagi. Vefurinn veitir aðgang að örnefnasafni Árnastofnunar sem nú er orðið leitarbært í heild sinni.
Á orðfræðisviði stofnunarinnar er lögð áhersla á rannsóknir sem tengjast orðum og orðasam-böndum, rannsóknir á orðaforðanum og þróun hans svo og rannsóknir í orðabókafræðum og máltækni. Þar eru söfn Orðabókar Háskólans, sem geyma mikilvægar heimildir um orðaforðann frá siðskiptum til nútíma, varðveitt. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er í forystu um nýjungar í orðabókagerð og starfsmenn orðfræðisviðs búa yfir þekkingu og reynslu á því sviði. Gefnar eru út prentaðar og rafrænar orðabækur sem ýmist eru einmála eins og Íslensk nútímamálsorðabók sem hefur að geyma 56.000 uppflettiorð með íslenskum skýringum eða margmála á borð við ISLEX sem er veforðabók milli íslensku annars vegar og dönsku, finnsku, færeysku, norsku (bókmáls og nýnorsku) og sænsku hins vegar. Auk orðabókanna eru margvísleg gagnasöfn um íslensku aðgengileg á vefnum. Stofnunin er leiðandi í máltækni og tekur þátt í máltækniáætlun stjórnvalda og annast hagnýt og fræðileg verkefni á sviði máltækni með því markmiði að styðja málrannsóknir, gerð orðabóka og efla þróun máltæknibúnaðar.
Þjóðfræðisvið annast þjóðfræðisafn stofnunarinnar en í því er hljóðritað efni sem safnað er úr munnlegri geymd og miðlað í gagnagrunninum www.ísmús.is. Þar má finna flokkaða yfirlitsskrá um þjóðfræðiefni ásamt hljóðritum (að hluta). Unnið er að rannsóknum á efni safnsins og ýmsum verkefnum sem því tengjast, einkum söfnun og skráningu. Útgáfa er snar þáttur í starfsemi sviðsins. Lögð er áhersla á varðveislu, viðhald, flokkun og skráningu safnsins þannig að gott aðgengi sé að því.
Íslenskukennsla
Árnastofnun hefur umsjón með íslenskukennslu við erlenda háskóla í samstarfi við Háskóla Íslands. Nú er íslenska kennd við 100 háskóla víðs vegar um heim en margir erlendir nemendur koma gagngert til Íslands til að sækja alþjóðleg sumarnámskeið stofnunarinnar í íslensku. Þetta starf ber m.a. ávöxt í öflugu miðlunarstarfi fjölmargra þýðenda á erlendri grund.
Starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sprettur af ræktarsemi við tungu og menningu Íslendinga. En það starf snýst ekki um að reisa varðveislumúra heldur er brýnt að opna sem flestum aðgang að verðmætum íslenskrar menningar og varpa ljósi á erindi hennar við samtímann. Unnið er markvisst að því á stofnuninni að opna aðgang að gögnum stofnunarinnar á stafrænu formi. Á síðustu misserum hafa nýir vefir eins og málið.is, ISLEX-orðabókin og nafnið.is litið dagsins ljós og aðrir hafa eflst og dafnað líkt og vinsæll vefur Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls (BÍN).
Hús íslenskunnar
Nú sér fyrir endann á byggingu Húss íslenskunnar. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ásamt íslenskudeild Háskóla Íslands flytja í þetta nýja hús þar sem hægt verður að leggja saman krafta fræðimanna, kennara og nemenda. Húsið mun verða sannkölluð aflstöð íslenskra fræða. Þar verður gögnum stofnunarinnar miðlað með alveg nýjum hætti og starfsemin opnuð almenningi. Handritasýning verður þar í öndvegi og þannig mun Hús íslenskunnar leika stórt hlutverk í bókmenntaborginni Reykjavík.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd