STÓLPI viðskiptalausnir ehf. er á meðal elstu hugbúnaðarfyrirtækja hér á landi og var stofnað haustið 1984. Félagið hét lengst af Kerfisþróun en því var breytt fyrir nokkrum árum í STÓLPI viðskiptalausnir. Stofnendur félagsins eru Björn Viggósson og Kristján Gunnarsson og leiddu þeir félagið með frábærum árangri í gegnum róstursöm upphafsár félagsins ásamt dyggum hópi starfsmanna.
Starfsemin
Bókhaldskerfið STÓLPI hefur frá upphafi verið hryggjarstykkið í rekstri félagsins. Viðskiptavinir félagsins eru í nánast öllum tilvikum meðalstór og lítil fyrirtæki sem nota kerfið við daglegan rekstur, en í dag eru um eitt þúsund íslensk fyrirtæki sem nota kerfið. Meginhlutverk félagsins er dagleg þjónusta við notendur og áframhaldandi þróun kerfisins. Mikill metnaður er lagður í að veita góða þjónustu, enda hafa ánægðir notendur verið aðalsmerki félagsins allt frá upphafi. Má jafnvel segja að félagið hafi náð að skapa sér ákveðna sérstöðu við samkeppnisaðila á þessu sviði. Þjónustuborð félagsins annast alla daglega þjónustu við nýja sem eldri notendur. Allt frá kynningu á kerfinu, uppsetningu þess og kennslu fyrir nýja notendur, mánaðarlegar uppfærslur kerfisins og allt annað því tengdu sem og ótengdum atriðum sem notendur þurfa hjálp við. Frá öndverðu hefur félagið einnig aðstoðað viðskiptamenn með val á og rekstri tölvubúnaðar og jaðartækja. Á síðustu árum hefur einnig færst í vöxt að endurselja og þjónusta hugbúnaðarlausnir frá Microsoft svo sem Ms. Office, tölvupóst og fleiri lausnir. Í rúm tíu ár hefur félagið boðið viðskiptavinum hýsingarþjónustu þar sem viðskiptavinir hafa aðgang að sinni persónulegu skýjatölvu sem þeir geta tengst frá hvaða tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma sem er þar sem STÓLPI er þá einnig aðgengilegur. Í dag eru vel flestir viðskiptavinir búnir að færa sig í hýsingarþjónustu félagsins sem bætir enn frekar við daglega þjónustu við notendur og gerir í raun rekstur og aðgengi að kerfinu fyrirhafnalausan. STÓLPI var upphaflega hannaður að beiðni Landssambands Iðnaðarmanna til að mæta vaxandi þörfum iðnaðarmanna um öflugt verkbókhald, sölu- og fjárhagskerfi. Mun fleiri kerfi fylgdu í kjölfarið svo sem launakerfi, stimpilklukka, innheimtukerfi, birgðakerfi og fleiri kerfi og með því fjölgaði jafnframt hratt fjöldi atvinnugreina sem sáu sér hag í að nota STÓLPA. Kerfið var strax í upphafi gríðarlegt framfara skref og naut mikilla vinsælda, ekki bara hjá iðnaðarmönnum heldur í vel flestum atvinnugreinum. Sérstaða kerfisins var meðal annars í lágum uppsetningakostnaði og lágum rekstrarkostnaði. Kerfið er hannað sem margar sjálfstæðar einingar sem gátu allar virkað saman sem ein heild. Einfalt er að aðlaga kerfið að smekk og þörfum notenda í ólíkum atvinnugreinum með innbyggðum stillingum kerfisins sem einfaldar mjög alla áframhaldandi þróun og heldur kostnaði niðri þar sem allar atvinnugreinar eru í raun að nota sama kerfið. Fyrstu árin var kerfið skrifað í DOS en upp úr aldamótum tók við nýtt og endurhannað kerfi sem skrifað var í Windows umhverfi á PC tölvur. Kerfið var þá sett upp á eina eða margar nettengdar tölvur á miðlægum netþjóni. Kerfið er nú orðið mjög frábrugðið upphaflega kerfinu enda nú hannað til að mæta mjög ólíkum þörfum fyrirtækja í ólíkum atvinnugreinum. Í dag er kerfið alfarið í skýjalausn sem gerir notendum kleift að tengjast frá hvaða tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma sem er. Kerfið hefur allta tíð verið í stöðugri þróun og má því segja að kerfið sé búið að taka út mikinn þroska og getur enn frekar aðlagast mjög ólíkum þörfum notenda án þess að gera þurfi kostnaðarsama séraðlögun. Árlega eru gefnar út um 12 til 18 nýjar útgáfur af kerfinu með mörg hundruð nýjungum og breytingum á eldri virkni.
Mannauður
Stofnendur félagsins, Björn Viggósson og Kristján Gunnarsson, ráku félagið til ársins 2007, eða í um 23 ár þegar félagið var selt til nýrra eigenda. Núverandi eigandi og framkvæmdastjóri, Guðmundur Ingi Hauksson, tók við rekstri félagsins árið 2015. Aðsetur félagsins frá 2015 hefur verið í Borgartúni 28, Reykjavík. Hugbúnaðarfyrirtæki mega sín lítils ef ekki er til staðar öflugur hópur starfsmanna sem gjörþekkir hugbúnaðinn og virkni hans. Hjá félaginu starfa sjö starfsmenn sem starfað hafa hjá félaginu í sjö til tuttugu ár, allir með djúpa sérþekkingu og reynslu á sínu sviði. Hópurinn í heild er sá mannauður sem þarf til að veita félaginu og Stólpa áframhaldandi brautargengi og veita öfluga þjónustu til notenda. Helsta ógn við íslenskan hugbúnaðargeira er erlend samkeppni. Erlend stórfyrirtæki hafa bæði vilja og getu til að þróa sambærilegar hugbúnaðarlausnir fyrir alheimsmarkað. Þröngur innlendur markaður og erfitt aðgengi að heimsmarkaði veldur því að íslenskar hugbúnaðarlausnir eiga undir högg að sækja frá erlendum stórfyrirtækjum. Veikleiki þeirra er slök þjónusta við íslenskan markað, sem er jafnframt styrkleiki Stólpa viðskiptalausna ehf. Án öflugs mannauðs og frábærrar þjónustu væri félagið ekki til.
Þróun og framtíðarsýn
Síðastliðin ár hefur verið mikil áhersla á þróun kerfisins enda margt að breytast í ytra umhverfi fyrirtækja sem kallar á róttækar breytingar á bókhalds- og upplýsingakerfum. Öflugir snjallsímar hafa þannig tekið við sem skráningar- og upplýsingatæki og gera notendum fært að skrá og fá upplýsingar um daglegan rekstur beint úr símanum. Félagið er um þessar mundir að gefa út nýtt forrit fyrir snjallsíma sem gefur framkvæmdaraðilum og iðnaðarmönnum kleift að skrá vinnu sína, efnisnotkun, akstur og fleira í snjallsímann jafnóðum. Skráningar verða þannig unnar jafnóðum sem bætir alla skilvirkni og eykur yfirsýn. Mikill áhugi og eftirspurn er til staðar fyrir þessa lausn í atvinnulífinu og verður spennandi að sjá hvernig til tekst á komandi mánuðum. Félagið hefur ekki farið varhluta af þeirri illvígu óværu sem farið hefur sem sinueldur um heimsbyggðina á árinu 2020 og valdið snörpum efnahagssamdrætti og algjöru tekjuhruni heilu atvinnugreinanna með samverkandi keðjuverkun um allan heim. Fjölmargir viðskiptavinir félagsins hafa þannig orðið fyrir miklum tekjumissi eða jafnvel lagt upp laupana með tilheyrandi tekjusamdrætti fyrir félagið. Þrátt fyrir snarpan tekjusamdrátt hefur félaginu tekist að standa þetta nokkuð vel af sér, jafnvel þótt ekki sé svo auðvelt að skera niður rekstrarkostnað þess sem er að lang mestu leyti fastur rekstrarkostnaður svo sem launakostnaður, húsnæðiskostnaður og föst leyfisgjöld. Vonir standa til að atvinnulífið taki aftur við sér á seinni helmingi ársins 2021 og mun félagið þá eflast að nýju samhliða sterkara atvinnulífi í landinu og heiminum öllum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd