Strandabyggð

2022

Íbúar í Strandabyggð eru hátt í 460 talsins. Staðsetning sveitarfélagsins er nokkurn veginn miðja vegu á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, en sveitarfélagið samstendur af þéttbýliskjarnanum Hólmavík og sveitunum þar í kring. Strandabyggð er fyrst og fremst þjónustukjarni þar sem boðið er upp á hátt þjónustustig, en meðal þess sem finna má í sveitarfélaginu er heilsugæsla, Vegagerðin, Orkubú Vestfjarða, Krambúðin, Sparisjóður Strandamanna, Pósturinn, Sýslumaðurinn á Vestfjörðum, lögregla, slökkvilið, björgunarsveitin Dagrenning, Íþróttamiðstöð, grunn- og leikskóli auk tónlistarskóla. Ferðaþjónusta er rekin í sveitarfélaginu, m.a. hótel, gistiheimili og veitingastaðir, en einnig er þar útgerðarfélag, öflugur landbúnaður og matvælaframleiðsla bæði er varðar landbúnaðarvörur og sjávarafurðir. Einnig er í sveitarfélaginu öflug menningarstarfsemi, starfandi leikfélag, tveir kórar og söfn svo eitthvað sé nefnt.

Sveitarfélagið
Hólmavík er stærsti þéttbýliskjarninn á Ströndum. Saga þjónustu og verslunar er löng og nær allt aftur til 1895, en talið er að verslun hafi verið stunduð á Hólmavík allt frá þeim tíma. Strandabyggð er umfram allt þjónustukjarni. Hér má finna mjög fjölbreytta þjónustu sem hefur skapað Hólmavík og Strandabyggð vissa sérstöðu. Helstu atvinnuvegirnir hafa verið verslun og þjónusta, sjávarútvegur og landbúnaður, sérstaklega sauðfjárbúskapur.
Rækjuverksmiðjan Hólmadrangur hefur lengi verið í fremstu röð í heiminum, þegar kemur að tæknilegri uppbyggingu og góðri framleiðslueiningu. Hólmadrangur er einn stærsti og mikilvægasti vinnustaður Strandabyggðar og þar starfa rúmlega 20 starfsmenn. En það eru aðrir atvinnurekendur í sjávarútvegi sem einnig skipta miklu máli þegar kemur að atvinnusköpun hjá Strandabyggð, og má þar nefna Hlökk sem rekur tvo stóra báta. Að auki eru minni útgerðarfyrirtæki sem reka sína báta, sum hver mest allan ársins hring. Hólmavíkurhöfn er fyrst og fremst komuhöfn fiskibáta og flutningaskipa en þó er aukinn áhugi skemmtiferðaskipa á að koma til Hólmavíkur.
Sveitarfélagið er stærsti atvinnurekandinn í Strandabyggð og rekur grunnþjónustudeildir eins og; Íþróttamiðstöð, áhaldahús, leikskóla, grunnskóla, tónskóla o.s.frv. Starfsmannafjöldi sveitarfélagsins er milli 70 og 80 í um 40 stöðugildum. Aðrir stórir atvinnurekendur eru Hólmadrangur með um 25 starfsmenn, Krambúðin, Vegagerðin og Orkubú Vestfjarða. Auk þeirra vinnustaða sem hér hafa verið taldir upp má nefna: Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Sýslumanninn á Vestfjörðum, Sparisjóð Strandamanna, Póstinn, Sjóvá, Trésmiðjuna Höfða, Café Riis, Finna Hótel, Steinhúsið, Gistiheimili Hólmavíkur, Strandagaldur, Sauðfjársetur á Ströndum auk fjölda verktaka og einstaklingsfyrirtækja.
Íþróttamiðstöðin og sundlaugin á Hólmavík laða að sér fjölda heimamanna, ferðamanna og gesti á hverju ári, hvort heldur er til að stunda íþróttir eða fara í sund, eða til gistingar á tjaldsvæðinu. Fyrir utan að sinna hefðbundnu íþróttastarfi skólanna, er margt að gerast í íþróttahúsinu á hverjum tíma. Héraðssamband Strandamanna, Ungmennafélagið Geislinn o.fl. eru þar með fjölbreyttar æfingar og má þar t.d. nefna Skíðafélag Strandamanna. Félag eldri borgara hittist þar reglulega og stundar fjölbreytta líkamsrækt, leikskólakrakkar koma í leiki einu sinni í viku og íbúar leigja sér tíma í salnum fyrir badminton, fótbolta og almennan leik. Þá er algengt að salurinn sé leigður út fyrr afmæli og ýmsa aðra viðburði. Sundlaugin er fastur liður í lífi margra á Hólmavík. Menn koma og synda eða hittast í heitu pottunum og ræða málefni dagsins. Íþróttamiðstöðin er þannig í mikilli notkun allan ársins hring.
Samkvæmt Fjallskilaseðli Strandabyggðar 2020, hefur fjáreign dregist saman á milli áranna 2018 og 2019 eða úr 9.443 í 9.123. Fjöldi býla sem taka þátt í leitum samkvæmt Fjallskilaseðli er rétt rúmlega 20 bæir í landi Strandabyggðar. Bændur í Strandabyggð hafa hins vegar náð mjög góðum árangri í sauðfjárrækt á undanförnum árum ásamt starfsbræðrum sínum annarsstaðar í sýslunni. Það er einmitt í Strandasýslu þar sem framleitt var mest magn af kjöti eftir hverja á, árið 2018. Þessu til viðbótar ræða bændur með sér möguleika á aukinni slátrun heima fyrir og framleiðslu verðmætari kjötafurða.

Ferðaþjónusta
Í seinni tíð hefur ferðaþjónusta eflst í Strandabyggð og er þar helst að þakka einu helsta aðdráttarafli í ferðaþjónustu á Vestfjörðum og þótt víðar væri leitað; Galdrasafninu á Hólmavík. Galdrasýning á Ströndum, eins og sýningin er kölluð, leitar fanga í þjóðsagnaarfi um galdramenn og seiðkarla á Ströndum, kuklara og aðra kvisti mannlífsins, sem lifðu að mörkum hins sýnilega. Þá mál líka nefna Sauðfjársetur á Ströndum, sem veitir sögulega sýn í landbúnað fyrri ára.

Framtíðin
Öll umræða um framtíðina á sér gjarnan vissan upphafsstað í fortíðinni. Á Hólmavík var einu sinni matarbúð, sem seldi fisk, kjöt og mjólk. Þar var á sama tíma kaupfélag, bókabúð, bakarí og á tímabili mátti finna vídeoleigur, hannyrða- og föndurbúð, úrsmið o.fl. Þetta hefur breyst. Þetta er í dag áhugaverð saga og sönnun þess að Strandabyggð hefur alltaf verið þjónustukjarni. Stærsta verkefni Strandabyggðar, sveitarfélagsins, íbúa, atvinnulífsins og stjórnvalda er að tryggja að svo verði áfram.

Íbúar Strandabyggðar horfa bjartsýnir og einbeittir til framtíðarinnar, enda mörg tækifæri sem hægt er að nýta, samfélaginu til framdráttar. Í þeirri vinnu gildir bæði að styðja við það sem er fyrir og byggja það upp, en einnig að leita sífellt nýrra lausna, nýrra verkefna og atvinnutækifæra.

Hér er mikil og góð þjónusta, gott skólaumhverfi, góð íþróttaaðstaða og öflugt félagslíf. Þá fer sérlega vel um eldri borgara í Strandabyggð. Strandabyggð á því alla möguleika á að eflast enn frekar sem íbúðar- og þjónustukjarni Stranda og nágrennis.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd