Strúctor Byggingaþjónusta

2022

Strúctor Byggingaþjónusta ehf. er afsprengi Þorsteins H. Ingibergssonar  múrarameistara og hefur verið starfandi frá árinu 2006. Þorsteinn hóf störf við múriðn árið 1978, lauk sveinsprófi frá Iðnskólanum 1981 og öðlaðist meistararéttindi árið 1986 eftir læri hjá Einari Einarssyni múrarameistara. Sama ár hóf Þorsteinn eigin rekstur og sérhæfði sig fljótt í flísalögnum og arinhleðslu.

Einn verða margir
Fyrstu árin var Þorsteinn yfirleitt einn að verki og öðlaðist gott orðspor fyrir vönduð og góð vinnubrögð. Eftirspurnin var mikil og eftir ótal verk um land allt — frá lagningu flísa, mósaíks og náttúrusteins til flísaklæðningu húsa og verslunarrýma — fóru verkbeiðnir að breytast fljótlega upp úr aldamótum. Stærri verk bárust í auknum mæli inn á borð, sem og eftirspurn eftir umsjón fleiri verkþátta undir sama hatti.
Á þessum fyrstu árum aldarinnar voru flest fyrirtæki og verktakar í iðngreinum sérhæfð á sínum sviðum og erfitt að finna aðila sem buðu upp á alhliða þjónustu við breytingar og viðhald á heimilum og minni verslunarrýmum. Til að svara þessu kalli hóf Þorsteinn að ráða til sín undirverktaka úr öðrum stéttum (svo sem pípara, smiði og málara) og ekki leið á löngu þar til fyrsta starfsfólkið var ráðið. Þar á meðal var sonur Þorsteins, Helgi Steinar, sem tók við bókhaldsvinnu og síðar fjármála -og framkvæmdastjórnun.
Árið 2006 var skrefið tekið til fulls og nýtt fyrirtæki stofnað undir breytta starfsemi. Umsvif Strúctors jukust með hverju árinu og fyrirtækið var í stöðugum vexti fram að efnahagshruninu árið 2008. Eins og hjá flestum breyttu þessi kaflaskil miklu og við tók tími viðspyrnu fyrst á eftir.

Verkþættir og verkefni
Nú sem fyrr liggur verkefnaflóra fyrirtækisins mest á þjónustusviði við breytingar og viðhald á húsnæði, enda skilgreinir fyrirtækið sig sem byggingaþjónustu. Það má þó ekki skilja sem svo að Strúctor taki að sér að reisa nýbyggingar, þó fyrirtækið hafi komið að slíkum verkefnum sem undirverktaki (t.a.m. í Norðlingaholti og við byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu). Flísalögn er sem endranær einn af megin verkþáttum fyrirtækisins og þá oftast í formi endurnýjunar á baðherbergjum, anddyrum og eldhúsum. Parketgólflagnir og uppsetning innréttinga koma einnig við sögu, sem og allt viðhald fasteigna utanhúss. Þar ber hæst viðgerðir á múrskemmdum, málun, gluggainnsetningar og viðgerðir á þökum og þakrennum.
Ýmis sérverkefni koma einnig reglulega inn á borð og má þar nefna gerð mósaíkverka utan á húsnæði Landsstúku Frímúrarareglunnar á Íslandi, faglega aðstoð við uppsetningu Listasafns Íslands á verki Katrínar Sigurðardóttur, Undirstaða, sem og á útilistaverkum Olgu Bergmann við Iðntæknistofnun og tvíeykisins Berghall við Hólmsheiðarfangelsi. Skemmtilegar (og jafnvel undarlegar) verkbeiðnir berast sömuleiðis af og til, svo sem aðstoð við samsetningu IKEA húsgagna eða upphenging gardína.
Heilt á litið skiptist hlutfall vinnu innan og utandyra nokkuð jafnt, en er þó mjög árstíðarbundið. Yfir 80% viðskiptavina eru einstaklingar (og þar af mestmegnis húsa -og íbúðareigendur) en lestina reka fyrirtæki, félagasamtök og opinberir aðilar. Strúctor er með aðstöðu fyrir verkfæri og efni í Hafnarfirði en skrifstofuvinna fer fram í Vallarkór 2.

Þá, nú og næst
Fyrir utan þær breytingar sem rekstur Þorsteins hefur gengið í gegnun undanfarna fjóra áratugi hafa handtök og aðferðir lítið breyst, ef frá eru talin nýrri tæki og tól. Ýmislegt lítur þó öðruvísi út þegar kemur að vinnuumhverfi, svo sem aðgengi starfsfólks að sérmerktum og stöðluðum vinnufatnaði sem og sérmerktum vinnubílum. Samgangur verktaka og verkkaupa hefur einnig breyst — þekkt var að iðnaðarfólk sem vann inn á heimilum hafi þar nánast verið í fullu fæði á meðan verki stóð. Hlutfall faglærðra hefur einnig aukist sem og hlutfall erlends vinnuafls, sem því miður hefur alið á fordómum í garð fagfólks sem ekki talar íslensku að móðurmáli.
Þegar litið er til framtíðar er erfitt að spá fyrir um breytingar, nú sem endranær. Þó þær iðngreinar sem Strúctor fæst við muni ekki fara varhluta af sjálfvirknivæðingu komandi ára og áratuga, er ólíklegt að verkferlar lítilla og meðalstórra verka í viðhaldi og breytingu húsnæðis muni mikið breytast. Tækni og aðferðir við nýbyggingar mun þó líklega taka stakkaskiptum.

Stjórnendur og starfsfólk
Þegar mest lét voru yfir 20 manns á launaskrá auk ýmissa undirverktaka. Á árunum eftir hrun kjarnaðist starfsmannafjöldinn í tvo til þrjá en á síðustu árum hafa að meðaltali 6-8 manns starfað hjá fyrirtækinu. Hlutfall faglærðra er 100% þegar þetta er ritað og meirihluti starfsfólks af erlendu bergi brotið. Kynjahlutfall hefur því miður verið ójafnt í gegnum tíðina, þó fólk af báðum kynjum hafi komið að starfseminni.

Eigendur
Eignarhlutfall fyrirtækisins skiptist jafnt á milli tveggja einstaklinga:
Helgi Steinar Þorsteinsson, eigandi, framkvæmdastjóri og fjármálastjóri
og Þorsteinn H. Ingibergsson, eigandi, forstjóri, múrarameistari og verkstjóri.

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd