Stykkishólmsbær

2022

Stykkishólmur er gjarnan kallaður bærinn við eyjarnar en frá Stykkishólmi er fagurt útsýni um óteljandi eyjar Breiðafjarðar. Þar eru „eyjar og varphólmar hið næsta en fjöll allt í fjarska“ svo vitnað sé í Helga Hjörvar rithöfund og útvarpsmann sem þekkti svæðið vel. Bæjarstæðið er af mörgum talið eitt það fegursta á landinu. Eyjarnar og það mikla lífríki sem í Breiðafirði blómstrar, setur mark sitt á allt umhverfið og hefur í gegnum aldirnar verið hluti af því að skapa „matarkistu Breiðafjarðar“ sem um aldir var sótt í og tryggði afkomu þeirra sem bjuggu í eyjunum og næsta nágrenni þeirra.

Saga og þróun verslunarstaðarins Stykkishólms
Stykkishólms er fyrst getið í ritum árið 1274 í máldaga Jónskirkju að Helgafelli. Bæjarins er oft getið vegna góðrar hafnaraðstöðu þar sem Súgandisey skapar skjól við Stykkið sem bærinn ber nafn sitt af. Árið 1596 deildu Jóhann greifi af Aldinborg og Carsten Bache Brimarkaupmaður um verslunarréttindi í Nesvogi. Af því tilefni fær sá síðarnefndi Friðrik II Danakonung til þess að selja sér leyfi fyrir höfn er hann nefndi Stykkishólm. Þar með hófst verslunarstarfsemi í Stykkishólmi í umboði konungs á tíma einokunar. Síðan verður mikil breyting árið 1768 þegar Magnús sýslumaður Ketilsson lét hella niður möðkuðu mjöli sem konungsverslun seldi í Stykkishólmi. Sá atburður markaði endalok verslunareinokunar á Íslandi. Konungsverslunin var aflögð og seld 1786. Í byrjun 19. aldar hófst þéttbýlismyndun í Stykkishólmi þegar fyrstu íslensku kaupmennirnir settust þar að eftir að innanríkisverslun í Danaveldi var gefin frjáls. Í Stykkishólmi og nágrenni hafði þó verið verslað frá örófi alda, fyrst í svokölluðum Nesvogi, sem nú þekkist sem Búðanes. Skömmu fyrir 1600 fluttist Stykkishólmsverslunarstaður á kambinn milli „Bókhlöðuhöfða“ og „Sýslumannshóls“, þar sem þyrping reisulegra, gamalla íbúða- og verslunarhúsa stendur. Ekki er vitað með vissu hvenær fyrsta verslunarhúsið reis í Hólminum, þó var það talið eigi síðar en um 1630. Fyrsta íbúðarhúsið í Stykkishólmi mun hafa verið svonefnd Stekkjartangahjáleiga, torfhús sem stóð á lóðinni sem nú er Austurgata 9 en það kemur fyrst fyrir í jarðatalinu 1703. Húsum fjölgaði hægt í Stykkishólmi á 18. öldinni og stóðu þar aðeins fjögur timburhús þegar konungsverslunin var aflögð. Árið 1807 hófu tveir íslenskir kaupmenn verslunarrekstur í Stykkishólmi, hvor í sínu lagi. Ólafur Thorlacius keypti Stykkishólmsverslun og jörðina Grunnasundsnes og Jón Kolbeinsen sem áður hafði verið verslunarstjóri í Hólminum reisti sér hús og hóf verslun fyrir eigin reikning. Á þessum tíma var kominn vísir að þeirri þjónustu og landshlutamiðstöð sem síðar varð. Árni Thorlacius, sonur Ólafs, tók við staðarforráðum 1827. Hann rak stórbú í Grunnasundsnesi auk verslunar og útgerðar. Hann lét reisa yfir sig fyrsta tvílyfta íbúðarhúsið á Íslandi, Norska húsið árið 1832 sem stendur enn og er bæjarprýði. Árni hafði hlotið góða menntun erlendis og stundaði alla tíð fræðistörf. Hann hóf reglubundnar veðurathuganir árið 1845 og eru það elstu samfelldu veðurathuganir á Íslandi. Einnig ritaði Árni kennslubækur í skipstjórnarfræðum fyrir Bréflegafélagið. Árni Thorlacius var einn helsti styrktaraðili Sigurðar Breiðfjörð og kostaði útgáfu á ljóðabókum hans. Árni seldi Hans Clausen kaupmanni verslun sína og skip árið 1842. Að tillögu Bjarna Thorsteinssonar amtmanns og síðar fyrsta forseta hins endurreista Alþingis tók danska stjórnin þá ákvörðun 1850 að staðsetja alla embættismenn í syðri hluta Vesturamtsins í Stykkishólmi. Fljótlega mátti því finna í Hólminum amtmann, sýslumann, prest, lækni og apótekara auk þeirra kaupmanna sem fyrir voru. Þá var Amtsbókasafnið stofnað 1847 í þeim tilgangi að efla menntun og bókmenningu. Bjarni hefur verið nefndur faðir Stykkishólms enda hafði hann mikil áhrif á að Stykkishólmur varð stjórnsýslumiðstöð Vesturamtsins. Þetta samfélag danskmenntaðra manna og fjölskyldna þeirra mótaði bæjarbraginn. Frá teboðum þessa tíma er líklega sprottin sú lífseiga saga um að Hólmarar tali dönsku á sunnudögum. Bæði embættismenn og kaupmenn tóku til við að reisa yfir sig veglegan húsakost sem að mestu leyti var allur í einum hnapp á gömlu verslunarlóðinni frammi á sjávarkambinum, þar sem landeigandinn í Grunnasundsnesi var framan af fastheldinn á tún sín og beitilönd. Mun það einnig vera skýringin á því hvernig byggðin þróaðist upp höfðana lengi framan af. Stykkishólmur varð sérstök sókn 1878. Kirkja var reist 1878, barnaskóli 1896 og samkomuhús 1901. Gamli bærinn í Stykkishólmi eins og hann kemur fyrir sjónir í dag er talsvert mótaður af þeirri atvinnuuppbyggingu er hófst um 1930 en þá reisti Kaupfélag Stykkishólms hús það sem nú er ráðhús Stykkishólms, auk frystihúss sunnan Austurgötu. Norðan Austurgötunnar að Plássinu reis frystihús Sigurðar Ágústssonar og þar var einnig verslun hans í Taang og Ris húsinu er hann hóf að reka 1933. Upp af Austurgötunni á Stekkjartanganum trónir svo kirkja kaþólskra, klaustrið og spítali St. Franciskussystra.

Skipulag miðbæjar og húsafriðun
Stykkishólmur hefur á síðustu árum orðið að einum vinsælasta áningarstað ferðamanna.
Þar kemur margt til. Ef til vill vegur þar þungt metnaður bæjarbúa fyrir því að varðveita
umhverfi sitt og sögu svo komandi kynslóðir fái notið þeirra á sama hátt og gert er nú. Sú
hugsun endurspeglast hvað best í miðbæ Stykkishólms sem gjarnan er lýst sem safni
gamalla húsa sem ferðamenn hafa áhuga á að kynna sér. Með gerð húsakönnunar árið
1978 og ákvörðun um friðun og endurbyggingu fjölmargra elstu húsanna markaði bærinn
skýra stefnu í skipulagsmálum þar sem húsafriðun ræður ríkjum. Stykkishólmsbær fékk
skipulagsverðlaunin 2008. Þau voru veitt af Skipulagsfræðifélagi Íslands, fyrir deiliskipulag
miðbæjar, stefnu og framfylgd hennar. Skipulagið og gerð bygginga mótast mjög af þeim
ásum, borgum, holtum, höfðum og víkum sem einkenna allt land Þórsnessins. Þetta fjölbreytta byggingarland hefur gefið arkitektum og hönnuðum tækifæri til þess að láta byggingalistina setja svip á bæinn og kallast á við fjallahringinn og eyjarnar óteljandi.

Atvinnulíf
Stykkishólmur hefur í gegnum tíðina verið miðstöð verslunar, þjónustu og samgangna yfir
Breiðafjörð. Breiðafjarðarferjan Baldur hefur verið forsendan fyrir flutningum yfir fjörðinn og
þjónustu við ferðamenn sem eiga leið til og frá Vestfjörðum. Stykkishólmur skartar fjölbreyttu atvinnulífi en vöxtur ferðaþjónustu varð mjög mikill eftir að Stykkishólmsbær byggði Hótel Stykkishólm sem hóf rekstur árið 1977 en er í dag rekið sem Fosshótel. Í tengslum við ferðaþjónustuna hefur Hólmurinn vakið athygli fyrir ríka matarmenningu bæjarins, sem sækir einkenni sín ekki síst úr matarkistu Breiðafjarðar, og margrómaða veitingastaði sem bjóða framúrskarandi mat úr firði, fjöru og fjalli. Sú þjónusta er aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Nokkrir stórir vinnustaðir með ólíka starfsemi eru í bæjarfélaginu og fjölmörg einkafyrirtæki af ýmsum stærðargráðum með fjölþættan rekstur. Stór hópur iðnaðarmanna sinnir byggingarstarfsemi en iðnmenntun þróaðist hratt á meðan Iðnskóli Stykkishólms var starfræktur. Skipasmíðar hafa í gegnum tíðina verið stór þáttur í atvinnulífinu en bæjarfélagið skapaði þá aðstöðu með byggingu dráttarbrautar og hafnar í Skipavík. Sjávarútvegur hefur verið að vaxa aftur eftir mikið áfall sem varð árið 2003 er sýking varð til þess að hætt var veiðum á hörpudiski sem var stóriðja Stykkishólms. Sjávarútvegsfyrirtækin Agustson ehf. og Þórsnes ehf. voru og eru megin stoðirnar í veiðum og vinnslu en jafnframt eru minni fyrirtæki sem stunda veiðar og vinnslu m.a. á grásleppu, sæbjúgum og ígulkerum. Jafnframt er harðfiskvinnsla. Nú er unnið að því að koma upp vinnslu verðmætra efna úr þangi og þörungum úr Breiðafirði sem gæti orðið umfangsmikil starfsemi er gæti nýtt þá mikilvægu orku sem Veitur með hitaveitunni og Rarik með raforkusölu leggur til. Hitaveitan sem býður uppá hóflegt orkuverð bætir búsetuskilyrðin umtalsvert í bænum.
Opinber þjónusta er og hefur verið verulegur þáttur í atvinnulífinu. Má þar nefna embætti
Sýslumanns Vesturlands, þjónustumiðstöð RARIK á Vesturlandi og Sjúkrahúsið sem til skamms tíma var einn stærsti vinnustaður bæjarins. St.Franciskussystur hófu rekstur sjúkrahússins árið 1936 en það var stækkað uppúr 1980 er byggð var heilsugæslustöð og legudeild stækkuð þar sem Háls- og bakdeildin með lækni og hópi sjúkraþjálfara hefur verið starfrækt með miklum ágætum. Þegar kemur að störfum án staðsetninga, sem færast að öllu óbreyttu í aukana á komandi árum, er Stykkishólmsbær góður staður, þar sem allir kostir landsbyggðarinnar fara saman við nálægðina við höfuðborgarsvæðið.

Íþróttastarf
Í Stykkishólmi þrífst blómlegt íþróttalíf sem á rætur að rekja til þess að mjög snemma var
byggt lítið íþróttahús, sundlaug og síðan íþróttavöllur. Aðstæður til íþróttaiðkunar eru til fyrirmyndar í Stykkishólmi en mikil uppbygging var á skömmum tíma í þessum efnum. Á einungis níu árum tók Stykkishólmsbær í notkun íþróttahús árið 1990, íþróttavöllurinn var stækkaður árið 1996 og nýja sundlaugin tekin í notkun árið 1999. Golfvöllur var skipulagður á níunda áratugnum en Golfklúbburinn Mostri byggði hann upp af miklum myndarbrag. Þá má geta þess að hestamennska er mikið stunduð og var skipulagt og byggt upp hestaíþróttasvæði í samstarfi bæjarins og hestaeigendafélgsins. Hólmarar hafa verið íþróttasinnaðir í áranna
rás og náð merkum áföngum á hinum ýmsu sviðum íþróttanna. Bærinn er orðinn þekktur
sem körfuboltabær, þar sem bæði kvenna og karlalið UMF Snæfells hafa náð frábærum
árangri undanfarin ár.

Menningarlíf og skólastarfsemi
Þróttmikið menningarlíf þrífst í Hólminum þar sem áherslan hefur verið lögð á marga smáa
viðburði á öllum árstímum, sem þjónustufyrirtæki og veitingastaðir bæjarins geta sinnt
og félag atvinnurekanda hefur ásamt öðrum félögum skipulagt. Þetta endurspeglar í raun
ímynd Stykkishólms, þar sem kostirnir liggja í smæðinni, allir þekkjast og njóta góðs af því
að lifa í samfélagi sem lætur sér annt um sitt heimafólk. Á vettvangi menningarmála hefur
Tónlistarskólinn leikið mikilvægt hlutverk með lúðrasveit og kórastarfi sem og Leikfélagið
Grímnir, Kvenfélagið Hringurinn, Lionsklúbburinn og Kirkjukór Stykkishólmskirkju.
Kirkjustarf er og hefur verið mjög öflugt en kirkjurnar setja mikinn svip á bæinn. Starfsemi
þjóðkirkjunnar er öflug og fer fram bæði í Stykkishólmskirkjunni nýju sem og í gömlu kirkjunni sem var endurbyggð á forsendum húsafriðunar. Þá starfa nunnur kaþólsku kirkjunnar sem og söfnuður Hvítasunnukirkjunnar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd