Súðavíkurhreppur

2022

Súðavíkurhreppur er sveitarfélag við sunnanvert Ísafjarðardjúp um 760 km² að flatarmáli með langa strandlengja um þrönga firði. Mörk hreppsins liggja að botni Ísafjarðar í Djúpi þar sem að honum liggur Strandabyggð að austanverðu en mörk við Ísafjarðarbæ að vestanverðu við Brúðarhamar á Súðavíkurhlíð. Eyvindur kné nam Álftafjörðinn og Seyðisfjörðinn 915-930 en hann og kona hans, Þuríður rymgylta, bjuggu á Eyri við Seyðisfjörð. Súðavík er vestan megin Álftafjarðar og eini þéttbýliskjarninn, fyrst nefnt þorp árið 1890. Upphaf þéttbýlismyndunar má líklega rekja í fyrstu til Hansakaupmanna en þeir höfðu aðstöðu við Langeyri, byggðu hús og skip höfðust við að vetri til. Umsvif þeirra voru talsverð á 15. og 16. öld í Álftafirði. Þá komu síðar til hvalveiða Norðmanna á Íslandi á síðari hluta 19. aldar og umsvif þeirra hafa styrkt byggð í Álftafirði. Umsvif við veiðar og því uppgangstími og ástæða þéttbýlismyndunar á svæðinu. Norðmenn höfðu fyrst hvalstöð við Dvergasteinseyri í Álftafirði frá árinu 1896 – 1903, en hvalstöð þeirra á Langeyri við Álftafjörð var stærri og átti að gegna sem nokkurs konar miðstöð veiða þeirra á Íslandi. Með lokun hvalveiðistöðvar í Álftafirði lögðust af veiðar á stórhveli á Íslandi. Súðvíkingurinn Þorlákur Guðmundsson (Hrefnu-Láki) hóf aftur veiðar á hrefnu árið 1914, en hann stundaði hrefnuveiðar til ársins 1950. Fjölskylda hans stundaði áfram hrefnuveiðar frá Súðavík til ársins 1985.

Sagan
Í Súðavíkurhreppi er að finna sögufræga staði og fyrrum bústað áberandi Íslendinga. Vatnsfjörður við Ísafjarðardjúp, er landnámsjörð Snæbjarnar Eyvindarsonsar. Vatnsfjörður er merkur staður í sögu Íslands enda var þar helsta bækistöð Vatnsfirðinga á Sturlungaöld. Ekki verður heldur hjá því komist að nefna Ara Magnússon sýslumann og Jón Ólafsson Indíafara.

Ari Magnússon
Ari Magnússon var sýslumaður á Vestfjörðum á 16. öld. Hann var fæddur árið 1571 og lést árið 1652, jafnan kenndur við Ögur við Ísafjarðardjúp. Ari var umboðsmaður konungsjarða á Íslandi og umsvifamikill sýslumaður, þótti harður í horn að taka og heljarmenni. Ari vann sér helst til frægðar aðför að baskneskum skipbrotsmönnum í Æðey í Djúpi eftir að hafa látið dæma þá réttdræpa í Súðavík þann 8. október 1615. Í Æðey féllu 18 þeirra basknesku, en ungur sonur Jóns mun hafa unnið á nokkrum þeirra með byssu, enda gekk aðförin illa framan af.

Jón Ólafsson
Jón Ólafsson Indíafari fæddist á Svarthamri í Álftafirði. Hann ferðaðist víða og dregur viðurnefni sitt af því, en hann réð sig um borð í enska skútu árið 1615, síðar byssuskytta og sjóliði hjá danska hernum. Hann sneri aftur í Álftafjörðinn og bjó þar árin 1628-1639 og svo aftur 1649-1654. Jón og Ingibjörg kona hans fluttu til Vestmannaeyja og Jón var ráðinn byssuskytta í Eyjum. Ingibjörgu líkaði illa í Eyjum og sneru þau ári síðar til Álftafjarðar þar sem hún drukknaði haustið 1640. Jón kvæntist aftur og bjó með Jónu Þorbjörgu, um tíma í Uppsölum í Seyðisfirði en þau fluttu síðar að konungsjörðinni Eyrardal til æviloka Jóns 1654.
Í hreppnum eru náttúruperlurnar Vigur þar sem er að finna fjölskrúðugt fuglalíf, fjallið Hestur (536 m) sem er gríðarlega einkennandi í landslaginu og fjallið Kofri (640 m) fyrir ofan Súðavíkina. Í mannskæðu snjóflóði í Súðavík þann 16. janúar 1995 létust 14 og 12 slösuðust, en auk þess varð mikið eignatjón, en 16 íbúðarhús skemmdust ásamt fyrirtækjum og stofnunum; m.a. leikskóli og hreppskrifstofa. Margir fluttu úr byggðarlaginu eftir flóðið. Hreppsnefnd Súðavíkurhrepps kom saman 23. janúar 1995 eftir flóðin og ákvað að halda borgarafund um málefni þorpsins. Niðurstaðan var að færa byggðina og deiliskipuleggja land Eyrardals undir nýja byggð m.t.t. kostnaðar við byggingu snjóflóðavarnargarðs. Fyrsta skóflustunga að nýrri byggð var tekin þann 30. apríl 1995.

Atvinnumál
Atvinnustarfsemi er lengst af sjávarútvegstengd í Súðavíkurhreppi, en það breyttist með lokun Frosta hf. árið 2005 og lokum rækjuvinnslu. Í húsnæði Frosta starfa nú um 2-3 fyrirtæki við verkun harðfisks og lifrar. Útgerð er bundin við sjósókn krókabáta og sjóstangveiði. Þá er í hreppnum kvíaeldi á regnbogasilungi þjónustað frá Súðavík. Framleiðslufyrirtækið Sætt og salt er í Súðavík sem framleiðir handgert súkkulaði og fyrirtækið Saltverk við Reykjanes í Djúpi sem vinnur sjávarsalt. Þá eru verktakarnir Tígur í jarðvinnslu á staðnum og iðnaðarmenn í timbri og lögnum. Stærsti vinnustaður sveitarfélagsins er Súðavíkurhreppur. Nokkur ferðaþjónustufyrirtæki eru í sumarferðaþjónustu, s.s. Vigur, Hvítanes (Litlibær), Ögurtravel, Melrakkasetur Íslands og Icelandi Sea Angling en ferðaþjónustan í Heydal starfar allt árið um kring. Melrakkasetrið var stofnað 15. september 2007 og er í gamla bænum í Eyrardal, fallegu húsi sem var endurgert árið 2011. Melrakkasetrið er eina safn sinnar tegundar með miðstöð þekkingar og rannsóknarstarfa á lifnaðarháttum heimskautarefsins og sýningu sambýlis refs og manna.

Mannlíf og afþreying
Sveitarfélagið telur um 200 manns í dag. Mannlíf í Súðavíkurhreppi er fjölskrúðugt með eitt hæsta hlutafall innflytjenda á Íslandi, en um þriðjungur íbúa eru af erlendum uppruna. Fjölbreytileikinn er því eitt af aðalsmerkjum sveitarfélagsins svo og barnvænt umhverfi. Súðavíkurskóli er samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli, en leikskóli er gjaldfrjáls og því kærkomið barnafjölskyldum að búa í sveitarfélaginu. Meðal fastra viðburða í Súðavíkurhreppi er Gönguhátíðin um verslunarmannahelgina enda er í hreppnum áhugavert umhverfi fyrir göngur, bæði fyrir lengra komna og byrjendur. Eitt helsta aðdráttarafl sveitarfélagsins er þó Raggagarður, fjölskyldugarður stofnaður 6. ágúst 2005 til minningar um Ragnar Frey Vestfjörð sem lést í bílslysi árið 2001 í Súðavík. Móðir hans, Vilborg Arnarsdóttir á veg og vanda að stofnun hans. Skammt frá er líklega minnsta bókasafnið á landinu, Litla skiptibókasafnið, en það er staðsett í símaklefa í gömlu byggðinni í Súðavík.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd