Suðurverk hf

2022

Verktakafyrirtækið Suðurverk sinnir allri mögulegri jarðvinnu í tengslum við mannvirkjagerð ásamt vegalagningu og hefur til margra ára einnig starfrækt vélaleigu. Helstu verkefni hafa falist í vegagerð, stíflugerð við vatnsfallsvirkjanir á hálendi og hafnargerð.

Upphafið og framgangurinn
Suðurverk hefur ávallt einsett sér að sýna af sér alúð, natni og heiðarleika í öllum sínum verkum, en nærtækasti vitnisburðurinn er hin langa vegferð fyrirtækisins sem hófst fyrir rúmlega hálfri öld, 55 árum. Stofnandi og núverandi framkvæmdastjóri er Dofri Eysteinsson. Hann er fæddur þann 30. mars 1947 og uppalinn á bænum Brú við Markarfljót, en bjó þó lengstum á Hvolsvelli. Árið 1966 fjárfesti Dofri í traktorsgröfu og komst fljótlega í mikil uppgrip við lagningu vatnsleiðslu sem liggur um Landeyjar til Vestmannaeyja. Í beinu framhaldi tóku við ýmis tilfallandi vegagerðarverkefni sem leiddu til þess að Dofri Eysteinsson stofnaði sameignarfélagið Suðurverk árið 1967 ásamt Sveini Þorlákssyni. Fyrirtækið var starfrækt í þeirri mynd fram til ársins 1985 en þá stofnaði Dofri ásamt fjölskyldu sinni hlutafélagið Suðurverk.

Fyrstu árin starfaði Suðurverk að mestu sem vélaleiga. Jarðýtur og beltagröfur nýttust t.d. til vegagerðar á Suðurlandi og við gröft á framræsluskurðum fyrir bændur ásamt ýmsum jarðvinnuverkum. Í kringum 1970 ríkti mikil kreppa í verklegum framkvæmdum hér á landi og fór fyrirtækið ekki varhluta af því. Verkefnastaðan glæddist þó þegar líða tók á áttunda áratuginn. Þar kom t.d. til mikið starf við gjóskuhreinsun eftir Vestmannaeyjagosið árið 1973 og við vegagerð og varnargarða í tengslum við brúarframkvæmdir á Skeiðaársandi, en þangað leigði Vegagerðin til sín jarðvinnutæki frá Suðurverki.
Að öllum líkindum er Suðurverk stærsta íslenska verktakafyrirtækið sem komst nokkurn veginn óskaddað í gegnum hrunið árið 2008. Eflaust hefur það eitthvað haft að segja að Dofri framkvæmdastjóri er með puttann á púlsinum og tekur virkan þátt í verkefnum fyrirtækisins. Enn þann dag í dag eru sömu eigendur og er engan bilbug á þeim að finna.

Verkefni Suðurverks
Í áratugi hefur Suðurverk verið á meðal öflugustu jarðvinnuverktaka á Íslandi og verkefnin eftir því orðin fjöldamörg. Stærstu verkin eru án efa virkjanamannvirki, stíflur, skurðir og grjótgarðar auk vegagerðar og vinnu við undirstöður mannvirkja.
Á meðal helstu viðskiptavina Suðurverks er Vegagerð ríkisins en á árunum 2000-2003 lagði Suðurverk nýjan 13 km þjóðveg yfir Vatnaleið á Snæfellsnesi fyrir þá. En þetta mannvirki hlaut viðurkenningu Vegagerðarinnar árið 2003 fyrir gerð og frágang.
Árið 2007 lauk vinnu við snjóflóðavarnir á Siglufirði, en verkið samanstóð af fimm varnargörðum og einum garði sem á að beina snjóflóði af leið. Garðarnir voru 1.920 metrar að lengd og voru notaðir 720 þúsund rúmmetrar af fyllingarefni í verkið.
Árið 2008 sá Suðurverk um framkvæmd á hringtorgi á Arnarnesvegi yfir Reykjanesbraut, en hringtorgið þjónar jafnframt hlutverki brúar og mislægra gatnamóta. Í verkið voru notuð 340 tonn af stáli og 4.220 tonn af malbiki.
Árið 2010 tók Suðurverk að sér að leggja síðustu 15 kílómetra Suðurstrandarvegar, á milli Krýsavíkur og Ísólfsskála, með bundnu slitlagi og lauk því verkefni árið 2012.
Suðurverk og tékkneska fyrirtækið Metrostav hafa unnið að sameiningu að Norðfjarðargöngum og Dýrafjarðargöngum. Í lok árs 2017 voru Norðfjarðargöng tekin í notkun en um gríðarlega samgöngubót var að ræða fyrir alla Austfirðinga. Göngin sem eru 7,9 kílómetra löng tók fjögur ár að grafa og greip framkvæmdastjórinn sjálfur, Dofri, oftar en ekki í vinnuvélarnar. En eins og hann segir sjálfur frá þá er það miklu skemmtilegra en að sitja við skrifborðið. Um mitt ár 2017 hófust framkvæmdir við Dýrafjarðargöng en um var að ræða eitt langstærsta verkið á samgönguáætlun á þeim tíma.
Vinna við varnargarða á Patreksfirði hófst árið 2020 og fóru um 300 þúsund rúmmetrar jarðvegs í þá, Urðargarð og Mýrargarð. Um er að ræða gríðarlegt mannvirki sem mun breyta ásýnd bæjarlns til frambúðar, en lögð var mikil áhersla á að þeir gætu nýst sem útivistarsvæði á þeim tímum sem ekki væri hætta á flóðum.

Virkjanaframkvæmdir
Allt fram til dagsins í dag hefur Suðurverk sérhæft sig í vandasamri jarðvinnu við ýmsar fallvatnsvirkjanir. Sú þróun hófst strax á áttunda áratugnum við byggingu Sigölduvirkjunar, en þar var sinnt undirverktöku fyrir júgóslavenska fyrirtækið Energo Project.
Árið 1982 hóf fyrirtækið að gera tilboð á hinum almenna útboðsmarkaði og náði með því nokkrum stórum verkum fyrir Landsvirkjun auk leigu á tækjum í ýmsar jarðvegsframkvæmdir. Á árunum 1983-84 tók Suðurverk að sér byggingu þriðja áfanga Kvíslaveitna og var sú framkvæmd sú viðamesta sem fyrirtækið hafði komist í tæri við. Hér var um að ræða upphafið að mikilli framkvæmd, í mörgum áföngum, sem miðar að því að veita ýmsum kvíslum Þjórsár inn í miðlunarlón Þórisvatns. Lónið tengist síðan fimm virkjununum sem eru Búrfellsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun, Sultartangavirkjun og Vatnsfellsvirkjun. Suðurverk átti eftir að verða ansi þaulsetið á þessum slóðum. Starfsmenn hafa ekki vílað fyrir sér að leggja vegi upp að athafnasvæðum og flytja þangað vinnuskúra með mikill fyrirhöfn yfir fjöll og firnindi. Fyrirtækið tók einnig að sér fjórða áfanga Kvíslaveitna sem unnið var að á árunum 1996-1997. Við þessar aðstæður krefst sjálf stíflugerðin mikillar nákvæmnisvinnu þar sem t.d. slétta þarf út allar mögulegar ójöfnur á milli klappar og stíflubotns ásamt því að þétta undirstöðurnar eins vel og hægt er.
Helstu virkjanaverkefni Suðurverks í byrjun 21. aldarinnar voru á Kárahnjúkasvæðinu á Austurlandi. Þar voru byggðar tvær hliðarstíflur í Desjarárdal og Sauðárdal og lauk þeim framkvæmdum árið 2007. Á sama tíma voru vinnubúðir Suðurverks færðar frá Kárahnjúkum niður á Reyðarfjörð þar sem unnið var við gröft og fyllingar í grunni álvers Alcoa Fjarðaáls. Fyrirtækið hefur jafnframt sinnt öðrum tilfallandi verkefnum á svæðinu eins og lagnavinnu, gerðar umhverfisvænna settjarna o.fl. Verkkaupi var kanadíska verktakafyrirtækið Bechtel sem byggði álverið fyrir Alcoa. Í framhaldi af þessu þá valdi Bechtel Suðurverk til að taka að sér ýmis önnur verkefni vegna ánægju með samstarfið og á endanum varð verðmæti verksins nálægt 6 milljörðum eða meira en tvöfaldur upprunalegi samningurinn.

Grjótgarða- og hafnagerð
Á langri vegferð hefur Suðurverk byggt upp sérhæfingu sína í kringum grjótgarða og hafnargerð. Fyrirtækið hefur unnið við allar helstu hafnir landsins. Meðal athyglisverðra verkefna er t.d. Eyjagarður í Örfirisey, grjótgarðar í Grindavík, á Vopnafirði, við Höfn í Hornafirði og við Breiðamerkurlón. Einnig var unnið við snjóflóðavarnargarða á Siglufirði. Sú framkvæmd tók fjögur sumur í sérlega erfiðum aðstæðum sem sköpuðust vegna mikils raka í jarðefnunum. Árið 2008 tókst Suðurverk á við eitthvert stærsta hafnarmannvirki sem risið hefur hér á landi. Hér er um að ræða viðamikla hafnargerð í Bakkafjöru á Landeyjasandi sem er m.a. fyrir skipulegar ferjusiglingar til Vestmannaeyja en Suðurverk sá um efnisvinnslu, brimvarnargarða, viðlegukant og stöðvarhús. Þungamiðja framkvæmdanna voru tveir 700 metra garðar, en í þá fóru um 650.000 rúmmetrar af grjóti sem sótt var upp í Seljalandsheiði, í um 500 m hæð yfir sjávarmáli, eins fóru 550.000 rúmmetrar í vegfyllingar sem var unnið og flutt á framkvæmdasvæðið. Stærstu björgin voru mörg hver 12-30 tonn að stærð. Framkvæmdunum lauk í nóvember 2010.

Aðsetur og starfsmenn
Suðurverk er með aðsetur í Hlíðasmára 6 í Kópavogi og hjá því starfar um 50 manna fastur kjarni; úrvalsfólks sem sumt hefur verið viðloðandi starfsemina til margra ára. Fyrirtækið leitast eftir því að hafa innan sinna raða ábyrgt, áhugasamt og traust starfsfólk sem kann að vinna saman. Mikilvægt er að gagnkvæm virðing og umburðarlyndi einkenni öll samskipti manna í millum.

Gæða- umhverfis og öryggisstefna
Stefna Suðurverks í umhverfismálum er að vinna í sátt við umhverfið og með sjónarmið umhverfisverndar að leiðarljósi. Umgengni við umhverfið skuli vera með þeim hætt að ekki hljótist af mengun eða annar skaði og tryggja skal stöðugar úrbætur í umhverfisstjórnun.
Í öryggis- og vinnuumhverfismálum er það stefna Suðurverks að vera í fararbroddi á meðal verktaka. En tilgangur stefnunnar er sá að allir starfsmenn snúi heilir heim úr vinnu í lok hvers vinnudags og líði vel í starfi.
Suðurverk einsetur sér að uppfylla kröfur stjórnvalda í umhverfis- öryggis- og vinnu-umhverfismálum samhliða því að vinna ötullega að stöðugum útbótum í þessum málaflokkum.

Markmið
Markmið Suðurverks er að sjá viðskiptavinum sínum fyrir góðri almennri verktakaþjónustu í mannvirkjagerð og að vera í hæsta gæðaflokki á því sviði. Til þess að ná því markmiði þá er stefnt að því að efla: Samkeppnishæfni – Fyrirtækið skal veita faglega þjónustu sem er löguð að þörfum viðskiptavinarins og stenst jafnframt samanburð við það besta í alþjóðlegu umhverfi.
Gæði – Traust og góð þjónusta. Einnig að upplýsingamiðlun sé samkvæmt bestu vitneskju á hverjum tíma.
Eigin hæfni – Gæði byggi á styrkum innviðum fyrirtækisins þar sem farið er eftir kröfum gæðastjórnunarkerfisins ISO 9001 með öflugu innra eftirliti og stöðugum umbótum.
Samstarf við verktaka – Sömu gæða- umhverfis- og öryggiskröfur eru gerðar til verktaka og þjónustuaðila.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd