Suzuki var stofnað í Japan árið 1909 af Michio Suzuki. Fyrirtækið átti vefstóla sem ófu silki, en silkivefnaður er stór atvinnugrein í Japan.1920 var stofnað hlutafélag um reksturinn Suzuki Loom Company. Á fyrstu þrjátíu árunum einbeitti Suzuki sér að þróun og framleiðslu vefstóla og fékk yfir 120 einkaleyfi á vefstólum. Það var svo árið 1955 sem fyrsti bíll Suzuki var framleiddur, Suzulight, og hófst þar með bílaframleiðsla Suzuki.
Starfsemin
Árið 1981 hóf Þórir Jónsson, þáverandi eigandi Sveins Egilssonar hf., innflutning á Suzuki bílum til Íslands. Viðtökur markaðarins voru strax ágætar og hélst svo fram á síðari hluta þess áratugar. Segja má að Suzuki hafi komist endanlega á blað á árunum 1987 og 1988 með til-komu fólksbílsins Suzuki Swift GTI. Bíllinn fékk mjög góða dóma hjá íslenskum kaupendum. Salan jókst verulega í kjölfarið og seldust um 500 bílar á ári. Í lok níunda áratugarins var efnahagsleg lægð á Íslandi og lentu mörg bílaumboð í erfiðleikum, þeirra á meðal var Ford umboðið Sveinn Egilsson hf. sem einnig flutti inn Suzuki og Fiat. Til að bregðast við því var ákveðið að skipta upp fyrirtækinu. Suzuki umboðið var selt til tveggja starfsmanna, þeirra Úlfars Hinrikssonar og Þorbergs Guðmundssonar sem stofnuðu nýtt fyrirtæki; Suzuki bíla hf. Þeir fluttu starfssemina yfir í gamla Ford-húsið í Skeifunni 17 þar sem fyrirtækið er starfrækt enn í dag. Suzuki bílar hf. hefur frá upphafi verið rekið sem fjölskyldufyrirtæki með áherslu á jákvæða og persónulega þjónustu. Þrátt fyrir mikinn og góðan vöxt fyrirtækisins hefur tekist að viðhalda þeim sérkennum. Gott starfsfólk er stærsti auður hvers fyrirtækis, Suzuki bílar hf. hefur verið mjög farsælt frá stofnun fyrirtækisins, starfsmannavelta er afar lág sem skapar traust á markaði.
Árið 2008 jók Suzuki bílar hf. starfsemi sína með kaupum á Suzuki umboðinu ehf. (mótorhjól, utanborðsmótorar, auka-varahlutir) sem þá var staðsett í Hafnarfirði en fluttist þar með í Skeifuna 17. Árið 2011 keyptu Suzuki bílar hf.- Semoco ehf. (Suzuki verkstæðið) og yfirtóku reksturinn.
Eigendur, stjórnendur og starfsfólk
Í dag starfa 24 starfsmenn hjá Suzuki bílum hf. og er öll starfsemin í Skeifunni 17. Úlfar og Þorbergur eiga enn meirihluta í fyrirtækinu en meðeigendur eru Þráinn Þorvaldsson, Sigurbjörn Fanndal og Gunnar Helgason og skipa þessir aðilar einnig stjórn fyrirtækisins. Úlfar starfar sem framkvæmdastjóri, sölustjóri er Ólafur J. Kolbeins, markaðsstjóri er
Sonja G. Ólafsdóttir og Kristján Jóhannsson, verslunarstjóri varahlutadeildar.
Uppákomur og viðburðir
Suzuki bílar hf. leggja mikið uppúr ánægju viðskiptavinarins, m.a. með því að standa fyrir skemmtilegum uppákomum og viðburðum þar sem eigendur og áhugafólk um Suzuki bíla og mótorhjól getur gert sér glaðan dag og borið saman bækur sínar.
Meðal viðburða er árlegur Hjóladagur Suzuki í Skeifunni 17. Hayabusa-klúbburinn á Íslandi, Gaflarar, Raftarnir og fleiri mótorhjólaklúbbar mæta þá á svæðið með sín hjól, sum hver gömul Suzuki-hjól. Þegar sem mest er eru um 40 mótorhjól á planinu og er stemningin gífurleg.
Miðnæturhlaup Suzuki hefur verið haldið á Jónsmessunótt undanfarin 27 ár. Hlaupið nýtur mikilla vinsælda og er nú orðið annað stærsta hlaup á Íslandi, á eftir Reykjavíkurmaraþoninu. Árið 2019 var nýtt þátttökumet slegið með 3015 þátttakendum. Þá hefur Suzuki bílar hf. verið styrktaraðili í Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka í áratugi og sett upp skemmtistöð með tónlist, góðgæti fyrir hlaupara og góða skapið alltaf í fyrirrúmi. Þá var fyrsta Jeppa- og jepplingaferð Suzuki haldin 2019. Þá söfnuðust eigendur slíkra bíla saman og óku Krísuvíkurhringinn í Reykjanesfólkvangi í dásemdar veðri undir forystu starfsmanna Suzuki. Mætingin var mjög góð og frábær stemning. Ökuleiðin er fær bæði jeppum og jepplingum. Á áfangastað, við Kleifarvatn, sá Grillvagninn um að elda gómsæta hamborgara og franskar ofan í þátttakendur í boði Suzuki. Í lok ferðar voru þátttakendur kvaddir með Suzuki glaðningi. Þessi fyrsti Jeppa- og jepplingadagur var svo vel heppnaður að þátttakendur bíða í ofvæni eftir næstu ferð.
Markmið og framtíðarsýn
Sem fyrr segir er markmið Suzuki bíla hf. að veita viðskiptavinum sínum persónulega, góða og faglega þjónustu á öllum sviðum. Gildi fyrirtækisins eru: Virðing, samvinna, áreiðanleiki og persónulegt viðmót. Framtíðarsýn fyrirtækisins er að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur og byggja undir traust viðskiptavina á vörumerkinu. Framundan eru spennandi tímar með nýjum tegundum bíla, s.s. hybrid, rafmagni og aðra mögulega vistvæna aflgjafa.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd