Sveitarfélagið Svalbarðshreppur er í Þistilfirði og taldi 93 íbúa þann 1. desember 2020. Næsti byggðakjarni er Þórshöfn í Langanesbyggð þangað sem íbúar sækja flesta þjónustu en mikil samvinna er á milli sveitarfélaganna, s.s. með rekstur leik- og grunnskóla, íþróttahúss og dvalarheimilis.
Atvinna
Aðalatvinnuvegur er sauðfjárbúskapur auk þess sem fjölmargir sækja vinnu til Þórshafnar, bæði við dagleg störf og eins starfa margir bændur við landandir og uppskipanir í kringum sjávarútveginn. Alls eru 17 bú eru í rekstri og mikil endurnýjun hefur verið undanfarin ár þar sem ný kynslóð hefur tekið við búskap. Auk sauðfjár eru hestar, geitur, alifuglar og nautgripir. Ferðaþjónusta hefur sótt í sig veðrið undanfarin ár á svæðinu en í sveitarfélaginu er nú rekið gistiheimili í Holti sem og ferðaþjónusta í Svalbarðsskóla. Þar er einnig fræðasetur um forystufé. Fleiri lítil fyrirtæki eru í rekstri auk sauðfjárbúa, til dæmis var nýverið keypt hingað sápu- og kertaframleiðsla.
Umhverfið
Þistilfjörðurinn er opinn með fjallahringinn í fjarska. Sést því til sólar árið um kring og sólarlag á sumarkvöldum engu líkt. Eitt helsta aðdráttaraflið er Rauðanesið, en þar er afar falleg gönguleið sem er stikuð. Fleiri skemmtilegar gönguleiðir má finna og ósnortna náttúru inn til heiða. Reki er nokkur í firðinum en auk þess eru hlunnindi í æðarvarpi, silungsveiði sem og laxveiði. Svalbarðshreppur liggur frá Hafralónsá í austri að Ormasá í vestri, en auk þeirra eru gjöfular silungs- og laxveiðiár; Hölkná, Sandá og Svalbarðsá. Kirkjustaður er að Svalbarði en Svalbarðskirkja er nú rúmlega 170 ára gömul.
Afþreying og menning
Félagslíf í sveitinni hefur alltaf verið líflegt en þar má nefna Kvenfélag Þistilfjarðar sem telur um 20 konur. Auk reglulegra félagsfunda heldur félagið einnig spilakvöld, bingó, sér um dagskrá á 17. júní auk annarra skemmtana. Búnaðarfélag Þistilfjarðar starfar sem hagsmunafélag bænda og svo er Hestamannafélagið Snæfaxi einnig starfandi á svæðinu og reynir að hafa mót á hverju sumri auk annarra viðburða. Þorrablót og aðrir stærri viðburðir eru sameiginlegir með íbúum Langanesbyggðar, auk sameiginlegs íþróttastarfs og annars félagastarfs.
Hreppsnefnd
Hefð er fyrir því að hreppsnefnd sé kosin með persónukjöri en núverandi hreppsnefnd skipa: Sigurður Þór Guðmundsson í Holti, oddviti, Einar Guðmundur Þorláksson á Svalbarði, Ina Leverköhne á Fjallalækjaseli, Ragnar Skúlason á Ytra-Álandi og Sigríður Jóhannesdóttir á Gunnarsstöðum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd