Svalbarðsstrandarhreppur

2022

Svalbarðsstrandarhreppur liggur við austanverðan Eyjafjörð, undir hlíðum Vaðlaheiðar og dregur nafn sitt af ströndinni, Svalbarðsströnd. Sveitin er um 14 km frá norðri til suðurs. Íbúafjöldi sveitarfélagsins í janúar 2019 voru 491 íbúar en í þéttbýliskjarnanum á Svalbarðseyri býr um helmingur íbúa. Við þéttbýlið á Svalbarðseyri er Ráðhús sveitarfélagsins og skólinn. Góð aðstaða er til íþróttaiðkunar á Svalbarðseyri, en þar er auk íþróttahúsins og sundlaugarinnar, sparkvöllur, golfvöllur, fótboltavöllur og frjáls-íþróttavöllur auk hins sívinsæla ærslabelgs. 
Til að bregðast við aukinni fólksfjölgun í sveitarfélaginu rís nýtt hverfi norðan við núverandi byggð á Svalbarðseyri. Fer uppbygging hins nýja hverfis vel af stað og er það fagnaðarefni hversu margir hafa sýnt verkefninu áhuga. www.svalbardsstrond.is

Sveitarstjórn
Sveitarstjórn kjörtímabilið 2018-2022 skipa: Gestur Jensson oddviti, Anna Karen Úlfarsdóttir varaoddviti, Guðfinna Steingrímsdóttir, Ólafur Rúnar Ólafsson og Valtýr Þór Hreiðarsson. Valtýr óskaði eftir lausn úr sveitarstjórn í janúar 2021, í hans stað kom 1. varamaður Árný Þóra Ágústsdóttir. Sveitarstjóri er Björg Erlingsdóttir.

Skólasamfélagið
Á Svalbarðsströnd er sameinað skólasamfélag, grunnskólinn heitir Valsárskóli og leikskólinn heitir Álfaborg. Í skólanum eru 48 grunnskólanemendur og 30 leikskólanemendur haustið 2020. Árið 2020 var farið í miklar endurbætur á skólanum til að fegra og bæta aðstöðu nemenda og starfsfólks. Það er stefna Svalbarðsstrandarhrepps að hlúa vel að skólanum og að hann búi við vandaðan og hlýlegan húsakost þar sem allt er til reiðu til að búa nemendum sveitarfélagsins sem bestar aðstæður til náms og þroska. Tónlistardeild er til húsa í grunnskólanum þar sem 22 nemendur stunda fjölbreytt tónlistarnám skólaárið 2019-2020. Skólastjóri Álfaborgar er Margrét Jensína Þorvaldsdóttir og skólastjóri Valsárskóla er María Aðalsteinsdóttir.
 
Umhverfismál
Undanfarin ár hefur verið unnið að því að fegra ásýnd sveitarfélagsins þar sem umhverfisfræðsla skipar stóran sess. Unnið er ötullega að útivistar- og grenndarkennslu og umhverfisfræðsla fléttuð sem víðast í kennslu leik- og grunnskóla í samræmi við hverja árstíð. Stuðlað er að almennri þátttöku íbúa, starfsfólks og rekstraraðila í umhverfisvænum lífsstíl með fræðslu, hvatningu og verkefnum sem allir geta tekið þátt í. þannig geta allir borið virðingu fyrir umhverfi og samfélagi á Svalbarðsströnd. Nemendur og starfsfólk eru virkjuð í umhverfisvænum viðhorfum í hugsun og verki í samræmi við hvert skólastig. Svalbarðseyrarviti var byggður árið 1920 og eru því 100 ár liðin frá byggingu hans árið 2020. Umhverfi vitans er vinsæll útivistarstaður íbúa Svalbarðsstrandarhrepps og gesta hans. Hefur vitinn verið viðfangsefni fjölmargra verkefna leik- og grunnskólanemenda auk þess sem hann er sívinsælt ljósmyndaefni. Það má segja má að vitinn sé táknmynd sveitarfélagsins þar sem hann prýðir merki þess. 

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd