Fiskvinnslan Svalþúfa ehf. var stofnuð haustið 1995. Stofnendur og eigendur Svalþúfu eru Gylfi Magnússon, Magnús Gylfason og Arnar Gylfason. Magnús er framkvæmastjóri Svalþúfu, Gylfi er stjórnarformaður og Arnar verkstjóri. Þeir feðgar sáu að það voru miklir möguleikar í að fullnýta aukaafurðir í fiski, sérstaklega á mörkuðum fyrir saltaðar afurðir og vorum þeir tilbúnir í slaginn á þessum tímapunkti. Starfsemin byrjaði í litlu leiguhúsnæði að Óseyrarbraut 9 í Hafnarfirði í eigu Íslensku Umboðssölunnar sem var á þeim tíma eitt af stærstu útflutningsaðilum á fiskafurðum hérlendis. Svalþúfa átti í áralöngu farsælu viðskiptasambandi við Íslensku umboðssöluna sem var af svipuðu meiði og Svalþúfa, þ.e. fjölskyldufyrirtæki. Svalþúfa keypti húsnæðið af Íslensku Umboðssölunni árið 2016.
Þeir feðgar byrjuðu þrír saman í vinnslunni en fyrirtækið var fljótt að vaxa, fljótlega jókst veltan og starfmönnum fjölgaði eftir því sem hráefnið jókst og er nú að jafnaði 35-40 manns sem starfa þar og fleiri þegar mest hefur verið. Áratuga reynsla og kunnátta Gylfa Magnússonar úr fiskvinnslunni Bakka hf.í Ólafsvík, hefur nýst vel hjá Svalþúfu en Bakki var lengi vel ein af stærstu saltfiskverkunum á landinu stofnað árið 1965 af Magnúsi Kristjánssyni föður Gylfa, Oliver bróður hans og Guðmundi Jenssyni mági þeirra. Nafn fyrirtækisins á einnig upptök sín á þær slóðir því örnefnið Svalþúfa kemur af sunnanverðu Snæfellsnesi er þekkt úr þjóðsögunum og er einnig vel þekkt sem fiskimið.
Starfsemin
Sérstaða og tilgangur félagsins er og hefur alltaf verið kaup og sala á fiski, þ.e. að fram-leiða gæðavöru til útflutnings, fullnýta svokallaðar aukaafurðir og byggja upp öflugt fiskvinnslufyrirtæki í Hafnarfirði þar sem hefur verið mikil vinnsla alveg frá fyrsta degi og er enn. Ekki leið á löngu þar til byrjað var að þurrka hausa á hjöllum í Hafnarfirði og einnig var boðið upp á alls kyns þjónustu við fiskvinnslur í hverfinu svo sem slægingarþjónustu. Haldið er fast í gamlar og góðar hefðir svo sem við að gella og seila og hengja á hjalla með sömu aðferðum og hafa verið notaðar síðastliðna öld.
Þegar Svalþúfa var stofnuð 1995 var fyrirtækið meðal þeirra fyrstu sem verkuðu eingöngu aukaafurðir hér á landi en Svalþúfa hefur sérhæft sig í fullnýtingu fiskafurða. Áður fyrr fór stór hluti þessara aukaafurða í bræðslu, þ.e. framleiðslu á lýsi og mjöli. Hjá Svalþúfu eru framleiddar afurðir úr öllum hvítum fiski, þ.e. þorski, ýsu, lönga, keilu og ufsa en það sem ekki nýtist þ.e.a.s. feitur fiskur, s.s. karfi, steinbítur, lax o.fl. er selt áfram í framleiðslu á dýrafóðri eða brætt í lýsi og mjöl. Hráefnið kemur aðallega úr Hafnarfirði en einnig utan af landi. Aðalframleiðsluvörur Svalþúfu hafa verið frá upphafi saltaðir beinlausir roðlausir bitar sem kallast migas, fés, söltuð klumbubein, gellur og fleira, síðan allar tegundir af þurrkuðum hausum og beinum, allt eftir ströngustu reglum. Saltaðar afurðir eru seldar og fluttar sjóleiðis til Evrópu þ.e. til Portúgals, Spánar og nýlega hefur Frakkland bæst við. Þurrkaðar afurðir eru seldar til Nígeríu í Afríku.
Svalþúfa stofnaði árið 2003 dótturfyrirtæki í Vestmannaeyjum Lóndranga ehf. og rak það í nokkur ár. Lóndrangar voru eins og Svalþúfa aukaafurðafyrirtæki í fiski. Í apríl 2010 festu eigendur kaup á bátnum Guðrúnu BA 127 og hefur hann aðallega verið á strandveiðum á Snæfellsnesi og einnig á Vestfjörðum. Frá upphafi og til dagins í dag hefur aflinn verið seldur á fiskmarkaði. Starfsemin hefur vaxið ár frá ári, reksturinn gengið mjög vel og undir styrkri stjórn hefur Svalþúfa m.a. verið valið fyrirmyndarfyrirtæki ársins sl. 5 ár. Ýmislegt hefur þó skiljanlega gengið á sl. 25 ár, t.d. árið 2012 dundi yfir áfall þegar varð stórbruni í einu vinnsluhúsinu og úr varð mikið tjón. Langan tíma tók að koma húsakostum í fyrra horf en starfsemin féll ekki niður einn dag heldur var allt sett á fullt að færa starfsemina í annan húsakost sem Svalþúfa hafði til umráða svo vinnslan myndi ekki falla niður. Allir lögðust á eitt að halda starfseminni óbreyttri og halda ótrauð áfram. Reglulega hafa einnig markaðir í Nígeríu lokast til skamms tíma af ýmsum ástæðum og sá markaður því nokkuð sveiflukenndur en alltaf komið tilbaka. Einnig er reksturinn mjög háður gengi íslensku krónunnar.
Mannauður
Svalþúfa hefur alla tíð verið afar heppið með starfsfólk og haldist vel á fólki. Þeir erlendu starfmenn sem hafa verið lengst eru komnir með yfir 20 ára starfsaldur. Starfsemin er að miklu leyti byggð upp af erlendu vinnuafli en hvort sem um er að ræða erlent eða innlent vinnuafl þá hefur starfsfólkið átt langan starfsaldur og er það eitt það mikilvægasta í rekstri fyrirtækja af þessu tagi.
Framtíðin
Horfur til næstu ára eru nokkuð góðar hvað varðar markaði bæði í söltuðum og þurrkuðum afurðum. Aukning hefur verið á framleiðslu stanslaust frá fyrsta degi en Svalþúfa selur í dag, árið 2020, yfir 1350 tonn af söltuðum afurðum og u.þ.b. 500 tonn af þurrkuðum afurðum og tekur við yfir 6000 tonnum af hráefni á hverju ári. Svalþúfa hefur átt velgengi að fagna frá upphafi og líta eigendur því björtum augum til framtíðar og hafa fulla trú á að fyrirtækið haldi áfram að vaxa og dafna.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd