Sveitarfélagið Hornafjörður

2022

Sveitarfélagið Hornafjörður er á Suðausturlandi í Austur-Skaftafellssýslu sem margir íbúar kenna sig við. Sveitarfélagið tilheyrir Suðurkjördæmi og er íbúafjöldi rúmlega 2400. Fyrir sameiningu hreppsfélaga voru sex hreppar í sýslunni. Höfn tilheyrði Nesjahreppi þar til kauptúnið varð sérstakt hreppsfélag árið 1946 með liðlega 300 íbúa. Það fékk kaupstaðarréttindi 31. desember 1988. Árið 1994 sameinaðist Hafnarkauptún Nesjahreppi og Mýrahreppi og úr varð Hornafjarðarbær. Árið 1998 sameinaðist Hornafjarðarbær Hofshreppi, Bæjarhreppi og Borgarhafnarhreppi og þar með voru öll hreppsfélögin í sýslunni sameinuð í eina stjórnsýslueiningu, Sveitarfélagið Hornafjörð. Tveir þéttbýliskjarnar eru í Hornafirði, Höfn og Nesjahverfi.

Íþróttir og skóli
Sveitarfélagið Hornafjörður er mjög fjölskylduvænt samfélag og því ákjósanlegur staður fyrir fjölskyldur að setjast að. Sveitarfélagið sinnir menntamálum af alúð og rekur öflugt starf í leik,- grunn- og tónskóla auk Vöruhúss, miðju skapandi greina. Það er einnig vilji sveitarfélagsins að styðja við nám í framhaldsskóla, framhaldsfræðslu (fullorðinsfræðslu) og nám á háskólastigi. Sveitarfélagið er aðili að verkefnunum Barnvæn sveitarfélög þar sem unnið er eftir markvissri áætlun um að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Heilsueflandi samfélag. Áherslur þess verkefnis eru samofnar starfi leik- og grunn- og framhaldsskóla sem eru heilsueflandi skólar. Í leik- og grunnskólum er einnig starfað eftir uppbyggingarstefnunni Uppeldi til ábyrgðar. Þannig er markvisst unnið að aukinni meðvitund um réttindi barna, mikilvægi góðrar heilsu og leiðum til að viðhalda henni en einnig að styrkja og efla sjálfsvitund, samskiptafærni og persónulegan þroska einstaklinga.
Aðstaða til íþrótta og sundiðkunar er til fyrirmyndar. Árið 1965 tók íþróttafélagið Sindri fyrst þátt í Íslandsmóti í knattspyrnu og hefur félagið verið þáttakandi í mótinu allar götur síðan. Markmiðið er að bjóða upp á eins fjölbreytt íþróttastarf og kostur er. Þó sveitarfélagið Hornafjörður sé víðfemt er leitast við að hafa það eins fjölskyldu- og umhverfisvænt og mögulegt er.

Náttúran
Sveitarfélagið er þriðja landmesta sveitarfélag landsins, samtals 6.317 km² að stærð. Hluti af stærsta þjóðgarði Íslands, Vatnajökulsþjóðgarðs sem nær yfir 60% af flatarmáli sveitarfélagsins og er allt land innan marka hans friðlýst svæði. Náttúra héraðsins og náttúruleg fjölbreytni lífríkisins er einstök. Strandlengjan, sandar, ár og vötn eru stór þáttur í umhverfinu. Fuglalífið er auðugt og hefur svæðið skapað sér sess sem vinsæll staður til fuglaskoðunar. Íbúar sveitarfélagsins finna vel fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, samanber hörfun jökla og áhrif þess á umhverfið, sjávarútveg, landbúnað og ferðaþjónustu á svæðinu. Þess má geta að loftlagsstefna sveitarfélagsins er ein sú fyrsta sem samþykkt var hér á landi. Leitast er við að stefnur og ákvarðanir í umhverfismálum séu fjölskylduvænar, taki mið að þörfum íbúa og fléttist inn í gildandi stefnur hverju sinni.
Sjávarútvegur, landbúnaður og ferðaþjónusta
Atvinnuhættir í Sveitarfélaginu Hornafirði samanstanda af sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu, þar sem sjávarútvegur hefur lengst af verið burðarásinn í efnahagslífi svæðisins. Landbúnaður er rótgróin atvinnugrein en á síðari árum hefur ferðaþjónustan blómstrað í sveitarfélaginu og er nú sú grein sem býður upp á flest heilsársstörf. Má rekja mörg starfanna til fjölskyldurekinna ferðaþjónustufyrirtækja sem stofnuð hafa verið í kjölfar mikillar fjölgunar ferðamanna í Ríki Vatnajökuls undanfarin ár. Samhliða uppgangi í ferðaþjónustu hefur nýsköpun og vöruþróun dafnað og blómstrað. Samstarf sveitarfélagsins, Nýheima þekkingarseturs og atvinnulífsins hefur reynst árangursríkt til umræddrar framþróunar í atvinnulífinu. Skal engan undra að ferðamenn sæki svæðið heim, enda er þar að finna margar af helstu náttúruperlum landsins. Má þar nefna Lónsöræfi, Jökulsárlón og Skaftafell sem öll eru friðlýst svæði, en þau tvö síðarnefndu eru innan Vatnajökulsþjóðgarðs.

Fjölbreytt og blómleg menning
Fjölbreyttri menningsarstarfsemin er viðhaldið í sveitarfélaginu og þar haldast í hendur góð félagsleg virkni einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja. Upplifun og hughrif íbúa eiga stóran þátt í menningarlífi samfélagsins þar sem ægifögur náttúran fyllir andann af sköpunargleði. Þungamiðja menningarlífs eru hin ýmsu félagasamtök og tónlistarfólk, kórar, leikfélag, gallerý, listamannastofur og veitingahús. Ár hvert má sækja heim viðburði á Hornafirði og er þar fyrst að nefna Humarhátíð á Höfn. Hátíðin er haldin undir merkjum humarsins enda Höfn þekkt fyrir veiðar og vinnslu á humri og eitt af einkennum bæjarins. Hátíðin er haldin síðustu helgina í júní og er vel sótt af heimamönnum, brottfluttum Hornfirðingum sem og öðrum gestum.
Þorrablót og Góuhóf eru haldin í hverri sveit og Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert. Blúshátíð og Vírdós eru árlegar tónlistahátíðir og þar er tónlistarmenningin í hávegum höfð. Árshátíð grunnskóla Hornafjarðar og Hofgarðs er veisla fyrir heimamenn þar sem mikið er lagt í skreytingar, leik og söng nemenda skólanna.
Árið 1990 var Menningarmiðstöð Hornafjarðar stofnuð með sameiningu nokkurra safna og vinnur stofnunin að metnaðarfullri menningarstarfsemi innan sveitarfélagsins. Listasafn Svavars Guðnasonar opnaði við hátíðlega athöfn 24. júní 2011. Sveitarfélagið hafði fengið fjölda verka Svavars að gjöf frá Ástu Eiríksdóttur, ekkju Svavars Guðnasonar. Með gjöfinni var lagður sterkur grunnur að stofnun Svavarssafns sem sýnir reglulega verk hans og annara listamanna.
Vöruhúsið er fyrir alla sem vilja læra og skapa, hanna og þróa í listum, handverki og tómstundum. Þar fá nemendur í grunn- og framhaldsskólum aukið aðgengi að handverki og listum í námi sínu.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd