Sveitarfélagið Ölfus er landssvæði vestast í Árnessýslu sem afmarkast af Ölfusá í austri og mörkum Árnessýslu í vestri. Austast einkennist landið af mýrum og dælum, en í vestri eru fjöll, Núpafjall, Reykjafjall og Hellisheiðin. Í Ölfusi hefur frá fornu fari verið stundaður mikill landbúnaður en þó hefur áhersla á landbúnað minnkað hin síðari ár. Sem dæmi má nefna að nú er aðeins eitt myndarlegt kúabú starfrækt í Ölfusi (Hvammur) en þau voru fjölmörg hér á árum áður.
Atvinnugreinar og þéttbýlisstaðir
Helstu atvinnugreinar sveitarfélagsins eru fiskveiðar og vinnsla, verslun og þjónusta, landbúnaður og iðnaður.
Þéttbýlisstaðirnir Hveragerði, Þorlákshöfn og Árbæjarhverfi teljast til Ölfuss þó Hveragerði sé sér sveitarfélag. Á árinu 2011 fékk Ölfus úthlutuðu sérstöku póstnúmeri, 816, til aðgreiningar frá öðrum svæðum Suðurlands.
Undanfarin ár hefur verið unnið að ýmsum verkefnum með það að markmiði að gera sveitarfélagið að eftirsóknarverðum stað fyrir fólk að búa á og ekki síður fyrir atvinnulífið. Góðar samgöngur eru í allar áttir frá sveitarfélaginu og hefur það færst í vöxt að íbúarnir vinni til dæmis í Reykjavík eða á Selfossi.
Þorlákshöfn
Þorlákshöfn byggðist upp á skömmum tíma en fyrstu hús hinnar núverandi Þorlákshafnar voru byggð 1951 og urðu íbúarnir þá 14 talsins. Árið 1965 voru 385 íbúar og röskur helmingur þeirra, eða 202, innan við tvítugt og meðalaldur hópsins var 22 ár. Um áramótin 2020 / 2021 voru 2.369 í sveitarfélaginu öllu.
Í Þorlákshöfn má finna alla helstu þjónustu og eru innviðir sveitarfélagsins mjög sterkir. Náttúran og útivistarmöguleikar allt um kring auka lífsgæði fólks. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í íþróttamannvirkjum og eru bæði leik- og grunnskóli í hæsta gæðaflokki.
Unglegur bæjarbragur er það sem einkennir Þorlákshöfn.
Þorlákshöfn er einn besti lendingarstaðurinn á suðurströndinni frá náttúrunnar hendi og skammt í fengsæl fiskimið. Á síðustu árum hafa verið gerðar miklar breytingar á höfninni og með því hafa skapast aðstæður fyrir hafsækna starfsemi.
Flutningsleiðir
Þorlákshöfn er einkar hentug fyrir flutninga til og frá Evrópu þar sem mikill tími sparast þar sem ekki þarf að sigla fyrir Reykjanesið hvora leið. Smyril Line hóf ferjusiglingar milli Þorlákshafnar og Rotterdam árið 2017 en með því gat fyrirtækið boðið upp á styttri flutningstíma til og frá landinum eftir að höfnin í Þorlákshöfn var löguð og gerir íslenskan markað því enn samkeppnishæfari. Í byrjun árs 2020 bættu þeir svo við áætlunarsiglingu á milli Þorlákshafnar og Hirtshals í Danmörku.
Hefur þetta gjörbreytt daglegum rekstri hafnarinnar og er mikill áhugi fyrir því að auka bæði frakt- og farþegasiglingar frá Þorlákshöfn til meginlands Evrópu sem og Bretlands. Með því væri hægt að spara bæði olíu og útblástur.
Umhverfismál
Ölfus hefur hug á að vera leiðandi í því sem tengist umhverfisvænni og sjálfbærri matvæla-framleiðslu og eru þegar spennandi verkefni í gangi í tengslum við Jarðhitagarðana á Hellisheiði og starfsemi Algaennovation.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd