Sveitarfélagið Skagaströnd er staðsett á vestanverðum Skaga á Norðurlandi vestra. Stofnað árið 1939 undir nafninu Höfðahreppur en í september 2007 var nafninu breytt, eftir íbúakosningu, í sveitarfélagið Skagaströnd. 31. desember 2020 bjuggu 470 aðilar í sveitarfélaginu. Skagaströnd hefur byggst upp í kringum sjávarútveg, þó svo að þetta sé forn verslunarstaður þá óx ekki byggð í kringum verslunina. Í byrjun 20. aldar fór byggðarkjarni að myndast í kringum fiskverkun og þegar vélvæðingin í sjávarútvegi hófst í kringum 1920 þá kom vöxtur í þéttbýlismyndun bæjarins. Í kringum 1940 var hafnaraðstaða sveitarfélagsins bætt og upp frá því hefur útgerð og fiskvinnsla verið aðalatvinnuvegur þess, samhliða því fjölgaði íbúum bæjarins. Í byrjun 21. aldarinnar var þó fisk- og rækjuvinnslu staðarins lokað en löndun sjávarafla og afgreiðsla í gegnum fiskmarkað tók þá við til hliðar við útgerð og sjómennsku. Þó svo að Skagaströnd sé ekki stór bær þá má þar finna alla helstu þjónustu sem íbúar og aðrir gestkomandi gætu þurft á að halda.
Sveitarstjórn:
Þjónusta, menning, mannlíf og náttúra
Skagaströnd starfar eftir þeim lögum og reglugerðum er gilda almennt um sveitarfélög. Rekur glæsilegt íþróttahús, heildstæðan grunnskóla og í samstarfi við sveitarfélög Austur-Húnavatnssýslu reka þau byggðasamlag um félags- og skólaþjónustu. Í félagslega húsnæðis-kerfinu sér það um rekstur á 28 íbúðum. Auk þess hefur sveitarfélagið stutt vel við atvinnuþróun og ýmis samfélagsmál á svæðinu. Má sem dæmi nefna stuðning við Nes listamiðstöð sem var stofnuð 2008, þar býðst listamönnum að dvelja við listsköpun sína og auðgar þetta mannlíf bæjarins sem og menningu. Uppbygging Spákonuhofs og líftæknifyrirtækisins BioPol er hluti af þeim menningar- og atvinnulífsverkefnum sem sveitarfélagið hefur komið að. En sveitarfélagið leitast við það að styrkja þá þjónustuþætti sem geta bætt búsetuforsendur svæðisins. Fjölbreytt landslag og fögur náttúra hvert sem litið er. Spákonufellshöfði, staðsett við sjóinn yst í þéttbýlinu, er ein af náttúruperlum sveitarfélagsins með ýmsum gönguleiðum og tilvalinn staður fyrir útiveru og að njóta útsýnisins. Á toppnum hafa margir göngugarpar upplifað tignarlegan kraft fjallsins. Spákonufell er kennt við Þórdísi spákonu, kvenskörung mikinn, sem var uppi á síðari hluta 10. aldar en hún er fyrsti nafngreindi íbúi Skagastrandar. Í Spákonuhofi er sýning tileinkuð henni sem er partur af menningartengdri ferðaþjónustu Skagastrandar. Menningarfélagið Spákonuhof er einnig með sýningu í elsta hús bæjarins Árnesi, byggt árið 1899, og er þar dæmi um lifnaðarhætti á fyrri hluta 20. aldarinnar.
Finna má glæsilegan golfvöll á Skagaströnd en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir Húnaflóa og yfir á Strandir. Efst á Bogabraut er að finna tjaldsvæði sem horfir á móti sólu. Það er staðsett í fallegu umhverfi á skjólsælum og rólegum stað, bærinn Höfðahólar stóð í miðju svæðisins. Góð aðstaða er fyrir ferðamenn hvort sem þeir gista í tjöldum, húsbílum, fellihýsum, hjólhýsum eða tjaldvögnum. Eins er umhverfið spennandi og leiktæki fyrir börn á öllum aldri.
Höfnin er iðandi af lífi, sjómenn að landa afla sínum og fólk á ferðinni í leit að innblæstri. Í gömlu iðnaðarhúsnæði á höfninni má finna veitingastaðinn Harbour en þar geta íbúar og gestir Skagastrandar gert sér glaðan dag og notið matarins um leið og þeir upplifa bryggjulífið
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd