Sveitarfélagið Vogar

2022

Sveitarfélagið Vogar varð til við nafnabreytingu 1. janúar 2006, en hét áður Vatnsleysu-standarhreppur. Elstu heimildir um Vatnsleysustrandarhrepp eru í landamerkjalögum frá 1270 og er hreppurinn því eitt elsta sveitarfélag landsins. Í Landnámu segir frá Steinunni hinni gömlu, frændkonu Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Ingólfur ,,bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta”. Í Vogum búa alls 1.359 íbúar. Íbúum hefur fjölgað undanfarin ár enda vel staðsett, fjölskylduvænt samfélag. Stóru-Vogaskóli er grunnskóli sveitarfélagsins með um 170 nemendur. Stóru-Vogaskóli flaggar grænfána Landverndar. Í Heilsuleikskólanum Suðurvöllum eru 60 börn. Eldri borgarar koma saman í Álfagerði. Þar er öflugt félagsstarf og samverustundir af ýmsu tagi. Í íþróttamiðstöð eru m.a hægt að stunda knattspyrnu, sund, júdó, yoga, þrek, blak, körfuboltaæfingar og badminton. Kjörin aðstaða er í íþróttamiðstöðinni til að taka á móti hópum í gistingu.

Samfélagið og björt framtíð
Félags- og menningarlíf er öflugt í sveitarfélaginu og eru félögin virkur þátttakandi í menningarlífinu. Haldinn er fjöldi viðburða fyrir íbúa og gesti ásamt öðru sem einkennir hvert félag. Hápunktur félagsstarfsins eru Fjölskyldudagar sem haldnir eru árlega, þriðju helgina í ágúst. Þá sameinast félög og einstaklingar um að skemmta sér og öðrum með margvíslegum uppákomum og viðburðum. Í Vogum eru fyrirtæki í fiskeldi, ferðaþjónustu og matvælavinnslu auk smærri fyrirtækja með ýmisskonar rekstur. Mörg þeirra taka virkan þátt í samfélaginu, meðal annars með styrkjum og viðurkenningum. Margir íbúar sækja atvinnu út fyrir bæjarmörkin en fjöldi þeirra sem starfa innanbæjar fer vaxandi. Sveitarfélagið Vogar á sér bjarta framtíð. Í nýju miðbæjarhverfi, Holtahverfi, rísa nú íbúðarhús af ýmsu tagi með tilheyrandi íbúafjölgun. Uppbygging í Grænuborgarhverfi er einnig handan við hornið með enn meiri fjölgun íbúa. Með uppbyggingunni má gera ráð fyrir að íbúatala sveitarfélagsins nái tölunni 3000. Samfara íbúafjölgun þarf að huga að innviðum, s.s. skóla, leikskóla og annarri þjónustu. Unnið er að því að efla ferðaþjónustu í sveitarfélaginu. Endurbætur á tjaldsvæði eru hafnar, upplýsingaskilti eru víðsvegar um sveitarfélagið auk þess sem fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa haslað sér völl. Framtíðin býr í íbúunum.

Útivist og náttúra
Vogar eru spennandi staður fyrir útivistarfólk og náttúruunnendur. Fjaran og heiðin búa yfir miklum fjölbreytileika. Auk þess eru í Vogum staðir á náttúruminjaskrá og vinsælir staðir til útivistar.

Fjaran
Víða er gott aðgengi að fjörunni. Þar er tilvalið fyrir fjölskylduna að kynnast fjörulífinu.
Á vorin er fjaran vinsæll viðkomustaður farfugla og er mikið fuglalíf við strandlengjuna árið um kring. Í klettunum í Vogastapa er á varptíma mikill fjöldi fugla og gróskumiklar klettasyllur sem gaman er að skoða af sjó í góðu veðri.

Heiðin
Vogabúar kalla landsvæðið ofan byggðar gjarna heiðina þó láglent sé. Aðgengi er víðast hvar óheft en heiðin getur verið erfið yfirferðar og varhugaverð þar sem sprungur skera hana eftir endilöngu frá Snorrastaðatjörnum til Vatnsleysuvíkur. Næst byggðinni er hún þó auðveld gangandi fólki. Flestum sem leið eiga um sveitarfélagið finnst heiðin frekar hrjóstrug. Þar vex þó fjöldi plantna og hefur flóran tekið við sér eftir að sauðfjárbeit var hætt um 1980. Trjágróður er lítill þó finna megi nokkra manngerða trjálundi. Þjóðarblómið holtasóley má finna í stórum breiðum í heiðinni.

Hrafnagjá
Hrafnagjá kallast misgengi í heiðinni. Hún dregur nafn sitt af hröfnum sem þar verpa. Enn má sjá hrafnslaupa í gjánni þó þeim hafi fækkað. Bergveggirnir snúa að fjöllunum og er gróðurfar í og við gjána fjölbreytt og gróskumikið. Erfitt og hættulegt getur reynst ókunnugum að komast yfir gjána og njóta þar tilkomumikillar nálægðar við hana. Ofan Voga má þó auðveldlega komast að henni um svokallaðan Kúastíg. Stígurinn hefur að öllum líkindum verið notaður til að komast til og frá seljum sem fjölmörg eru í heiðinni. Merktur göngustígur er að Hrafnagjá frá bílastæði við Reykjanesbraut.

Háibjalli og Snorrastaðatjarnir
Háibjalli er vinsælt útivistarsvæði sunnan Voga. Þangað er rúmlega hálftíma ganga frá þéttbýlinu. Staðurinn einkennist af hamrabelti við hraunjaðar og er þar skjólsæl vin í náttúrunni. Á Háabjalla er ræktaður skógur. Þar hafa skólabörn úr Vogum gróðursett í nokkur ár. Ofan Háabjalla eru Snorrastaðatjarnir. Þær eru fimm en oftast sjást aðeins þrjár þeirra. Þar er fuglalíf mikið og gróðursæld. Snorrastaðatjarnir eru á náttúruminjaskrá.

Staðarborg
Staðarborg er mannhæðarhátt, grjóthlaðið mannvirki sem stendur í heiðinni ofan við Kálfatjörn. Borgin er nokkur hundruð ára gömul og líklega hlaðin sem fjárborg. Sagan segir að presturinn á Kálfatjörn hafi komið að máli við hleðslumann sem greindi honum frá fyrirætlan sinni um að hlaða hana í topp. Prestur var ekki ánægður með það og sá fyrir sér að hún myndi draga athyglina frá kirkjunni. Hleðslumanni þótti nóg um og hætti við verkið, hálfklárað. Þannig stendur Staðarborg í dag. Auðvelt er að ganga upp að Staðarborg, um tvo km frá veginum.

Kálfatjörn
Kálfatjarnarkirkja stendur á samnefndri kirkjujörð á Vatnsleysuströnd. Núverandi kirkja var vígð árið 1893 og er glæsilegt mannvirki. Málun kirkjunnar að innan þykir sérstök en hana annaðist Nikolaj Sófus Bertelsen. Verk hans prýða meðal annars Iðnó og Dómkirkjuna í Reykjavík. Kálfatjarnarkirkja er ein stærsta sveitakirkja á landinu en hún rúmar 150 manns. Hún rúmaði öll sóknarbörnin í einu, árið sem hún var reist en þá var útgerð í miklum blóma í sveitarfélaginu. Á hlaðinu við kirkjuna stendur meðal annars hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19. öld. Kálfatjarnarkirkja er friðlýst.

Keilir
Keilir er 379 metra hátt móbergsfjall, einkennisfjall Reykjanesskagans.  Tiltölulega auðvelt er að ganga á Keili og víðsýnt þegar þangað er komið. Vegurinn að Keili er slæmur og skyldu menn varast að fara hann nema á vel búnum bílum.

Vogastapi
Sunnan Voga er Vogastapi.  Hann nær um 80 metra yfir sjó og liggur milli Voga og Njarðvíkur.  Þar er mikið fuglalíf og fagurt útsýni. Frá Vogunum er um 30 mínútna ganga á Stapann og er Grímshóll hæsta bunga hans.  Þar er útsýnisskífa og fjallasýn mikil í góðu skyggni. Á Vogastapa er reimt og er fjöldi frásagna til af samskiptum ferðamanna og Stapadraugsins.

Lambafellsgjá
Lambafellsklofi er mikilfengleg gjá sem klýfur Lambafellið. Gaman er að ganga eftir gjánni inn í fellið og síðan upp úr því. Auðvelt er að ganga að Lambafelli frá Höskuldarvöllum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd