Syndis slf

2022

„Við erum helstu sérfræðingar í tölvuhakki og upplýsingaöryggismálum hérlendis. Við viljum hafa meiri tíma til að stunda rannsóknir. Af hverju stillum við ekki saman strengjum og stofnum fyrirtæki?”
Með þessum fleygu orðum hófst vinna að baki tölvuöryggisfyrirtækinu Syndis í lok 2012. Helstu forsprakkar þess voru Rich Smith, sem mætti bæði með langa reynslu af öryggismálum frá Bandaríkjunum sem og erlendan fjárfesti, Theódór (Teddi) Ragnar Gíslason, sérfræðingur og einn mesti reynslubolti í faginu frá því að hann hakkaði sig inn um víða veröld sem unglingur árið 1996, dr. Ýmir Vigfússon, sem nýverið mætti til landsins sem lektor í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík og jafnframt fyrrverandi hakkari, Árni Már Harðarson sérfræðingur í netöryggi og Hörður Ellert Ólafsson.
Markmið fyrirtækisins var að stuðla að bættu öryggi íslenskra og erlendra fyrirtækja og stofnana í gegnum árásarmiðaðar öryggisprófanir, rannsóknir tengdar tölvuöryggi, og almennri vitundarvakningu á landinu. Það var kappsmál stofnenda að fyrirtækið gæti veitt óháða ráðgjöf og væri ekki beintengt neinum tilteknum öryggislausnum.
Þegar fyrirtækið var formlega stofnað fyrsta mars 2013, með Rich, Tedda og Árna í fullu starfi og Ými og Hörð í ráðgjafarhlutverki, var efnt til veislu í húsakynnum Háskólans í Reykjavík þar sem fyrirtækið óx úr grasi fyrstu árin. Nafnið Syndis er samblanda af enska orðinu syndicate vegna hakkarabakgrunns þess og íslensku netendingunni .is auk þess að orðið „synd” var vísun í árásarmiðaða hlið netöryggis. Til þess að hanna helsta markaðsefni fyrir fyrirtækið var fenginn fær hönnuður á af síðunni Behance, sem síðar reyndist vera aðeins 13 ára gamall. Sem hluti af markaðssetningu voru bruggaðir kraftbjórar ár hvert með nafni fyrirtækisins á flöskunum og þeir sendir viðskiptavinum.

Aðsetur og mannauður
Syndis sprengdi fljótlega utan af sér húsakynnin í HR og flutti inn í ný og stærri húsakynni í Borgartúninu í maí 2015. Valdimar Óskarsson tók við taumunum sem framkvæmdastjóri árið 2017 og fljótlega urðu starfsstöðvarnar í Borgartúni aftur of litlar. Haustið 2019 var svo flutt í glæsilegt húsnæði í Turninum við Katrínartún 4, sem þá var í smíðum, og viðskiptavinum var boðið í góðan gleðskap að vanda.
Fyrstu nýju starfsmenn Syndis, þeir Björn Símonarson og Charlie Eriksen, mættu með veföryggis- og vélbúnaðarsérfræðiþekkingu árið 2013 og unnu báðir lengi hjá félaginu. Fyrirtækið stóð fyrir NSC ráðstefnu (Nordic Security Conference) síðar sama ár sem yfir 300 manns sóttu. Þá var Syndis jafnframt reglulegur þátttakandi í UTmessunni og hlaut verðlaun árið 2016 fyrir frumlegasta básinn þar sem fólki var boðið í „heimsókn” til Syndis, enda væri „Syndis öryggisteymið þitt”.
Árið 2018 hlaut Syndis viðurkenningu Verðlaunasjóðs Samtaka iðnaðarins fyrir frumkvöðlastarf á sviði iðnaðar. Í verðlaunatilnefningunni segir að „Syndis hefur verið leiðtogi á íslenskum markaði í tæknilegum tölvuöryggismálefnum undanfarin ár og sinnir aðkallandi þörf á að bæta öryggismál fyrirtækja á Íslandi og erlendis.“ Árið eftir bar Syndis sigur úr býtum sem UT-sprotinn 2018 á UTmessunni. Í þeirri tilnefningu segir „Fá fyrirtæki á Íslandi hafa verið jafn áberandi á sviði öryggismála og Syndis. Segja má að Syndis séu orðið að ímynd upplýsingaöryggis á Íslands. Hjá Syndis starfa miklir sérfræðingar sem þekktir eru um heim allan fyrir störf sín í upplýsingaöryggi. Starfsmenn Syndis eru að vinna um allan heim að öryggismálum og hafa haldið fjölda erinda á alþjóðlegum ráðstefnum. Starfsmenn Syndis hafa fundið stóra öryggisgalla í vörum og þjónustu frá stórum og þekktum framleiðendum.”

Fræðsla
Í samvinnu við Ými og Háskólann í Reykjavík kenndu starfsmenn Syndis reglulega 3-vikna námskeið um tölvuöryggi hjá HR. Þessi námskeið snertu heila kynslóð forritara og fjölmargir starfsmanna Syndis höfðu farið í gegnum „hakkaranámskeiðið í HR”. Þá voru einnig haldnar hakkarakeppnir sem fengu mikla athygli í fjölmiðlum, en sú stærsta var í sölum HR með 8 keppendur og um 350 áhorfendur. Sú aðferð að miðla upplýsingaöryggi með því að kenna tölvuhakk var nýstárleg, og TEDxReykjavík fyrirlestur Ýmis árið 2014, um Syndis og þessa nálgun hlaut nærri 2 milljónir áhorfa á YouTube. Svo mikil var ásóknin í fræðslu og kennslu hjá fyrirtækinu að Charlie og aðrir útbjuggu frumgerð að vefsíðu sem gat hjálpað fólki að læra um tölvuöryggi með því að leysa árásarmiðaðar þrautir. Hugmyndin var að gefa fólki kost á því að læra um hvernig tölvuhakkarar brjótast inn á tölvukerfi til þess að geta betur varist slíkum árásum.
Theódór Ragnar og aðrir hjá Syndis sáu að mögulega væri hægt að taka þessa einföldu frumgerð og útbúa sjálfsafgreiðslu hugbúnaðarvöru sem skýjalausn (SaaS) fyrir örugga hugbúnaðarþróun. Umsókn fyrirtækisins hlaut svo stærsta styrk Tækniþróunarsjóðs árið 2015 undir verkefnaheitinu „Mótherji” eða Adversary sem Theódór leiddi upphaflega en varð loks eigið fyrirtæki árið 2018 undir stjórn Steindór S. Guðmundssonar. Mótherji stækkaði ört eftir stofnun þess og var það selt ástralska fyrirtækinu Secure Code Warrior árið 2020 ásamt 10 starfsmönnum þess, fyrirtækið er með starfsemi á Ísland auk þess að hafa áætlanir um framtíðarvöxt hér á landi.

Afkoma
Syndis var rekið með hagnaði frá og með fyrsta degi og var í fullri eigu stofnenda frá árinu 2013 auk Valdimars sem kom inn í eigendahópinn fyrst sem stjórnarmaður árið 2015 en síðar sem hluthafi og framkvæmdastjóri. Eftir jafnan vöxt óx fyrirtækinu ásmegin þegar Origo ehf. keypti allt hlutafé í Syndis árið 2021 og við það tvöfaldaðist teymið á nær augabragði og úr varð öflugasta öryggisfyrirtæki Íslands og þó víðar væri leitað. Nú ganga því í garð spennandi tímar hjá fyrirtækinu og munu Valdimar og Theódór fylgja fyrirtækinu eftir í næstu vegferð þess sem og að halda uppi grunngildum Syndis og auka vegferð þessa iðnaðar.

Katrínartúni 4 4.hæð
105 Reykjavík
4151337
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd