Sýslumaðurinn á Vestfjörðum

2022

Saga sýslumanna er samofin sögu samfélags og þjóðar á Íslandi og embættin teljast rótgrónar þjónustustofnanir ríkisins í héruðum landsins. Í dag eru sýslumannsembættin níu talsins og starfrækja 27 starfsstöðvar um land allt. Embættin hafa á að skipa reynslumiklu og fjölhæfu starfsfólki sem nú telur um 240 manns. Sýslumanna er fyrst getið hérlendis í handriti að sáttmála sem Íslendingar gerðu við Noregskonung á árunum 1262 til 1264. Síðar var sáttmálinn nefndur Gamli sáttmáli, en með honum má segja að Íslendingar hafi gerst þegnar Noregskonungs. Sýslumenn eru því elstu veraldlegu embættismenn sem enn starfa á Íslandi og hafa alla tíð verið mikilvægur hluti stjórnsýslunnar.

Hlutverk sýslumanna og verkefni

Sýslumannsembættin fara með framkvæmdavald ríkisins í héraði eftir því sem lög og reglur mæla fyrir um. Starfsfólk embættanna veitir borgurum, lögaðilum og hinu opinbera margháttaða þjónustu sem lýst er í lögum. Verkefnin teljast öll á sviði einkamálaréttar og opinberrar stjórnsýslu og heyra undir flest fagráðuneyti stjórnarráðsins. Sérstaða sýslumannsembættanna er því fólgin í fjölbreytileika verkefna sem hafa margþætta lagastoð.

Hlutverk sýslumanna hefur breyst í tímans rás. Verkefni á borð við dómsýslu, tollgæslu og löggæslu töldust lengst af til sýslumannsembættanna, en tilheyra nú öðrum stofnunum. Samhliða hafa mörg kjarnaverkefni sýslumanna vaxið að umfangi og kröfur um vandaða málsmeðferð einnig. Helstu verkefni sýslumanna nú snúa að barna- og fjölskylduréttarmálum, lögræðismálefnum, þinglýsingum, dánarbússkiptum, setu í óskiptu búi o.fl., fullnustugerðum á borð við fjárnám, nauðungarsölur, kyrrsetningu, lögbann, útburðargerðir o.fl., ökuréttindum, lögbókandagerðum, leyfisútgáfu svo sem rekstar- og tækifærileyfum, löggildingum vegna ýmissa starfsréttinda, sáttamiðlun í einkamálum, útgáfu ýmissa vottorða og fleira. Innheimta opinberra gjalda er mikilvægt viðfangsefni átta sýslumannsembætta. Umboð Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga eru mörg og eru því vistuð hjá embættunum.

Sérverkefni sýslumanna eru nú 35 talsins. Um er að ræða sérsök verkefni sem einstök sýslumannsembætti sinna á landsvísu og spanna mikilvæg og fjölbreytt opinber verkefni, eins og nánar má sjá í umfjöllun um sérhvert embætti.

Framtíðarsýn

Sýslumenn hafa mótað framtíðarsýn þar sem áhersla er lögð á skýrar og aðgengilegar upplýsingar um þjónustu embættanna. Með auknu aðgengi landsmanna að þjónustu sýslumanna, svo sem rafrænum umsóknum og notendavænni stafrænni umgjörð, er stefnt að eflingu starfseminnar og framúrskarandi þjónustustigi í samræmi við lög og reglur. Fyrirsjáanlegt er að þjónusta embættanna verður í sífellt minni mæli háð viðveru einstaklinga og aukið aðgengi landsmanna telst vera langtímamarkmið. Að sama skapi mun landfræðileg staðsetning vinnslu, greiningar og þjónustu hafa æ minni minni þýðingu. Gildir það jafnt um sérfræðilegt vinnuframlag eða hvort verkefni eru unnin á höfuðborgarsvæði eða landsbyggðinni. Sýslumannsembættin taka því fullan þátt í þróuninni og keppast við að svara kalli tímans.

Sýslumaðurinn á Vestfjörðum SMV

Íbúar á Vestfjörðum 1. desember 2020 voru 7.100 í níu sveitarfélögum. Helstu atvinnugreinar eru fiskveiðar og vinnsla og síðustu ár hefur fiskeldi farið mjög vaxandi svo og ferðamennska. Auk hefðbundinnar þjónustu sem sýslumenn veita, annast embættið álagningu og innheimtu vanrækslugjalds sem þeir sæta sem ekki færa ökutæki sín til skoðunar á réttum tíma. Um 30 til 40.000 eigendur ökutækja  hafa sætt álagningu gjaldsins ár hvert. Þá er við embættið unnið að því að skanna eldri þinglýsingarskjöl inn á viðeigandi eignir í tölvufærðri landskrá fasteigna.

Erfiðar samgöngur og langar vegalegdir hafa sett svip sinn á samskipti íbúa og rekstur embættisins. Með opnun Dýrafjarðarganga í október 2020 ætti leiðin milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða að verða fær flesta daga ársins. Framundan eru töluverðar breytingar á starfsumhverfi sýslumanna með aukinni stafrænni þjónustu, rafrænum þinglýsingum og fleiru slíku og  búseta manna og staðsetning starfsstöðva skipta minna máli en áður. Ýmsar áskoranir kunna að felast í þessu og einnig tækifæri ekki síst fyrir embættin utan höfðborgarsvæðisins til að taka að sér verkefni óháð staðsetningu.  Við embættið eru þrjár skrifstofur, á Patreksfirði, Ísafirði og Hólmavík og starfsmenn eru 19 í 17,8 stöðugildum.  Sýslumaður er Jónas B. Guðmundsson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd