Saga sýslumanna er samofin sögu samfélags og þjóðar á Íslandi og embættin teljast rótgrónar þjónustustofnanir ríkisins í héruðum landsins. Í dag eru sýslumannsembættin níu talsins og starfrækja 27 starfsstöðvar um land allt. Embættin hafa á að skipa reynslumiklu og fjölhæfu starfsfólki sem nú telur um 240 manns. Sýslumanna er fyrst getið hérlendis í handriti að sáttmála sem Íslendingar gerðu við Noregskonung á árunum 1262 til 1264. Síðar var sáttmálinn nefndur Gamli sáttmáli, en með honum má segja að Íslendingar hafi gerst þegnar Noregskonungs. Sýslumenn eru því elstu veraldlegu embættismenn sem enn starfa á Íslandi og hafa alla tíð verið mikilvægur hluti stjórnsýslunnar.
Hlutverk sýslumanna og verkefni
Sýslumannsembættin fara með framkvæmdavald ríkisins í héraði eftir því sem lög og reglur mæla fyrir um. Starfsfólk embættanna veitir borgurum, lögaðilum og hinu opinbera margháttaða þjónustu sem lýst er í lögum. Verkefnin teljast öll á sviði einkamálaréttar og opinberrar stjórnsýslu og heyra undir flest fagráðuneyti stjórnarráðsins. Sérstaða sýslumannsembættanna er því fólgin í fjölbreytileika verkefna sem hafa margþætta lagastoð.
Hlutverk sýslumanna hefur breyst í tímans rás. Verkefni á borð við dómsýslu, tollgæslu og löggæslu töldust lengst af til sýslumannsembættanna, en tilheyra nú öðrum stofnunum. Samhliða hafa mörg kjarnaverkefni sýslumanna vaxið að umfangi og kröfur um vandaða málsmeðferð einnig. Helstu verkefni sýslumanna nú snúa að barna- og fjölskylduréttarmálum, lögræðismálefnum, þinglýsingum, dánarbússkiptum, setu í óskiptu búi o.fl., fullnustugerðum á borð við fjárnám, nauðungarsölur, kyrrsetningu, lögbann, útburðargerðir o.fl., ökuréttindum, lögbókandagerðum, leyfisútgáfu svo sem rekstar- og tækifærileyfum, löggildingum vegna ýmissa starfsréttinda, sáttamiðlun í einkamálum, útgáfu ýmissa vottorða og fleira. Innheimta opinberra gjalda er mikilvægt viðfangsefni átta sýslumannsembætta. Umboð Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga eru mörg og eru því vistuð hjá embættunum.
Sérverkefni sýslumanna eru nú 35 talsins. Um er að ræða sérsök verkefni sem einstök sýslumannsembætti sinna á landsvísu og spanna mikilvæg og fjölbreytt opinber verkefni, eins og nánar má sjá í umfjöllun um sérhvert embætti.
Framtíðarsýn
Sýslumenn hafa mótað framtíðarsýn þar sem áhersla er lögð á skýrar og aðgengilegar upplýsingar um þjónustu embættanna. Með auknu aðgengi landsmanna að þjónustu sýslumanna, svo sem rafrænum umsóknum og notendavænni stafrænni umgjörð, er stefnt að eflingu starfseminnar og framúrskarandi þjónustustigi í samræmi við lög og reglur. Fyrirsjáanlegt er að þjónusta embættanna verður í sífellt minni mæli háð viðveru einstaklinga og aukið aðgengi landsmanna telst vera langtímamarkmið. Að sama skapi mun landfræðileg staðsetning vinnslu, greiningar og þjónustu hafa æ minni minni þýðingu. Gildir það jafnt um sérfræðilegt vinnuframlag eða hvort verkefni eru unnin á höfuðborgarsvæði eða landsbyggðinni. Sýslumannsembættin taka því fullan þátt í þróuninni og keppast við að svara kalli tímans.
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum
Í dag starfa 9 starfsmenn hjá embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum í 8,26 stöðugildum. Starfsemin er rekin í einni starfsstöð og þar eru þjónustaðir um 4300 íbúar Vestmannaeyja. Auk kjarnastarfsemi sýslumanna er veitt þjónusta Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga Íslands. Í stjórnsýsluhúsinu svokallaða er einnig dómssalur Héraðsdóms Suðurlands en dómþing eru haldin reglulega í Vestmannaeyjum. Embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum fer með nokkur sérverkefni, s.s. rafræna vinnslu reglugerðasafns, löggildingu skjalaþýðenda og dómtúlka og auðkennahreinsun og birting úrskurða dómsmálaráðuneytis á sviði fjölskyldumála á innri vef sýslumanna. Þá sinnir sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum útgáfu staðfestinga fyrir þá sem hyggjast stofna til hjúskapar erlendis. Með tilkomu aukinnar rafrænnar stjórnsýslu hefur embættið í Vestmannaeyjum aðstoðað embætti sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu við úrvinnslu ýmissa fjölskyldamála. Sýslumanninum í Vestmannaeyjum var árið 2020 falið að stýra tilraunaverkefni um að efla og þróa samvinnu barnaverndar, félagsþjónustu, lögreglu og sýslumanna á landsvísu í málum er lúta að velferð og högum barna, með áherslu á vernd barna sem búið hafa við ofbeldi á heimili.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd