Tækniskólinn er fjölmennasti framhaldsskóli landsins og leiðandi í starfs- og tæknimenntun á Íslandi. Nú stunda liðlega 3.000 nemendur nám við skólann á 50 mismunandi brautum og hafa nemendur aldrei verið fleiri. Stefna Tækniskólans, skóla atvinnulífsins, er að hann verði áfram eftirsóknarverður vinnustaður og vel rekinn skóli þar sem nemendum og starfsfólki líður vel og aðstaða er til fyrirmyndar. Tækniskólinn leggur áherslu á öflug tengsl við atvinnulífið og að vera í forystu við innleiðingu á bestu kennsluaðferðum hverju sinni.
Hlutverk
Að bjóða upp á fjölbreytt og framsækið nám í góðu samstarfi við atvinnulífið og að efla nemendur til persónulegs þroska og virkrar þátttöku í samfélaginu.
Sérstaða Tækniskólans felst í nánum tengslum hans við atvinnulífið í gegnum eignarhaldsfélag hans. Flestar námsbrautir Tækniskólans veita markvissan undirbúning til ákveðinna starfa jafnframt því sem þær opna leiðir til áframhaldandi náms. Sérstakt hlutverk Tækniskólans er að mennta eftirsótt fólk í handverks, – iðnaðar, – tækni-, tölvu-, vélstjórnar-, skipstjórnar- og sjávarútvegsgreinum til starfa í íslensku, jafnt sem alþjóðlegu umhverfi.
Markmið
Meginmarkmið Tækniskólans, skóla atvinnulífsins, er að veita nemendum menntun sem samtímis er sniðin að þörfum nemenda og atvinnulífs, auðga líf einstaklinganna og efla samfélagið.
Eftirsóttur skóli með fyrirmyndar aðstöðu, þekktur fyrir fagmennsku og nútímalegt nám. Skóli sem útskrifar framúrskarandi fagfólk.
Gildi
Tækniskólinn hefur sett sér gildi sem höfð eru að leiðarljósi í öllu starfi og rekstri skólans. Mikilvægt er að starf innan skólans sé á grundvelli þessara gilda og að sífellt sé leitast við að mæta þeim kröfum sem samtíminn gerir til skólastarfs. Samhliða er horft til framtíðar og rýnt í þróun kennslu og starfshátta.
Gildi Tækniskólans eru eftirfarandi:
Alúð
Við sýnum hvert öðru góða framkomu, vinsemd og virðingu. Starfsfólk og nemendur sinna verkefnum af natni og fagmennsku. Nemendur læra vinnubrögð sem stuðla að öryggi, gæðum og skilvirkni.
Framsækni
Tækniskólinn er framsækinn í kennsluháttum og þróun námsgreina. Við fylgjumst með nýjungum og temjum okkur lausnamiðuð vinnubrögð. Nýsköpun og útsjónarsemi skal vera í fyrirrúmi. Nemendur tileinka sér skapandi hugsun og fagleg vinnubrögð.
Fjölbreytileiki
Tækniskólinn er skóli margbreytileika með fjölbreyttum námsleiðum og gróskusömu félagslífi.
Við berum virðingu fyrir mismunandi menningu og uppruna, þvert á kyn og stöðu einstaklinga. Við sýnum skilning og leggjum okkur fram við að efla og þroska nemendur sem best við getum.
Sjálfsmat og innra eftirlit
Gæðakerfi
Gæðakerfi Tækniskólans er vottað samkvæmt ISO 9001:2015 af Vottun hf. sem framkvæmir reglulega úttekt á kerfinu. Einnig er kerfið reglulega tekið út af óháðum úttektaraðila að kröfu IMO, International Maritime Organization sem Ísland er aðili að.
Skólinn vinnur sjálfur stöðugt að umbótum gæðakerfisins m.a. með innri úttektum, rýni ferla, rýni atvika, meðhöndlun ábendinga og forvarna- og úrbótaverkefnum. Gæðakerfi skólans er ætlað að tryggja að skólinn uppfylli þarfir og væntingar nemenda, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila skólans. Gæðahandbók skólans heldur utan um stefnuskjöl og verklagsreglur sem ná yfir alla starfsemi skólans með tilheyrandi vinnulýsingum, gátlistum, eyðublöðum og leiðbeiningum. Gæðahandbókin er aðgengileg öllum starfsmönnum skólans.
Öryggismál
Tækniskólanum er umhugað um öryggi og heilsu nemenda og starfsmanna og hefur það að markmiði að stuðla að öruggu og heilsusamlegu starfsumhverfi. Fjöldi öryggisúttekta voru framkvæmdar árið 2022 og var áfram unnið að áhættumati á ákveðnum þáttum skólastarfsins. Skráningar í ábendingakerfi skólans héldu áfram að aukast á árinu svo og skráningar í atvikakerfi skólans, en bæði þessi kerfi voru tekin í notkun 2018. Á árinu var hafin greining á notkun efna í skólanum með það fyrir augum að draga úr notkun skaðlegra efna eins og mögulegt er og að varðveisla þeirra fari eftir ströngustu kröfum. Ætlunin er að taka nýja viðurkennda efnaskápa í notkun svo og kerfi sem heldur utan um öll efni sem notuð eru í skólastarfinu.
Véltækni- og skipstjórnarskólinn
Tækniskólinn er kjarnaskóli í skipstjórnar- og vélstjórnargreinum og hefur lagt sig fram um að rækja það hlutverk af alúð og samviskusemi. Helstu verkefni Skipstjórnar- og Véltækniskólanna sem kjarnaskóla hafa á undanförnum árum verið margvísleg og tengst fjölbreyttum verkefnum. Meginverkefnin hafa annars vegar verið samstarf og ráðgjöf til innlendra skóla og hins vegar samstarf við stjórnvöld um réttindamál og þróun náms. Námið við þessa skóla er viðurkennt af IMO, Alþjóða siglingamálastofnuninni, og gefa hérlend samgönguyfirvöld út alþjóðlega viðurkennd skírteini eftir námið.
Tengsl við atvinnulífið
Kennarar faggreina skólans hafa breiða fagþekkingu, eru stoltir af sínum iðngreinum og bera hag þeirra fyrir brjósti með því að leggja sitt af mörkum til að byggja brú milli skóla og atvinnulífs. Reglulega koma t.d. kennarar úr atvinnulífinu í heimsókn í skólann með innlegg og fyrirlestra og sömuleiðis hafa nemendur unnið verkefni í tengslum við atvinnulífið. Kennslan og starfið í skólanum hefur notið velvildar fyrirtækja og er alltaf vel tekið á móti nemendahópum sem fara í tugi heimsókna á hverju ári í ýmis fyrirtæki sem kemur á góðu sambandi við atvinnulífið og hefur sú tenging heldur verið að aukast. Stórar gjafir hafa verið færðar skólanum frá ýmsum fyrirtækjum í gegnum tíðina. Gjafir sem koma sér vel í kennslu, styðja við námið og auka tengsl við nýjustu tækni og þróun í faggreinunum.
Námskeið
Endurmenntunarskólinn hefur sérstöðu meðal undirskóla Tækniskólans en hlutverk hans er m.a. að efla og auka framboð á endur- og símenntun með þarfir atvinnulífsins að leiðarljósi. Haldinn er fjöldi námskeiða á hverju ári, jafnt starfstengd réttindanámskeið sem og tómstundanámskeið og einnig sérhæfð námskeið fyrir starfsfólk ólíkra atvinnugreina til sjós og lands sem og undirbúningsnámskeið fyrir sveinspróf. Endurmenntunarskólinn hefur notið góðs af opnun framtíðarstofunnar 42 og má segja að mörg ný námskeið hafi sprottið fram í tengslum við aðstöðuna þar og þá grósku sem hefur átt sér stað frá opnun 42. Endurmenntunarskólinn hefur einnig staðið fyrir námskeiðum fyrir ungmenni undir nafninu Tækniskóli unga fólksins, en þau námskeið hafa verið í boði í júnímánuði.
Þjónusta
Náms- og starfsráðgjöf
Náms- og starfsráðgjöfin snertir fjölmörg svið skólastarfsins en meginþungi starfsins er ráðgjöf við nemendur skólans, bæði í dagskóla og dreifnámi. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og á ýmsum aldri og tekur ráðgjöfin mið af því. Náms- og starfsráðgjafar eru málsvarar nemenda innan skólans og gæta hagsmuna þeirra. Við Tækniskólann starfa fjórir náms- og starfsráðgjafar í fullu starfi. Náms- og starfsráðgjafar liðsinna nýnemum á margvíslegan hátt, m.a. með nýnemaviðtölum við drjúgan hluta nemenda yngri en 18 ára og forráðamenn þeirra. Ávallt er lögð áhersla á að bjóða foreldrum til viðtals og/eða hafa samband í tölvupósti eða síma.
Sálfræðiþjónusta
Sálfræðiþjónusta hefur nú verið starfrækt við Tækniskólann síðan haustið 2018. Megin tilgangur sálfræðiþjónustunnar er að bjóða nemendum upp á gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu í nærumhverfi þeirra, þ.e. í skólanum. Auk þess var horft til þess að sálfræðingur gæti boðið upp á námskeið og fræðslu, og að starfsfólk gæti leitað eftir sálfræðiþjónustu ef svigrúm skapaðist til. Boðið er upp á tímapantanir í gegnum Innu en þannig geta nemendur pantað sér tíma milliliðalaust og valið þá tímasetningu sem passar við stundatöflu þeirra. Nemendur hafa tekið vel í þessa þjónustu og nýtt sér hana. Samstarf var haft við Landlæknisembættið og gæða- og skjalastjóra skólans um vinnulag, örugga varðveislu persónuupplýsinga og fleira. Sálfræðingurinn er einnig í nánu samstarfi við náms- og starfsráðgjafa Tækniskólans sem og aðra í stoðteymi skólans.
Upplýsinga- og alþjóðadeild
Meginhlutverk Upplýsinga- og alþjóðadeildar er að veita nemendum og starfsmönnum Tækniskólans greiðan aðgang að upplýsingum og heimildum vegna náms og kennslu auk þess að sjá um alþjóðamál skólans, sækja um Erasmus+ styrki og hafa umsjón með nýtingu þeirra. Á skólaskrifstofu taka starfsmenn m.a. á móti fyrirspurnum frá nemendum jafnt sem almenningi og veita almennar upplýsingar um nám og kennslu. Á bókasafninu er veitt fjölþætt þjónusta, s.s. aðstoð við upplýsingaöflun, heimildaleit og kennsla í notkun heimilda, útlán, uppsetningu verkefna og prentun auk persónulegrar aðstoðar við tölvunotkun. Starfsfólk sér einnig um útgáfu prentkorta til nemenda og starfsfólks. Safnið stendur fyrir kennslu í upplýsingalæsi fyrir fyrsta árs nemendur og starfsfólk kennir jafnframt hvernig fara skal með heimildir í heimildaritgerðum og lokaverkefnum.
Forvarnir
Markvisst er unnið að forvörnum í skólanum með fræðslu til nemenda m.a. um skaðsemi tóbaksnotkunar, vímuefna, mikillar spilunar tölvuleikja, áhrif ofnotkunar samfélagsmiðla og mikilvægi næringar og nægs svefns. Stutt er við forvarnarstarfið með því að bjóða upp á nám í lífsleikni, fræðslu um mataræði og svefn og með því að bjóða upp á hollan og góðan mat í mötuneyti skólans, en skólinn er þátttakandi í samvinnuverkefni Landlæknis „Heilsueflandi framhaldsskóli“. Við skólann starfar forvarnarfulltrúi.
Jafnréttismál
Við skólann er virk jafnréttisnefnd sem skipuð er fulltrúum starfsmanna, kennara og nemenda. Í jafnréttisnefnd sitja fimm einstaklingar þar af a.m.k. einn úr röðum almennra starfsmanna, einn kennari og einn nemandi. Stjórn nemendasambands Tækniskólans tilnefnir sinn fulltrúa. Hlutverk jafnréttisnefndar er að fylgjast með stöðu jafnréttismála í skólanum, gera tillögur um stefnu og áætlanir skólans í jafnréttismálum og fylgja jafnréttisáætlun eftir. Jafnréttisnefnd setur fram tveggja ára aðgerðaáætlun í senn, fylgir eftir framkvæmd hennar og metur árangur miðað við sett markmið. Formaður jafnréttisnefndar er jafnréttisfulltrúi Tækniskólans.
Einnig var árið 2017 stofnuð jafnréttisnefnd nemenda sem hefur staðið fyrir fræðslu og framförum á sviði jafnréttismála, t.d. hafa verið sett upp kynlaus salerni og vann nefndin að kynningu á átakinu Sjúk ást í samvinnu við Stígamót.
Félagsmálafulltrúi
Hlutverk félagsmálafulltrúa er að styðja við og veita Nemendasambandinu og skólafélögunum ráðgjöf. Eins hefur hann það hlutverk að vinna markvisst að eflingu félagslífs innan skólans. Félagsmálafulltrúi er í fullu starfi við skólann.
Félagslíf
Félagslífið í Tækniskólanum er mikilvægur þáttur í skólastarfinu og áhersla er lögð á að markvisst sé unnið að því að bjóða upp á félagslíf sem höfðar til breiðs hóps nemenda og viðburði sem tengjast fjölbreyttum áhugamálum þeirra. Í hverjum undirskóla eru starfrækt skólafélög sem standa fyrir margvíslegum viðburðum ætluðum nemendum undirskólanna en heildarsamtök félaganna Nemendasambandið (NST) heldur utan um framkvæmd stærri viðburða sem opnir eru öllum nemendum skólans.
Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að efla félagslíf skólans. Hefur sú vinna skilað góðum árangri sem hefur sýnt sig m.a. í aukningu á fjölda viðburða, þátttöku nemenda og aukinni virkni skólafélaganna.
Öflugt félagslíf.
© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd