Tálknafjörður er sjálfstætt sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum. Eins og títt er um vestfirsku þorpin byggðist Tálknafjörður fyrst og fremst upp í kringum fiskveiðar. Fyrrum var mikið róið frá verstöðvum beggja vegna fjarðarins og í lok 19. aldar reistu Norðmenn hvalveiðistöð á Suðureyri við sunnanverðan fjörðinn. Fjölgaði þá íbúum á svæðinu talsvert en eiginleg þéttbýlismyndun hófst þó í raun ekki fyrr en um miðja 20. öldina. Fiskveiðar eru enn í dag afar mikilvægar fyrir Tálknfirðinga en þó eru fiskeldi og starfsemi sem því tengist orðin umfangsmest í atvinnulífi staðarins. Þá hefur ferðaþjónusta farið vaxandi á Tálknafirði enda hefur bærinn og nágrenni hans upp á margt að bjóða. Sundlaugin, sem staðsett er alveg við hið frábæra tjaldsvæði Tálknfirðinga, þykir ein sú besta á Vestfjörðum og ekki er síðra að heimsækja Pollinn, heitu pottana í landi Litla-Laugardals, skammt utan við bæinn. Mikið er um fallegar gönguleiðir við Tálknafjörð. Við Arnarstapa er til að mynda einstök kyrrð og náttúrufegurð og ekki er síðra að ganga að Suðureyri þar sem hvalveiðistöðin stóð forðum.
Sveitarfélagið
Þann 1. janúar 2020 voru íbúar Tálknafjarðarhrepps samtals 251. Í sveitarstjórn eru fimm kjörnir fulltrúar, fjórir af Ó-lista, Óháðra og einn af E-lista, Eflum Tálknafjörð. Bjarnveig Guð-brandsdóttir er oddviti en aðrir fulltrúar í sveitastjórn eru Guðni Ólafsson, Ingibjörg Ósk Þórhallsdóttir, Björgvin Smári Haraldsson og Lilja Magnúsdóttir. Ólafur Þór Ólafsson hefur verið sveitarstjóri og hafnarstjóri frá árinu 2020. Sveitarfélagið sinnir öllum hefðbundnum verkefnum sveitarfélaga, ýmist eitt og sér eða í samstarfi við önnur sveitarfélög. Lífæð samfélagsins er Tálknafjarðarhöfn sem sveitarfélagið rekur. Skrifstofa sveitarfélagsins er rekin að Strandgötu 38 og þar er Eygló Hreiðarsdóttir skrifstofustjóri. Í Tálknafjarðarskóla er samrekinn grunnskóli, leikskóli og tónlistarskóli undir stjórn Birnu Hannesdóttur skólastjóra. Við hlið skólans stendur Íþróttamiðstöð sveitarfélagsins sem Bjarnveig Guðbrandsdóttir veitir forstöðu ásamt því að stýra tjaldsvæðinu. Félagstarf eldri borgara og félagsmiðstöð unglinga, Tunglið, deila húsnæði í Vindheimum. Á hverjum tíma eru í kringum 30 starfsmenn hjá sveitarfélaginu auk þess sem félagsmálastjóri, íþróttafulltrúi og slökkviliðsstjóri eru sameiginlegir starfsmenn með nágrönnunum í Vesturbyggð.
Tækifæri
Það er ljóst að það eru fjölmörg tækifæri á Tálknafirði og þar mun blómleg byggð verða um langa framtíð. Hin vegar er óljóst hvaða framtíð bíður Tálknafjarðarhrepps sem skipulagseiningar í ljósi umræðna um lágmarksstærð sveitarfélaga og líklegt verður að teljast að einhverjar breytingar séu væntanlegar á næstu árum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd