Tandraberg ehf. var stofnað á haustdögum 2001 af hjónunum Einari Birgi Kristjánssyni og Árnýju Eiríksdóttur og hafa þau unnið við félagið frá upphafi. Starfsemin hófst á Norðfirði í gömlu litlu húsi frá síldarárunum. Upphaflega var félagið stofnað með það markmið að vinna fisk og þjónusta smábáta. Strax á upphafsárunum breyttist starfsemin og aðalverkefnin urðu að skipa upp frosinni vöru úr ört stækkandi flota uppsjávarfrystiskipa á árunum 2003-2010. Uppskipun á frystum sjávarafurðum er enn einn þáttur í starfsemi félagsins. Einnig rak félagið fiskvinnslu og smáa útgerð í nokkur ár.
Starfsemin
Eftir að álver Alcoa á Reyðarfirði var tekið í notkun fór félagið að sinna ýmsum verkefnum þar og þegar mest var, var gerð út jarðvinnudeild. Í dag sér Tandraberg enn um að losa skip sem koma með hráefni til álframleiðslunnar bæði súrál og flúor, u.þ.b. 600.000 tonn árlega.
Miklar breytingar hafa orðið á sjávarútvegi frá því fyrirtækið var stofnað og nauðsynlegt að samlaga reksturinn að þeim öru breytingum. Í dag er starfsemi félagsins fjölþætt þjónusta við stóru sjávarútvegsfyrirtækin er starfa í Fjarðabyggð, álverið í Reyðarfirði auk þjónustu við skip er kjósa að landa afla sínum í höfnum Fjarðabyggðar.
Félagið sá um smíði vörubretta sem notuð voru undir sjávarafurðir. 2014 var ráðist í byggingu húss á Norðfirði og keyptar velar til þess að smíða bretti. Er félagið hið fyrsta á íslandi til að vélvæða brettaframleiðslu. Árið 2016 stofnaði Tandraberg dótturfélagið Tandrabretti ehf. sem yfirtók brettasmiðjuna.
Stjórnendur, starfsfólk og aðsetur
Hjá Tandraberg og tengdum félögum starfa á bilinu 30-40 manns árið um kring. Frá upphafi hefur Einar Birgir veitt fyrirtækinu forstöðu. Undanfarin 5 ár hefur Hafsteinn Friðbjarnarson gengt stöðu yfirverkstjóra. Stærstur hluti starfsmanna Tandraberg eru af erlendu bergi brotnir og flestir frá Póllandi. Félagið er þekkt fyrir hversu snöggir hinir harðduglegu starfsmenn eru að stafla á bretti og skipa upp allt að 800 tonnum af frystum afurðum á einum degi. Hafa sumir skipstjórnendur á orði að hvergi annarsstaðr sé hraðinn slíkur.
Tandraberg hefur undanfarin 14 ár haft aðsetur við Strandgötu á Eskifirði og þaðan er þjónustunni stýrt um hafnir og athafnasvæði Fjarðabyggðar.
Rekstur og framtíðarsýn
Rekstur félagsins hefur verið upp á ölduföldum og niður í öldudölunum og má segja að fylgni sé með afkomu félagsins og hvernig árar í uppsjávariðnaði. Í dag er allt útlit fyrir a.m.k. tvö eða þrjú góð ár framundan í loðnuveiðum, en meiri óvissa ríkir með framtíð makrílveiða, en þetta eru þeir þættir er mestu áhrif hafa á afkomu félagsins. Enda hefur óvissa verið rauði þráðurinn í rekstraáætlunum frá upphafi og eigendur orðnir henni vanir.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd