Tandrabretti ehf

2022

Tandrabretti ehf. varð til árið 2016 þegar Tandraberg ehf. keypti meirihluta hlutafjár í félaginu SAH bretti ehf. og sameinaði við nýja og vélvædda brettaframleiðslu á Norðfirði. Framkvæmdastjóri frá upphafi hefur verið Einar Birgir Kristjánsson. Fljótlega eftir að félagið var keypt var ráðist í að kaupa enn afkastameiri vél til brettaframleiðslunnar í Neskaupstað og sú eldri flutt til Suðurnesja og var þar rekin brettasmiðja í um tveggja ára skeið, þegar henni var hætt og vélin seld úr landi. Framleiðslugeta hinnar nýju vélasamstæðu er um 2-300 bretti á klukustund. Nauðsynlegt er að geta framleitt bretti jafnóðum fyrir hin afkastamiklu fiskiðjuver í Fjarðabyggð. Brettin sem framleidd eru fara víða auk þess að vera notuð í fisk- og áliðnaðinum í Fjarðabyggð. Allt norður til Húsavíkur í stóriðju og suður til Djúpavogs til nota undir ferskan lax. Hráefnið í brettin flytur fyrirtækið inn sjálft að mestu frá Eystrasaltslöndunum og Rússlandi.

Endurvinnsla
Tandrabretti hafa starfrækt endurvinnslu á notuðu umbúðatimbri um nokkurra ára skeið. Í upphafi var vinnslan á tilraunastigi en hefur nú stækkað og eflst. Á árinu 2019 hófust tilraunir með framleiðslu á viðarperlum (eng:pellets) sem bæði eru notaðar undir húsdýr, aðalega hesta en einnig til húshitunar. Framleiðslan hefur aukist jafnt og þétt og er framleitt undir vörumerkinu ILMUR og er reiknað með að hún fari yfir eitt þúsund tonn á árinu 2021. Mikill áhugi er fyrir að nota þessa umhverfisvænu afurð til húshitunar þar sem um kolefnishlutlausa orku er að ræða. Þess má geta að nú þegar hefur Tandrabretti staðið fyrir kaupum á kyndistöð og kornþurrkara sem nota perlur sem eldsneyti og hafa samningar tekist við Fjarðabyggð um uppsetningu á katli til að kynda fjarvarmaveitu á Neskaupsstað í tilraunaskyni. Lítilsháttar hefur verið framleitt af perlum úr íslensku lerki en uppi eru áform um að stórauka þá framleiðslu og styrkja þar með hringrásarhagkerfi hinnar öflugu skógræktar á Austurlandi.

Starfsfólk og stjórnendur
Starfsmenn Tandrabretta erum á bilinu 10-14. Hermann Ísleifsson er framleiðslustjóri brettaverksmiðjunnar í Neskaupstað. Magnús Þorsteinsson einn eigenda félagsins hefur séð um innkaup á hráefni til brettaframleiðslunnar auk þess að hafa í nánu samstarfi við framkvæmdastjórann Einar Birgi unnið að þróun á viðarvinnslunni. Sigrún Þorsteinsdóttir er rekstastjóri félagsins.

Framtíðarsýn
Framtíðarhorfur virðast bjartar, útlit er fyrir góða og stóra loðnuvertíð á árinu 2022 en miklar sveiflur í hinum svokallaða uppsjávariðnaði hafa mikil áhrif á rekstur félagsins. Félagið hefur unnið markvisst að öflun markaða fyrir bretti í annarskonar iðnaði til að draga úr sveiflum. Einnig eru jákvæð teikn um að endurvinnsla viðarafurða og vinnsla skógarafurða muni aukast á næstu árum og verða hluti af þeirri lausn sem mun minnka eða stöðva vinnslu jarðefnaeldsneytis í nánustu framtíð.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd