Tanni Travel

2022

Tanni hf. Ferðaþjónusta, í daglegu tali Tanni Travel, er fjölskyldufyrirtæki í fyllstu merkingu þess orðs. Ekki bara vegna þess að þar starfa saman fjölskyldumeðlimir af þremur kynslóðum, heldur líka vegna þess að þar ríkir sannkallaður fjölskylduandi í allri starfsemi.

Sagan
Til þess að skilja þennan anda til fulls verður að skoða sögu og aðdraganda að stofnun fyrirtækisins, en hann má rekja aftur um hálfa öld. Sveinn Sigurbjarnarson er fyrir margt löngu orðinn þjóðsagnapersóna í lifanda lífi. Eitilharður ferða- og ævintýramaður sem hefur marga fjöruna sopið þegar kemur að því að takast á við þær áskoranir sem fylgt geta ferðum innanlands og utan, í byggð eða og ekki síst, uppi á hálendi. Sveinn hóf, við annan mann, skipulagðar ferðir á snjóbíl milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar árið 1970. Þetta var fyrir tíma jarðganga á þessari leið og Oddskarðið mikill farartálmi og oftast kolófær venjulegum bílum nánast allan veturinn. Flutti Svenni, eins og flestir kalla hann, bæði fólk og vörur milli staða og vatt reksturinn fljótlega upp á sig, keyptir voru fjórhjóladrifsbílar til að sinna öðrum akstri og síðar rútur. Auk þess að sinna áætlunarakstri fór Svenni smátt og smátt að sinna akstri með ferðafólk í skipulögðum ferðum á vegum ýmissa aðila og það er þessi fjölbreytta starfsemi sem myndar grunninn að því sem í dag er Tanni Travel. Það eru sennilega ekki margir Austfirðingar sem ekki hafa einhvern tíma setið í bíl með Svenna undir stýri og allmargir hafa þurft að reiða sig á hann í ýmsum svaðilförum í gegnum árin. Það ber öllum saman um að betri mann sé ekki hægt að hugsa sér til að takast á við hvers kyns vanda. Svenni er alltaf rólegur, sama hvað á dynur, og finnur lausn á hverjum vanda. Árið 2006 hlaut hann Klettinn, viðurkenningu ferðaþjónustunnar á Austurlandi, í annað sinn sem hún var veitt. Kletturinn er veittur þeim sem um árabil hafa staðið í framlínu ferðaþjónustu á Austurlandi og með ósérhlífni og eljusemi unnið að framgangi og vexti atvinnugreinarinnar. Ævisaga Svenna, Það reddast, var gefin út árið 2010 og þar má fræðast meira um lífshlaup hans.
Svenni stofnaði Tanna ferðaþjónustu ehf. árið 1993. Nafn fyrirtækisins hefur stundum valdið fólki heilabrotum en það á sér rætur í sögu fyrirtækisins. Hinn upprunalegi Tanni er snjóbíll sem Svenni festi kaup á árið 1974 til að leysa af hólmi snjóbílinn sem hann hóf reksturinn á. Nafnið hlaut hann vegna þess að framan á honum er glussastýrð tönn, sem kom sér oft vel í ferðum. Snjóbíllinn Tanni er mikil öndvegismaskína og þjónaði vel og dyggilega í á þriðja áratug. Að minnsta kosti þótti ástæða til að nefna fyrirtækið eftir honum. Nýverið var hann tekinn á hús, fór fyrir eigin vélarafli, og stefnt er að því að koma öldungnum í eins gott stand og hægt verður miðað við aldur og fyrri störf. Það hefur frá upphafi verið hefð hjá Tanna Travel að öll farartæki fá sitt nafn. Þetta setur skemmtilegan blæ á starfsemina og allt verður einhvern veginn persónulegra fyrir vikið. Auk snjóbílsins Tanna má nefna að í bílaflotanum eru núna m.a. Maddý og Valgerður, Lukka og Lauma, Míra og Týra og Emilía. Eins og sjá má hefur það yfirleitt verið svo að rúturnar hljóta kvennöfn, stundum í höfuðið á konum eða körlum sem komið hafa við sögu fyrirtækisins. En eitt hefur aldrei mátt gera, og það er að nefna bifreið í höfuðið á Margréti Óskarsdóttur, eiginkonu Svenna. Magga hefur starfað við bókhald hjá fyrirtækinu og er fjármálastjóri þess, en þvertekur fyrir að ljá nafn sitt neinu farartæki. Ein rútan í flotanum hlaut þó á sínum tíma nafnið Drottningin, og geta glöggir lesendur kannski getið sér til hver var innblásturinn að baki því nafni.
Árið 2013 urðu ákveðin tímamót í sögu Tanna Travel þegar Svenni lét þar af framkvæmdastjórn og Díana Mjöll, dóttir hans og Möggu, tók við en þau feðgin eiga fyrirtækið saman. Svenni starfaði þó áfram hjá fyrirtækinu sem bílstjóri og stjórnarformaður þess. Fjórði fjölskyldumeðlimurinn sem starfar hjá fyrirtækinu sem stjórnandi er svo Sigurbjörn Jónsson, eiginmaður Díönu Mjallar, sem er yfirmaður bíladeildar. Auk þeirra starfa að jafnaði sex til átta manns hjá fyrirtækinu, bílstjórar, viðgerðarmenn og skrifstofufólk. Umsvifin aukast verulega á sumrin og þá fjölgar í hópi starfsfólks þegar við bætast leiðsögumenn, bílstjórum fjölgar og bæta þarf við á skrifstofu. Þannig hafa börn Díönu Mjallar og Sigurbjörns einnig komið til starfa hjá fjölskyldufyrirtækinu. Höfuðstöðvar Tanna Travel eru, og hafa verið frá fyrstu tíð, við Strandgötu 14 á Eskifirði, þar sem bæði skrifstofa og verkstæði eru til húsa.
Sveinn lést eftir erfið veikindi 30. mars 2021. Ástríða hans var fólk og ferðalög og hann var svo lukkulegur að geta starfað við þá ástríðu alla sína tíð. Hann skilur eftir sig gott og stöndugt fyrirtæki með frábæru starfsfólki sem mun halda áfram að byggja upp og heiðra minningu hans. Sveini er þakkað fyrir óeigingjarnt framlag til ferðaþjónustu á Austurlandi og Íslandi öllu.

Starfsemin
Á síðari árum hefur Tanni Travel fært út kvíarnar og er nú alhliða ferðaþjónustufyrirtæki. Fyrirtækið hefur bæði hópferða- og ferðaskrifstofuleyfi og getur þannig hvort sem er veitt viðskiptavinum sínum heildarlausn með því að skipuleggja og framkvæma ferðir frá upphafi til enda, eða með því að bjóða upp á einstaka þætti, svo sem bíl og bílstjóra eða leiðsögn. Þegar þú skiptir við Tanna Travel er lögð mikil áhersla á að veita persónulega þjónustu sem sniðin er að þínum þörfum. Sveigjanleiki, ásamt lausnamiðuðu viðhorfi, hefur ávallt verið aðalsmerki fyrirtækisins. Mjög snar þáttur í verkefnum fyrirtækisins yfir sumartímann hefur verið þjónusta við skemmtiferðaskip sem koma í hafnir á Austurlandi. Skipin bjóða þá jafnan upp á dagsferðir með rútum og hefur Tanni Travel sérhæft sig í skipulagningu og framkvæmd slíkra ferða. Oft er mikið umleikis dagana sem stærstu skipin koma við og allur bílafloti og leiðsagnarher undir, en fyrirtækið hefur yfir að ráða 16 hópferðabifreiðum, 9 til 65 sæta, sem samtals geta flutt hátt í 700 farþega. Tanni Travel hefur einnig skipulagt ýmsar ferðir bæði innanlands og út fyrir landsteinana. Má þar nefna klassískar hálendisferðir hér innanlands, ferðir til Færeyja sem njóta jafnan mikilla vinsælda og ýmsar hópferðir til Evrópu. Þá hefur Tanni Travel tekið virkan þátt í þróunarstarfi í ferðaþjónustu á Austurlandi og rekur til að mynda verkefnið Meet the Locals þar sem boðið er upp á ýmsa afþreyingu fyrir erlent ferðafólk undir þeim formerkjum að það hitti og kynnist heimafólki á hverjum stað. Sem dæmi um slíkt má nefna innanbæjargöngur með leiðsögn og kvöldverð á einkaheimili. Fyrir verkefnið hlaut Tanni Travel frumkvöðlaviðurkenningu ferðaþjónustunnar á Austurlandi árið 2014. Viðurkenning sú er veitt þeim aðilum sem sýna áræðni og hugmyndaauðgi við uppbyggingu á þjónustu fyrir ferðamenn og stuðla með verkum sínum að aukinni fjölbreytni í atvinnugreininni. Tanni Travel hefur einsett sér að vera leiðandi þegar kemur að öryggis-, gæða- og umhverfismálum. Með það að leiðarljósi gerðist fyrirtækið árið 2017 aðili að yfirlýsingu Festu og Íslenska ferðaklasans um ábyrga ferðaþjónustu og árið 2020 hlaut Tanni Travel síðan vottun Vakans, sem er gæða- og umhverfiskerfi sem gert er fyrir ferðaþjónustu á Íslandi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd