Dentalstál

2022

Það voru Eggert Kristinsson og Anna Viggósdóttir sem stofnuðu Dentalstál sf. í október árið 1986. Fyrirtækið var þá til húsa að Borgatúni 29 í Reykjavík. Reksturinn var í formi sameignarfélags fyrstu árin. Eggert kaupir síðan hlut Önnu og heldur rekstrinum áfram í sama formi. Upp úr 1990 er keypt húsnæði að Hverfisgötu 105 í Reykjavík og 1994 er félaginu breytt í einkahlutafélag.

Starfsemin
Starfsemi Dentalstáls ehf. felst í tannsmíðavinnu, gerð stálparta og skyldri starfsemi. Frá örófi alda hefur tannheilsa skipt okkur mennina miklu máli bæði heilsufarslega og hvað útlit snertir. Menn hafa því langa tíð fengist við að lappa upp á tennur í munni manna. Í aldanna rás hefur tannsmíði tekið stórstígum framförum og er þar ekkert lát á. Sérhæfðir tannsmiðir standa á bak við tannlækna þegar kemur að gerð tanna og góma.
Stálpartagerð er nokkuð sérhæfð og var til skamms tíma ekki kennd á Íslandi. Þau Eggert og Anna lærðu stálpartasmíðina hjá Dieter Lucas á Tannsmíðaverkstæðinu ehf. sem var brautryðjandi í stálpartagerð á Íslandi. Dieter Lucas var á þessum tíma fremstur í stálpartasmíði og tannsmíði hérlendis. Tannlæknar um allt land hafa átt viðskipti við Dentalstál í gegnum tíðina meðal annars vegna sérhæfingar fyrirtækisins í stálpartagerð. Stálpartar eru stálgómar sem krækjast á eigin tennur sjúklings ef þær eru enn til staðar eða sem festing á innplönt. Co-Cr er uppistaðan í stálpörtum en það er efni sem reynst hefur feykisterkt og stöðugt. Efnið hefur engin áhrif á líkamsstarfsemi og ofnæmi af völdum málmsins er afar sjaldgæft.

Aðsetur og starfsfólk
Í gegnum tíðina hefur verið nóg að gera hjá Dentalstál ehf. og starfsmenn hafa verið tveir til fjórir allt eftir stöðu verkefna. Árið 2019 flytur félagið starfsemi sína að Laxalæk 36, Selfossi.

Reksturinn
Dentalstál ehf. og EM heimagallerí, sem er listmunasala, slá sér þá saman og eru eitt og sama fyrirtækið í dag. Þróunin er sú að listmunasalan er orðin stór hluti af rekstri fyrirtækisins og er daglegur rekstur gallerísins aðallega í höndum Maríu Ólafsdóttur.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd