Fjölskyldufyrirtæki með öfluga kjarnastarfsemi
Te & Kaffi er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1984 af Sigmundi Dýrfjörð og Berglindi Guðbrandsdóttur. Landsmenn þekkja Te & Kaffi af því frábæra kaffi og tei sem fyrirtækið hefur boðið upp á alla tíð. Í grunninn er kjarnastarfsemi fyrirtækisins framleiðsla á kaffi í fullkomnustu kaffibrennslu landsins og rekstur kaffihúsa sem eru níu talsins.
Mikilvægi stoðdeilda og fljölbreytt flóra spennandi starfa
Í dag starfa í kringum 100 manns hjá fyrirtækinu í gríðarlega ólíkum og skemmtilegum verkefnum. Það er líklega leitun að fyrirtæki með jafn fjölbreytta starfsemi. Til að daglegur rekstur fjölmargra kaffihúsa og sala á ólíka markaði geti gengið smurt fyrir sig þá þarf gott skipulag og frábært starfsfólk á allar starfsstöðvar. Hjá Te & Kaffi hefur tekist að byggja upp ótrúlega flotta liðsheild, fólk með rétt hugarfar og hjartað á réttum stað.
Besta mögulega hráefnið og framleiðsla á heimsmælikvarða
Framleiðsla á kaffi spilar veigamesta þáttinn í starfsemi fyrirtækisins. Með aukinni vitund neytenda um hágæðakaffi hafa sóknarfæri Te & Kaffi aukist til muna á síðustu árum. Strangt gæðaeftirlit á öllu vinnsluferli kaffibaunanna tryggja gæði sem kaffiunnendur á Íslandi geta treyst. Val á réttu hráefni skiptir höfuðmáli og er kaffið smakkað af okkar þaulvönu kaffisérfræðingum til þess að tryggja gæði og gott bragð. Með nýjustu tækni við ristun aukast gæði kaffisins okkar enn frekar. Öflugur hópur sér til þess að kaffibrennslan gangi vel fyrir sig alla daga í verksmiðju sem var stækkuð árið 2017 og er núna fullkomnasta og afkastamesta kaffiframleiðsla á landinu og þótt víðar væri leitað.
Kaffihúsin okkar eru 9 talsins
Á kaffihúsunum okkar, sem eru víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, höfum við fullkomna stjórn á því hvernig hráefnið okkar bragðast í allri þeirri flóru af drykkjum sem boðið er upp á. Kaffihúsin eru miðstöð hugmynda og nýsköpunar og eru þau sífelld uppspretta nýrra drykkja sem falla vel í kramið hjá sívaxandi hópi viðskiptavina okkar. Við höfum lagt metnað okkar í að hanna fallegt umhverfi þar sem viðskiptavinum okkar líður vel. Einnig skiptir miklu máli að þjálfun starfsfólks sé framúrskarandi og fagmennska sé í fyrirrúmi. Gott hráefni, fallegt umhverfi og jákvætt og persónulegt viðmót starfsfólks skapar þá upplifun sem við sækjumst eftir.
Stærsta vörumerkið á íslenska matvörumarkaðnum
Eftirspurn eftir gæðakaffi hefur aukist mikið meðal almennings á undanförnum árum og aukin hlutdeild Te & Kaffi á hinum almenna markaði sýnir það. Sókn fyrirtækisins inn á hinn almenna matvörumarkað hófst fyrir alvöru árið 2004 og í dag hefur Te & Kaffi fest sig rækilega í sessi í helstu matvöruverslunum landsins. Svo rækilega að um þessar mundir er Te & Kaffi stærsta vörumerkið á íslenska matvörumarkaðnum, með tæplega 25% markaðshlutdeild, og ætlar sér enn stærri hluti. Einnig er töluverð sala á fyrirtækjamarkað, bæði á veitingamarkað og skrifstofumarkað.
Horfum björtum augum til framtíðar
Eftirspurn eftir íslenskri framleiðsluvöru hefur aukist á undanförnum árum og nýtur Te & Kaffi góðs af því. Við teljum framtíð fyrirtækisins mjög bjarta og að styrkleikarnir liggi ekki síst í þekkingu starfsmanna. Te & Kaffi er, og verður, öflugt íslenskt fjölskyldufyrirtæki og heldur áfram að vera í fararbroddi íslenskrar kaffimenningar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd