TPZ ehf. Teiknistofa Páls Zóphóníassonar var stofnuð af Páli Zóphóníassyni tæknifræðingi í Vestmannaeyjum árið 1982 og breytt í einkahlutafélag árið 1997.
Eigendur fyrirtækisins eru Björgvin Björgvinsson tæknifræðingur, Páll Zóphóníasson tæknifræðingur og Sigurjón Pálsson tæknifræðingur og vinna þeir allir hjá fyrirtækinu. Auk þess vinna þar Bragi Magnússon verkfræðingur og Ríkharður Stefánsson innanhús-arkitekt. TPZ ehf. hefur því starfað í tæp 40 ár og á þeim tíma komið að mörgum stærstu byggingum og framkvæmdum í Vestmannaeyjum, m.a. fyrir Vestmannaeyjabæ, stóru sjávarútvegsfyrirtækin og auk þess að margvíslegum verkefnum á fasta landinu. Þá hefur TPZ gert aðalskipulag fyrir sveitarfélög ein sér eða í samstarfi við aðra, svo sem fyrir Vestmannaeyjabæ og Sveitarfélagið Skagfjörð.
Starfsemin
TPZ ehf. rekur alhliða ráðgjafarverkfræðiþjónustu og sinnir víðtækri tækniráðgjöf á sviði byggingar- og mannvirkjastarfsemi fyrir einstaklinga, stofnanir, fyrirtæki og sveitarfélög á Íslandi og er aðili að Félagi ráðgjafarverkfræðinga.
Verkefni 2020
Helstu viðfangsefni TPZ ehf. á árinu 2020 voru fjölbreytt að venju, þó var meginþorri verkefnanna tengdur byggingarstarfsemi, hönnun og undirbúningi við útboð og eftirlit.
Helstu verkefni sem TPZ kom að á árinu 2020 var vinna við eftirfarandi verkefni:
Heildarhönnun slökkvistöðvar í Vestmannaeyjum, viðbygging við frystihús Ísfélags Vest-mannaeyja og fiskimjölsverksmiðju sama fyrirtækis, lagnir og loftræsting í uppsjávarfrystihús Vinnslustöðvarinnar, breytingar og viðhald stjórnsýsluhúss í Vestmannaeyjum, lögreglustöðvar og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Endurbygging Ísfélagshússins og breyting á því í 32 íbúða íbúðarhús og rými fyrir útibú Íslandsbanka, endurbygging Fiskiðjuhússins og breyta því að hluta til í íbúðir, annað fyrir stofnanir, safn og skrifstofur. Undirbúningsvinna og endurskipulagning á holræsakerfi Vestmannaeyjabæjar, hönnun lagna og dælustöðva. Umsjón með malbiksframkvæmdum í Vestmannaeyjum og eftirlit með öðrum framkvæmdum og byggingastjórn fyrir opinberar stofnanir. Auk þess hönnun og umsjón með margvíslegum iðnaðar- og íbúðarhúsabyggingum bæði í Vestmannaeyjum og uppi á landi. Hönnun vatnsúðakerfa og loftræstikerfa í frystihús og vélaverkstæði. Gerð deiliskipulags á bújörð og stækkunar kirkjugarðsins í Vestmannaeyjum.
Viðurkenningar
TPZ ehf. hefur hlotið viðurkenningar fyrir verk sín, m.a verðlaun Lagnafélags Íslands í tvígang, annars vegar fyrir Safnaðarheimili Landakirkju og hins vegar Eldheima, gosminjasafn Vestmannaeyjabæjar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd