Teknís ehf

2022

Teknís ehf. er málmsmíðafyrirtæki sem stofnað var árið 1999 og hefur verið í eigu Jóns Þórs Sigurðssonar framkvæmdastjóra þess frá upphafi. Teknís byggir á gömlum grunni, forsöguna má rekja til þess að Sigurður Jónsson hóf rekstur vélsmiðju árið 1956. Fyrsta verkefnið var bygging olíugeymis fyrir Kaupfélagið á Fáskrúðsfirði. Það atvikaðist þannig að Sigurður var þá að vinna við uppsetningu frystitækja fyrir kaupfélagið á vegum Vélaverkstæðis Björgvins Frederiksen. Guðjón Friðgeirsson kaupfélagsstjóri hafði óskað eftir því við Olíufélagið hf. að fá reistan olíugeymi á staðnum en var tjáð að það væri ekki mögulegt því hæfur mannskapur væri ekki á lausu. Guðjón óskaði þá eftir að fá sent efni í tankinn og hann myndi finna einhvern til verksins. Varð úr að Sigurður reisti geyminn. Verkið gekk mjög vel og ljóst var að grunnurinn var lagður að farsælum smiðjurekstri Sigurðar. Sigurður var fæddur á Selbakka á Mýrum 1921, foreldrar hans voru Jón Magnússon og Jóhanna Guðmundsdóttir er síðan fluttu með fjölskylduna að Höskuldstöðum í Breiðdal 1924. Snemma beygðist krókurinn en Sigurður hafði mikinn áhuga á hverskyns vélum og setti upp vindrafstöð við bæinn þegar hann var aðeins 14 ára gamall. Sigurður fluttist til Reykjavíkur þar sem hann lærði vélvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík. Sigurður komst á námssamning hjá Vélaverkstæði Björgvins Frederiksen. Hann starfaði þar við uppsetningu frystikerfa um land allt og var mjög áfram um framfarir í greininni og sótti hann fast að fá rafsuðuvél með í ferðir sínar út á land sem nýttist vel. Rafsuða var þá ekki algeng í kælibransanum en logsuða meira notuð. Eftir frumraun í tankasmíði tók við farsælt samstarf við Olíufélagið við smíði olíugeyma um land allt ásamt olíulögnum og uppsetningu dælubúnaðar þeim tengdum. Fyrirtækið hefur alla tíð síðan þjónustað Olíufélagið en birgðastöðvar félagsins sameinuðust birgðastöðvum Olíuverzlunar Íslands í nýju félagi, Olíudreifingu, árið 1995. Vélsmiðjan hefur allar götur síðan átt farsælt samstarf við ODR ásamt því að byggja olíugeyma og lagnir fyrir Skeljung, Atlantsolíu og Eldsneytisbirgðastöðina á Keflavíkurflugvelli. Árið 2005 sameinuðust Vélsmiðja Sigurðar Jónssonar og Teknís undir nafni Teknís ehf.

VerkefniN
Fyrirtækið hefur tekist á hendur ýmiskonar verkefni stór sem smá, stálgeymar, röralagnir, ýmis stálburðarvirki, brýr o.fl. Fyrirtækið hefur meðal annars byggt yfir eitt hundrað stálgeyma fyrir olíufélög, hitaveitur og fiskimjöls verksmiðjur allt frá 50m3 upp í 8.200m3 að stærð, stálburðarvirki Brúar á Laxá fyrir Vegagerðina, gufuskiljur fyrir Nesjavallavirkjun, suðuvinna vegna 3ja áfanga Nesjavallaæðar. Árið 2011 tók Teknís að sér framleiðslu og uppsetningu fallpípa Búðarhálsvirkjunar í samstarfi við ÍAV fyrir Landsvirkjun. Verkið fólst í framleiðslu stálröra 5,8 metra í þvermál ásamt beygjum og breytistykkjum sem flytja vatn frá inntakslokum að túrbínum virkjunarinnar. Miklar kröfur voru gerðar til gæða verksins bæði hvað varðar smíða nákvæmni en ekki síður suðuvinnu og var 100% röntgenmyndunar krafist. Teknís hefur einnig átt farsælt samstarf með danska verktakafyrirtækinu Per Aarsleff A/S um verkefni fyrir danska herinn á Grænlandi, fyrst í herstöðinni Grönnedal á suður Grænlandi síðar í Daneborg á austurströndinni og Station Nord á norðaustur Grænlandi. Verkefnin fólust í endurbótum á eldsneytiskerfum stöðvana þar sem skipt var um tanka og lagnir. Teknís hefur einnig tekið að sér önnur verkefni og sem dæmi má nefna skilrúm við aðalinngang St. Giles dómkirkjunnar í Edinborg. Það verk var unnið í samvinnu við listamanninn Leif Breiðfjörð og skilrúmið samanstendur af gleri og stáli sem Teknís skar út eftir teikningum Leifs.

Suðuvinna
Mikil þekking á suðuvinnu er til staðar í fyrirtækinu sem byggir á áratuga reynslu við tankasmíði og röralagnir þar sem miklar kröfur eru gerðar. Starfsmenn Teknís hafa tekið þátt í Íslandsmótinu í málmsuðu og hafa náð árangri sem tekið hefur verið eftir, meðal annars hafa tveir starfsmenn unnið Íslandsmeistaratitil í málmsuðu þrjú ár í röð. Viðskiptahópur fyrirtækisins er stór og verkefnin fjölbreytt sem má segja að spanni allt litróf málmsmíði, allt frá tröllvöxnum stálrörum niður í ryðfría smíði þar sem mikilla gæða er krafist.

Fyrirtækið
Teknís hefur starfsstöðvar í eigin húsnæði við Einhellu 8 í Hafnarfirði og er vel tækjum búið til framleiðslu hvers kyns vélbúnaðar og mannvirkja. Mikil áhersla er lögð á gæði í öllum verkum og hafa verið innleiddir verkferlar sem byggja á alþjóðlegum stöðlum því til tryggingar. Gæði og góð þjónusta skapar traust milli okkar og viðskiptavina sem varir um langan aldur.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd