Tempra ehf.

2022

Tempra ehf. er leiðandi á íslenskum markaði í framleiðslu á umbúðum fyrir ferskfiskútflutning og EPS-einangrun fyrir byggingariðnað. Tempra hefur mikla reynslu af ráðgjöf til viðskiptavina vegna umbúða og húsaeinangrunar, sem og yfirgripsmikla þekkingu á mismunandi aðgerðum og þörfum við lausn ýmissa verkefna. Að jafnaði eru um 27 starfsmenn hjá Tempru. Framkvæmdastjóri er Magnús Bollason.

Starfsemin
Framleiðsla Tempru skiptist í tvær megin framleiðslulínur; umbúðaframleiðslu og einangrun fyrir byggingar. Í umbúðahluta er framleitt allan sólarhringinn að lágmarki fimm daga vikunnar. Tempra hefur verið leiðandi í sjálfvirknivæðingu og í vinnslusal fyrirtækisins eru 10 umbúðavélar með mikilli sjálfvirkni sem nýta 10 þjarka til aðstoðar starfsmönnum við áprentun og stöflun.
Í húsaeinangrunarhluta Tempru er eitt stórt blokkarmót sem framleiðir þriggja metra háa frauðplastkubba. Kubbarnir, sem eru í heildina 3,6 fermetrar, eru skornir með sjálfvirkri skurðarvél niður í einangrunarplötur í ýmsar stærðir fyrir mismunandi notkun í húsbyggingum. Að auki getur skurðarvélin skorið frauðplast í fjölbreytt mynstur, t.d. leikmyndir fyrir sýningar eða flókin form fyrir arkitekta.
Verksmiðjuhúsnæði Tempru ehf. í Hafnarfirði er um 3.500 fermetrar að stærð. Þar af er lagerrými um 1.500 fermetrar.

Vörurnar og umhverfið
Umbúðir úr EPS-efni eru ákaflega léttar miðað við rúmmál og þá þyngd sem þeim er ætlað að bera. Þær einangra vel og halda kjörhitastigi vöru margfalt lengur en t.d. pappaumbúðir og bylgjuplastumbúðir. Auk þess eru þær vatnsþolnar og hvítur litur þeirra hrindir frá sér varmageislun sem annars gæti hitað innihaldið. EPS-umbúdir eru auk þess sterkar miðað við þyngd sem er mikilvægt þegar flytja þarf vöru með flugi. EPS-umbúðir eru viðurkenndar til notkunar undir hvers kyns matvæli og standast kröfur nútímans. Flestar umbúðir frá Tempru bjóðast áprentaðar, t.d. með vörumerki viðskiptavina eða erlendra viðskiptavina.
EPS er 98% loft og einungis 2% plast, samansett úr mörgum örsmáum sellum. Við framleiðslu á einangrunarplasti er hvorki notað freon né önnur skaðleg efni sem valda gróðurhúsaáhrifum. EPS er 100% endurvinnanlegt, ertir ekki húð við snertingu og ekki er krafist sérstaks útbúnaðar þegar unnið er með það. Tækin sem notuð eru við framleiðsluna skila hámarksnýtingu á hráefninu, lítið fellur til við framleiðsluna enda er einvörðungu notast við vatn, gufu og loft. Umbúðir frá Tempru og einangrun úr EPS-efni menga ekki grunnvatn við notkun, framleiðslu eða eyðingu.
Hvort sem halda þarf fiski köldum eða húsum heitum þurfa viðskiptavinir að geta reitt sig á hágæðavöru og úrvalsþjónustu. Því hefur Tempra ehf. alla tíð lagt ríka áherslu á nýsköpun í þróun umbúða og einangrunar í samstarfi við viðskiptavini fyrirtækisins, háskóla og rannsóknarstofnanir. Allar umbúðir eru matvælavottaðar og öll framleiðsla húsaeinangrunar er CE-vottuð og framleidd samkvæmt viðeigandi Evrópustöðlum.

Langstærsta frauðplastverksmiðja landsins
Tempra ehf. varð til við sameiningu fyrirtækjanna Húsaplasts ehf. í Kópavogi og Stjörnusteins ehf. í Hafnarfirði árið 2000. Tempra varð við samrunann langstærsta frauðplastverksmiðja landsins og hefur fyrirtækið á þeim 20 árum sem síðan eru liðin byggst enn frekar upp, bæði hvað varðar húsakost, tæknibúnað, vöruþróun og sjálfvirknivæðingu.
Við sameininguna voru um það bil tveir þriðju hlutar veltu fyrirtækisins í húsaeinangrun en nú 11 árum síðar eru rúmir tveir þriðjungar af veltu fyrirtækisins í umbúðum. Þessi mikli vöxtur á undanförnum árum byggir fyrst og fremst á sífellt stækkandi mörkuðum, sérstaklega í laxeldi og mikilli aukningu í ferskfiskútflutningi. Vélakostur hefur aukist jafnt og þétt með tilheyrandi aukningu en frá árinu 2005 hefur framleiðsla í tonnum þrefaldast.
Eignarhald Tempru breyttist árið 2007 þegar það varð hluti Promens samstæðunnar en árið 2015 varð það hluti RPC-Group, stærsta plastvöruframleiðanda í Evrópu. Sú samstæða sameinaðist árið 2019 bandaríska fyrirtækinu Berry Global. Verksmiðja Tempru er því í dag meðal 300 verksmiðja Berry út um allan heim.

 

Löng og farsæl saga í iðnaði
Tempra ehf. byggir á farsælli iðnaðarsögu forvera sinna, fyrirtækjanna Húsaplasts ehf. og Stjörnusteins ehf., sem nær allt aftur á miðja síðustu öld.

Húsaplast
Fyrirtækið Húsaplast ehf. var stofnað árið 1988 af Hannesi Eyvindssyni, Árna Eyvindssyni og Júlíusi Guðmundssyni með kaupum á fjölskyldufyrirtæki föður og föðurbræðra þeirra Hannesar og Árna, Vibró ehf. sem stofnað var árið 1957. Víbró ehf. hóf á sínum tíma framleiðslu EPSplasts til húsaeinangrunar sem var bylting frá eldra húsaeinangrunarefni hér á landi sem hafði aðallega verið korkur. Á næstu áratugum hófu fleiri fyrirtæki svipaða framleiðslu víða um land og urðu þau 18 talsins þegar mest var á tímabilinu 1970-1984. Eftir það tók að halla verulega undan fæti, fyrst og fremst vegna óvæginnar samkeppni frá hinni ríkisreknu Steinullarverksmiðju á Sauðárkróki. Árið 1988 ákváðu Vibró bræður að selja verksmiðjuna til sona annars þeirra, Árna og Hannesar Eyvindssonar og Júlíusar
Guðmundssonar, starfsmanns Vibró. Við kaupin var félagið Húsaplast ehf. stofnað. Til að halda velli í samkeppninni við Steinullarverksmiðjuna tók við tími fyrirtækjakaupa og á árunum 1991-1999 keypti Húsaplast ehf. nokkrar aðrar plastverksmiðjur, t.d. Fjarðarplast ehf., Skagaplast ehf., Varmaplast ehf. og Ísplast ehf. Þetta voru nauðsynlegar aðgerðir til að standast samkeppni við Steinullarverksmiðjuna.

Stjörnusteinn
Fyrirtækið Stjörnusteinn sf. var stofnað árið 1984 af þeim Sigvalda H. Péturssyni og Kristni Halldórssyni. Fyrirtækið framleiddi umbúðir fyrir laxeldisafurðir en laxeldi gekk þó ekki vel á þessum tíma og var ekki hagkvæmt af ýmsum ástæðum. Fyrstu árin gekk rekstur Stjörnusteins því erfiðlega, m.a. vegna áfalla í laxeldisgreininni og var ákveðið að breyta félaginu í hlutafélag þar sem skuldum var breytt í hlutafé. Að rekstri Stjörnusteins voru fengnir áhættufjárfestar, m.a. fyrirtækin O. Johnson & Kaaber, Hekla, Skeljungur og
Frumkvæði, sem var áhættufjárfestir á vegum Félags íslenska iðnrekenda. Fyrstu árin áttu stofnendur fyrirtækisins vart til hnífs og skeiðar þar sem öll orka og fjármagn fór í að greiða fyrir rekstri félagsins. Frauðplastkassar fyrirtækisins voru þróaðir til flutnings á fleiri afurðategundum, t.d. söltuðum fiski og ferskum fiski með flugi. Upp úr 1995 fór síðan að ganga betur og ári síðar var í fyrsta sinn greiddur arður til eigenda. Síðan lá leiðin jafnt og þétt upp á við.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd