Tengir – framúrskarandi fjarskiptasamband og framtíðin er ljós!
Fjarskiptafélag í eigu Akureyringa
Tengir hf. er fjarskiptafyrirtæki sem stofnað var á Akureyri árið 2002 með það að markmiði að byggja upp ljósleiðaranet á Eyjafjarðarsvæðinu. Frá árinu 2010 hefur félagið verið í eigu tveggja hluthafa, G&B ehf. og Norðurorku hf. og er því alfarið í eigu heimamanna. Framkvæmdastjóri Tengis, Gunnar Björn Þórhallsson, hefur gegnt því starfi frá upphafi.
Sérstaða og styrkur Tengis er meðal annars fólgin í þeirri miklu reynslu og þekkingu sem starfsmenn hafa á hönnun, lagningu og rekstri fjarskipta- og hugbúnaðarkerfa. Markmið félagsins er að öllum íbúum á starfssvæði Tengis muni standa til boða að nýta sér framúrskarandi fjarskipti um ljósleiðaranet í eigu heimamanna, sem rekið er af heimamönnum. Stjórn: Frans Árnason, stjórnarformaður, Gunnar Björn, varaformaður,
Helgi Jóhannesson, ritari og Ari Fossdal, varamaður.
Uppbygging ljósleiðaranets Tengis
Í upphafi lagði Tengir ljósleiðarastreng um Akureyri fyrir stórnotendur í símstöðvar bæjarins og gátu fjarskiptafélög þá tengst við nýjan ljósleiðarastreng sem lagður hafði verið milli Akureyrar og Reykjavíkur yfir Sprengisand. Jók þetta verulega gagnaflutningsgetu inn á svæðið auk þess að samkeppni skapaðist milli fjarskiptafélaga um stór fjarskiptasambönd.
Á upphafsárunum setti Tengir upp VDSL búnað og notaði fyrirliggjandi koparlínukerfi til að bjóða viðskiptavinum upp á mun afkastameiri þjónustutengingar en áður hafði þekkst, tenging sem síðan hefur verið nefnd ljósnet. Þá var einnig lagður ljósleiðari og settur upp ADSL búnaður fyrir smærri þéttbýlisstaði á svæðinu, þar sem sítengdar netþjónustur höfðu ekki verið í boði um koparkerfi. Því má segja að Tengir hafi frá upphafi stuðlað að stórbættri þjónustu á starfssvæðinu, sem er í dag mun víðtækara en upphafleg markmið gerðu fyrirætlanir um.
Tengir hefur byggt ljósleiðaranet sitt upp jafnt og þétt en fyrstu árin var áhersla lögð á að leggja ljósleiðara þar sem þörf var mest fyrir mikla flutningsgetu, s.s. í stofnanir ríkis- og sveitarfélaga, skóla og sjúkrahús. Þannig var markvisst unnið að undirbúningi framtíðar fjarskiptanets sem í dag nær um stóran hluta Norðausturlands, frá Siglufirði í vestri til Blikalóns á Melrakkasléttu í austri og inn til Svartárkots í Bárðardal.
Í lok árs 2019 stóð nánast öllum íbúum með fasta búsetu í dreifbýli og smærri þéttbýliskjörnum á starfsvæði Tengis til boða að tengjast við ljósleiðaranetið. Þeim árangri er meðal annars að þakka góðu samstarfi við sveitarfélögin sem og átaksins Íslands ljóstengt.
Ljósleiðaranetið, högun og þjónusta
Ljósleiðaranet Tengis er byggt upp með s.k. Point-To-Point (P2P) högun, þar sem hver ljósleiðaraþráður nær alla leið frá tengistöð Tengis og inn í fasteign viðskiptavinar. Með þessum hætti hefur hver notandi eigin þráð og hægt er að breyta þjónustuþörf og stækka sambandið eins og hentar hverjum og einum. Er þetta talin framtíðarheldnasta ljósleiðarauppbyggingin hvað varðar búnað, flutningsgetu og rekstraröryggi. Lengd ljósleiðarastrengja í dreifbýli á Íslandi er á mörgum svæðum veruleg, en slíkt er ekki takmarkandi þáttur í P2P högun.
Tengir hefur frá upphafi kappkostað að veita viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu og samkeppnishæft verð. Annars vegar er um að ræða heimilisnotendur sem leigja aðgang að ljósleiðaranetinu í staðin fyrir koparkerfi og kaupa internet-, sjónvarps- og heimasímaþjónustu um ljósleiðarann af þjónustuveitum. Hins vegar leigja flestar þjónustuveitur landsins heildsöluaðgang að ljósleiðaraneti Tengis og bjóða um það þjónustur sínar, annað hvort um virkan netbúnað Tengis eða um búnað sem Míla ehf. rekur um ljósleiðaranet Tengis með eigin endabúnaði. Þá býður Tengir einnig upp á ýmsar fjarskiptalausnir fyrir stórnotendur, svosem staðar- og víðnet fyrir sveitarfélög til að sinna eftirliti og stýringum á ýmsum veitu- og fráveitukerfum. Í upphafi árs 2019 voru viðskiptavinir Tengis rúmlega 6.000, þar af um 4.500 á Akureyri. Er það fyrir utan tengingar í símstöðvar og fjarskiptahús fyrir útsendingar ljósvakamiðla, GSM fjarskiptakerfi og stofnsambönd sem fjarskiptafélögin og Tengir eru með til eigin nota. Frá árinu 2017 hefur Tengir náð að bæta um 1000 nýjum viðskiptavinum á ljósleiðaranetið árlega og er markmið félagsins að bæta 500-1000 nýjum viðskipavinum við ljósleiðaranetið árlega, þar til öllum íbúum starfsvæðisins mun standa til boða að tengjast.
Tækjabúnaður af bestu gerð
Véla- og tækjabúnaður Tengis er mjög sérhæfður og hefur félagið yfir að ráða tækjabúnaði af bestu gerð á öllum stigum framkvæmda. Þar er um að ræða stórvirkar vinnuvélar, sérhannaðar til að leggja ljósleiðara í jörðu með sem minnstu raski, minni jarðvegsplóga á beltum og handplóga. Þá hefur Tengir yfir að búa bestu fáanlegu suðu- og mælitækjum fyrir ljósleiðara sem og net- og tölvubúnaði til að keyra virka búnað ljósleiðaranetsins. Efni til uppbyggingar og reksturs ljósleiðaranets flytur Tengir að mestu sjálft inn til landsins og hefur félagið myndað sterk viðskiptasambönd um allan heim, lengst af við fyrirtæki í Bandaríkjunum, Kína og á Indlandi.
Rekstur
Velta félagsins árið 2019 var tæplega 500 m.kr. og hefur það verið rekið með hagnaði flest ár frá upphafi. Eigendur Tengis hafa ekki greitt sér arð þrátt fyrir góða rekstrarstöðu, þar sem allt mögulegt fjármagn er nýtt til uppbyggingar ljósleiðaranetins. Tengir hefur verið í hópi Framúrskarandi fyrirtækja á Íslandi frá árinu 2015.
Aðsetur og mannauður
Aðsetur Tengis er að finna að Fjölnisgötu 6c á Akureyri og deilir félagið starfsaðstöðu sinni með Netkerfi og tölvur ehf., sem er helsti verktaki Tengis er kemur að lagningu og rekstri ljósleiðaranetsins. Starfsmenn Tengis eru 12 talsins en það sem helst einkennir sterka liðsheild starfsmanna er breiður bakgrunnur, fjölbreytt menntun og mikil reynsla á sviði fjarskiptalagna og reksturs fjarskiptakerfa. Tengir og Netkerfi og tölvur eru með sameiginlegt öflugt starfsmannafélag sem skipuleggur reglulega ferðir og fjölbreytta samveru fyrir starfsmenn og fjölskyldur þeirra. www.tengir.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd