Terra umhverfisþjónusta hf., áður Gámaþjónustan hf., hefur starfað við söfnun úrgangs- og endurvinnsluefna frá árinu 1984. Terra vinnur með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum með áherslu á að koma öllum þeim efnum sem til falla í viðeigandi farveg og sem flestum efnum, aftur inn í hringrásarhagkerfið. Terra rekur meðal annars jarðgerðarbúnað til endurnýtingar á lífrænum úrgangi og framleiðir vottaða og vandaða moltu sem hefur verið notuð í garðrækt og landgræðslu.
Starfsemin
Hið nýja nafn, Terra, á að lýsa ábyrgri umhverfisþjónustu um allt land og vísar í latneskt heiti jarðargyðjunnar, en allt starf fyrirtækisins snýr að bættri umgengni við jörðina. Merki Terra byggir á hringformi sem vísar til jarðarinnar og hringrásarhagkerfisins.
Terra leggur ríka áherslu á að auðvelda Íslendingum að skilja ekkert eftir; endurnýta, flokka og meðhöndla endurvinnsluefni og annan úrgang með ábyrgum hætti. Að skilja ekkert eftir er þýðing á „Zero Waste“ sem er alþjóðlegt átak um að bæta umgengni við jörðina með því að draga úr mengun og minnka sóun. Terra hefur einsett sér að aðstoða fyrirtæki og heimili í þessum efnum, hvetja til minni notkunar á umbúðum og einfalda flokkun. Í þeim tilgangi hefur verið fjárfest í ýmiskonar tæknibúnaði, mannviti og stafrænum lausnum til þess að gera allt slíkt starf einfaldara og skilvirkara.
Terra er með þjónustu um allt land og með starfsstöðvar á 10 stöðum. Félagið býður upp á sorphirðu, söfnun og flokkun endurvinnsluefna, gámaleigu, leigu og sölu á húsaeiningum, meðhöndlun og frágangi á spilliefnum og margt fleira.
Vottun
Árið 2013 hlaut Terra ISO 14001 vottun á umhverfisstjórnunarkerfi sínu og 2018 hlaut Terra ISO 9001 gæðavottun. Vottanir þessar eru ánægjuleg staðfesting þess að fyrirtækinu hefur tekist að fylgja eftir umhverfis- og gæðamarkmiðum sínum. Haustið 2020 var Terra valið Umhverfisfyrirtæki ársins af Samtökum atvinnulífsins.
Umhverfisáhrif
Terra vinnur markvisst að því að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar og viðskiptavina og vera í fararbroddi í meðhöndlun úrgangs á landsvísu. Fyrirtækið einsetur sér að kynna viðskiptavinum og starfsmönnum fyrirtækisins gildi endurvinnslu og endurnýtingar, leitast við að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar og draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið, með reglulegum mælingum á þýðingarmiklum umhverfisþáttum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd