Þ.B. Borg

2022

Þorbergur Bæringsson stofnaði trésmiðju sína í Stykkishólmi árið 1999. Hann fæddist í Bjarnarhöfn í Helgafellssveit, en flutti til Stykkishólms og sleit barnsskónum í húsi sem nefnist Borg. Þegar hann var á unglingsaldri var hann eindregið hvattur til þess af móður sinni að læra trésmíði. Hann hafði á þeim tíma engan sérstakan hug á því að helga sig smíðum. Hann hafði meiri áhuga á því að fara til sjós, en það reyndi þó aldrei á það. Móðir hans kallaði hann til sín einn daginn og tilkynnti honum að hann hefði fengið vinnu við smíðar og ætti að mæta til starfa þann sama dag. Pilturinn var hlýðinn móður sinni og mætti til vinnu. Þannig hófst smíðanám hans, meistari hans var Kristján Gíslason, gríðalega góður og hagur smiður. Þorbergur hefur starfað óslitið við smíðar síðan.
Nokkru síðar stofnuði Kristján og synir hans, Gunnlaugur og Hörður, Ösp trésmiðju, buðu þeir þeim smiðum sem unnu hjá þeim að vera stofnfélagar. Stofnfélagar voru þeir Björgvin, Þorbergur, Þórður og Hallfreður, síðan bættust fleiri starfsmenn og nemar við hjá þeim. Í Öspinni voru framleidd einingarhús, sem seld voru víða um land. Þorbergur var verkstjóri í Öspinni til fjölda ára, 30-50 smiðir unnu þar til margra ára og unnu þeir víða um land við nýbyggingar og fleiri störf, það var því mikið að gera. Auk þess innréttuðu þeir fjölmargar skólabyggingar m.a. Laugagerðisskóla. Að lokum hætti Öspin starfsemi en áfram hélt Þorbergur smíðavinnu.

Sagan
Árið 1999 kom að því að Þorbergur stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Þ.B. Borg ehf. Fyrstu árin var hann eini starfsmaðurinn og rak að auki steypustöð til nokkurra ára, með smíðavinnunni.
Synir hans Páll og Sæþór unnu með honum þegar þeir áttu frí frá annarri vinnu.
Þorbergur byggði 100 fm iðnaðarhúsnæði við Nesveg 16, Páll Vignir sonur Þorbergs hætti til sjós þar sem hann hafði unnið í 20 ár og hóf nám í húsasmíðum, hjá pabba sínum og kláraði námið og húsasmíða meistara, og starfar hann í dag hjá Þ.B. Borg ehf með pabba sínum.
Þegar fram liðu stundir var þörf á fleiri starfsmönnum, en þröngt var orðið um starfsemina að Nesvegi 16. En til þess að hægt væri að auka starfssemina, keyptu þeir feðgar 600 fm húsnæði árið 2022 við Nesveg 2. Var það mikil breyting þegar starfsmenn voru orðnir 12.
Fyrirtækið er í raun dæmigert verktakafyrirtæki sem tekur að sér alla þætti húsbygginga.

Starfsemin
Þ.B. Borg þjónustar einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir með flest sem snýr að smíði og byggingum en stefnir að fastri framleiðslu í auknum mæli. Þorbergur og félagar taka að sér jafnt viðhaldsverkefni sem nýbyggingar. Eitt af þeim verkum sem Þorbergur er hvað stoltastur af er þegar barnaheimili kaþólsku kirkjunnar var breytt í Hótel Franciskus. Þótti takast einstaklega vel til með það verk. Einnig má nefna þegar allt var tekið í gegn í Fosshóteli ásamt félagsheimili Stykkishólms sem ætíð hefur verið þar staðsett. Þ.B. Borg er með fasta þjónustusamninga við ýmis önnur fyrirtæki og stofnanir. Meðal annars umsjón með fasteignum ríkisins í grenndinni. Í þessari grein á svæðinu ríkir samkeppni eins og annars staðar en Þorbergur leggur áherslu á að vandað sé til verka í hvívetna. Þorbergur stofnaði ásamt dóttur sinni Borg fjárfestingafélag ehf. sem keyptu fjögurra íbúða raðhús á Garðaflöt í Stykkishólmi og seldust allar þær íbúðir.

Mannauður
Í heildina eru 12 fastir starfsmenn hjá fyrirtækinu og að sögn Þorbergs eru næg verkefni framundan og jafnvel þörf á meiri mannskap ef vel á að vera, enda er margt í bígerð hjá fyrirtækinu. Gríðarlega góðir starfsmenn vinna hjá Þ.B. Borg ehf. og þeir telja ekki eftir sér að vinna líka utan bæjarins, þar sem þörf er á smiðum. Menntunarstigið er mjög hátt hjá starfsmönnunum. Rétt er að geta þess að Þorbergur var einnig slökkviliðsstjóri í Stykkishólmi í 30 ár, það var því oft mikið að gera.

Húsin í Hólminum
Þeir sem heimsækja Stykkishólm hafa tekið eftir því hvernig gömlu húsin hafa verið tekin
í gegn og nánast endurbyggð til að öðlast upprunalega mynd sína. Þau þykja afar falleg
á að líta og hefur Þorbergur, ásamt fleirum, komið að þeirri uppbyggingu og haft af því ómælt gaman. Eins og mörgum smiðum þá þykir Þorbergi skemmtilegast að vinna með timbur s.br. gömlu timburhúsin í Hólminum.

COVID-19
Ekki beið fyrirtækið neinn skaða í COVID-19 faraldrinum að öðru leyti en því að flestir starfsmennirnir fengu COVID og voru frá vinnu í fáeina daga án þess að finna til mikilla eða alvarlegra veikinda. Menn hristu þetta af sér eins og hverja aðra umgangspest og mættu svo hressir til vinnu.

Framtíðarsýn
Eins og áður hefur komið fram stefnir Þ.B. Borg að því að fara meira út í fasta framleiðslu og
stendur sú þróunarvinna yfir þessi dægrin. Þorbergur er bjartsýnn á möguleika framtíðarinnar
því það vantar ávallt húsnæði.

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd