ÞH blikk ehf

2022

ÞH Blikk ehf. var stofnað í maí 1991 á Selfossi og á því 30 ára afmæli í ár. Eigendur eru hjónin Þröstur Hafsteinsson blikksmíðameistari og Hrafnhildur Karlsdóttur teymisstjóri í skóla- og velferðarþjónustu, en þau hafa verið eigendur og stjórnendur frá upphafi.

Vinnulag og framleiðsluferli
ÞH Blikk annast alla almenna blikksmíðavinnu. Helstu verkefni snúa að smíði, uppsetningu og þjónustu á loftræstikerfum. Stór hluti framleiðslunnar eru utanhússklæðningar, jafnt fyrir einstaklinga sem og stærri fyrirtæki. Einnig annast fyrirtækið einangrun og klæðningu hitaveitulagna, smíði og uppsetningu á innréttingum og háfum í stóreldhús, áfellur, rennur og niðurföll. Fyrirtækið sinnir einnig loftmagnsstillingum og er leitast við að nýta ávallt nýjustu tækni sem völ er á til að fá sem besta virkni í loftræstikerfum, m.t.t. að viðhalda góðum loftgæðum. Mikil aukning hefur orðið í loftræstikerfum í íbúðarhúsum, enda er meðvitund um góð loftgæði orðin meiri en áður. Aðeins er unnið með gæðavörur frá viðurkenndum framleiðendum. Blikksmíði á rætur í gömlu handverki og þekkingu á eiginleikum málma. Greinin hefur þróast í gegnum tíðina og byggir vinnan enn á vönduðu handverki en einnig á nútíma tækninýjungum í greininni. Vélbúnaður í ÞH Blikk telur m.a tölvustýrða plasmaskurðarvél, tölvustýrða beygjuvél og tölvustýrðan fjöllokk svo eitthvað sé nefnt. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru að mestu leyti á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnin hafa verið mörg og fjölbreytt undanfarin ár. Þar má nefna byggingar leik- og grunnskóla, stækkun íþróttamannvirkja, byggingar fjölbýlishúsa og stórt verkefni í nýjum miðbæ Selfoss, en þar er gerð krafa um að byggingarnar uppfylli kröfur Svansvottunar.  

Skipulag og sérstaða
Í ÞH Blikk er kappkostað að finna bestu leiðir til þess að koma til móts við viðskipatavini í öllum verkefnum. Starfsmenn eru virkjaðir til sjálfstæðis og skipulagðra vinnubragða. Sérstaða fyrirtækisins er fagmennska og vandvirkni í öllum verkferlum. Fyrirtækið hefur borið gæfu til að hafa góða og trygga viðskiptavini sem hafa fylgt fyrirtækinu um áraraðir.

Aðsetur
ÞH Blikk er í eigin húsnæði að Gagnheiði 37 Selfossi, 470m² sem telur 2 vinnslusali, kaffistofu, og skrifstofu ásamt nýju 215 fm lagerhúsnæði að Gagnheiði 17 sem nýlega hefur verið tekið í notkun.

Mannauður, starfsmannavelta og framtíðarsýn
Hjá ÞH Blikk starfa nú 12 starfsmenn, blikksmíðameistari, blikksmiðir, blikksmíðanemar, stálsmiður, vélstjóri, skrifstofustjóri og almennir starfsmenn. Þetta er öflugur og samheldinn hópur starfsmanna með mikinn metnað og dugnað. Framúrskarandi nýsveinar hjá ÞH Blikk voru meðal þeirra sem fengu viðurkenningu frá Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur 3. febrúar 2018 en þeir náðu afburðaárangri á sveinsprófi í blikksmíði.

Framtíðin
Framtíðarsýn ÞH Blikk felst í að geta ávallt mætt nýjum áskorunum í takt við tækniþróun og ný verkefni. Fyrirtækið kappkostar að viðhalda metnaði sínum með því að veita viðskiptavinum sínum ávallt góða og trygga þjónustu. Lögð er áhersla á eftirsóknarvert og hvetjandi starfsumhverfi í takt við þróun blikksmíðagreinarinnar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd