Byggingavöruverslunin Þ. Þorgrímsson & Co. ehf. var stofnuð 26. júní 1942 af Þorgrími Þorgrímssyni stórkaupmanni (f.1924 – d. 2012) og hafði aðsetur í litlu leiguherbergi á 3ju hæð við Ægisgötu 7, 101 – Reykjavík.
Starfsemin
Fyrstu rekstrarárin voru mjög erfið vegna seinna stríðsins þar sem erlendur gjaldeyrir var af skornum skammti og allur innflutningur háður leyfum frá hinu opinbera. Þorgrímur greip tækifærin þegar aðrir gátu ekki leyst út vörur og fann kaupendur fyrir vörurnar og seldi, vöruúrvalið var þar af leiðandi mjög fjölbreytt eða allt frá títuprjónum upp í vélskóflur og skipakrana sem voru seldir til margra bæjarfélaga um land allt.
Þegar komið var fram á sjötta áratuginn þá var reksturinn orðinn nokkuð vel mótaður hvað varðaði sölu og innflutningsstefnu fyrirtækisins, en áherslan var lögð á byggingavörur, s.s. kork, húsa- einangrunarplötur frá Armstrong fyrirtækinu sem voru með verksmiðjur bæði í Bandaríkjunum og Suður-Evrópu. Þetta var lengi vel aðal söluvara fyrirtækisins þar til Þorgrímur setti upp sína eigin verksmiðjuframleiðslu á Polistyrene einangrun (VARMA plast 1957-1985) sem er enn þann dag í dag notað til húsaeinangrunar aðallega í grunna og gólf.
Árið 1963 hóf fyrirtækið innflutning á Morris bifreiðum frá Bretlandi og einnig MG sportbifreiðum sem voru aðallega seldar til bandarískra hermanna í herstöðinni í Keflavík, en þeir tóku bílana með sér heim til Bandaríkjanna þegar herþjónustu lauk á Miðnesheiði, en við seldum yfir 200 sportbíla til ársins 1972. Vöruframboð hjá ÞÞ&CO hefur þróast og breyst eftir því sem árin hafa liðið, en áherslan er enn í dag allskyns byggingaplötur utan- sem innanhúss, sem og lofta-, gólf-, og innréttingaefni fyrir allar tegundir húsbygginga. Einangrunarefni bæði fyrir hljóð, hita og kulda, skipa enn mikilvægan sess í vöruúrvalinu en það hefur verið ein af sérgreinum fyrirtækisins um margra áratuga skeið.
Byggingavöruverslunin Þ. Þorgrímsson & Co. ehf. hefur í áranna rás stækkað og þróast og leggur nú áherslu á meiri sérhæfingu með það fyrir augum að leysa vandamál og bjóða þar með upp á byggingarefni sem eiga að leysa ákveðin vandamál vegna einangrunar hljóðs og bruna, þ.e.a.s. vörur með sérstaka eiginleika. Wicanders kork gólfefni frá Amorim í Portúgal kannast margir við og hefur Þ. Þorgímsson & CO selt þetta einstaka náttúrlega gólfefni síðan 1957.
Húsakostur
Árið 1962 þegar ÞÞ&CO átti 20 ára afmæli byggði Þorgrímur verslunar-, skrifstofu- og lagerhúsnæði að Suðurlandsbraut 6 sem átti að hýsa starfsemi fyrirtækisins til framtíðar, en fyrirtækinu óx fiskur um hrygg og 1973 flutti fyrirtækið í nýtt húsnæði að Ármúla 16, þar sem Varma Plast einangrunarverksmiðjan og byggingavöruverslunin voru sameinaðar undir einu þaki. Árið 1984 keypti ÞÞ&CO byggingavöruverslun Páls Þorgeirssonar í sömu götu í þeim tilgangi að ná þar góðum viðskiptasamböndum sem hafa reynst mjög happadrjúg. En árið 1985 þurfti enn og aftur að stækka verslunina og lagerhúsnæðið og festi hann því kaup á 3.400 fm lóð við Ármúla 29, þar sem hann lét byggja nýja og stóra verslun ásamt rúmgóðum lagerum. Lagerar fyrirtækisins eru núna á þremur stöðum í Reykjavík, auk þess sem að fyrirtækið stendur nú fyrir byggingu á nýju lagerhúsnæði í Hafnarfirði sem á eftir að stórbæta aðstöðu fyrirtækisins og þá um leið þjónustuna við viðskiptavini.
Eigendur og stjórnendur
Árið 1988 fór Þorgrímur Þorgrímsson að draga sig smátt og smátt í hlé til þess að geta sinnt betur áralöngum áhugamálum sínum sem voru tónlist, menningarmál og tungumál, þar með lét hann daglegan rekstur í hendur Baldvins Elíassonar fjármálastjóra sem hóf störf hjá ÞÞ&CO árið 1973, og syni sínum Þorgrími Þorgrímssyni yngri og núverandi forstjóra og hefur fyrirtækið dafnað í þeirra höndum síðan. Þ. Þorgrímsson & Co. ehf. hefur ávallt verið í eigu fjölskyldu Þorgríms Þorgrímsson, og nú hefur 3ja kynslóð bæst í hópinn en það er Daníel Þ. Þorgrímsson sem annast markaðs- og sölumál hjá fyrirtækinu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd