Fyrirtækið Þekking hf. var stofnað þann 1. nóvember 1999 af KEA og Íslenska hugbúnaðar-sjóðnum, með aðsetur á Akureyri og á því 20 ára afmæli í ár. Fyrirtækið var stofnað upp úr tölvudeild KEA sem var sett á fót árið 1974. Þekking hf. á sér því langa sögu miðað við fyrirtæki á sviði upplýsingatækni.
Gífurlegar breytingar urðu í atvinnu- og viðskiptalífi landsmanna í kringum síðustu aldamót sem höfðu m.a. áhrif á rekstur Kaupfélags Eyfirðinga eins og mörg önnur fyrirtæki. Ráðist var í viðamikla fyrirtækjavæðingu einstakra deilda félagsins og má þar á meðal nefna sjávarútvegsfyrirtækið Snæfell, Sjöfn og Kaffibrennslu Akureyrar. Hluti af þessari þróun var stofnun Þekkingar hf. í samvinnu við Íslenska hugbúnaðarsjóðinn.
Frá þessum tíma hefur Þekking hf. eflst enn frekar og þann 1. maí 2001 sameinaðist fyrirtækið við Tristan ehf. sem var stofnað í ágúst 1996 og sérhæfði sig á sviði tölvuþjónustu og ráðgjafar. Fyrrum starfsemi Tristan myndaði kjarnann í því sem varð starfsstöð Þekkingar hf. á höfuðborgarsvæðinu með aðsetur í Kópavogi. Saman mynduðu félögin síðan eitt öflugt fyrirtæki með þjónustu um allt land á sviði kerfisveitu, hýsingar og rekstrarþjónustu undir nafninu Þekking hf.
Í dag er Þekking hf. í eigu KEA og eignarhaldsfélagsins Fjöru sem er í eigu nokkurra fjárfesta. Framkvæmdastjóri er Stefán Jóhannesson og í framkvæmdastjórn sitja auk Stefáns þeir Bjarni Áskelsson fjármálastjóri, Gunnar Ólafsson sviðsstjóri viðskiptaþróunar og Jón Ingi Björnsson sviðsstjóri rekstrar- og þjónustusviðs.
Vinnulag og framleiðsluferli
Þekking hf. hefur, og býður enn, fyrirtækjum upp á alhliða rekstrarþjónustu fyrir tölvukerfi, kerfisleigu, hýsingu, internetþjónustu og gagnaflutninga ásamt ráðgjöf og kennslu. Aftur á móti má nefna að miklar breytingar hafa orðið á upplýsingatækni á þeim árum sem Þekking hf. hefur starfað og hefur fyrirtækið þróast í samræmi við það. Samt sem áður hefur Þekking hf. ávallt haldið í sín grunngildi sem felast í því að fyrirtækið sé óháð, með skýrar áherslur og lipurð í þjónustu. Þekking hf. hefur til margra ára sinnt rekstrarþjónustu en hefur nú stóraukið sérfræðiráðgjöf með það til hliðsjónar að aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að taka upp og innleiða nýjar lausnir og vinnuaðferðir.
Undanfarin ár hefur landslag á upplýsingatæknimarkaði gjörbreyst, útvistun og sjálfvirkni-væðing hafa breytt starfsumhverfi hefðbundinna tölvudeilda. Með þessu breytta verklagi gefst tölvudeildum aukið rými til að sinna kjarnastarfssemi og eru stjórnendur í stórauknum mæli að sjá kosti þess að nýta starfsfólk sitt betur með skipulagðri nýtingu skilvirkari upplýsingatækni.
Skipulag og sérstaða
Þekking hf. á rætur sínar að rekja til Akureyrar og þar eru höfuðstöðvar fyrirtækisins auk þess sem það starfar á höfuðborgarsvæðinu. Viðskiptavinir Þekkingar eru um land allt og er mikið lagt upp úr persónulegri þjónustu.
Skipurit félagsins felst í því að undir framkvæmdastjóra falla eftirfarandi svið: fjármálasvið, viðskiptaþróun og rekstrar- og þjónustusvið. Meðal þess sem sviðin bera ábyrgð á eru upplýstingaöryggi, rekstur þjónustuvers, viðskiptastýring, vettvangsþjónusta, kerfisstjórn, stjórn og skipulag innviða og þjónustu og gæðastjórnun.
Sérstaða Þekkingar hf. hefur ávallt falist í því að fyrirtækið sé óháð birgjum og starfi sem óháður samstarfsaðili sinna viðskiptavina. Stefna Þekkingar hf. er byggð á þeirri trú og ekki síst reynslu, að það sé ekki alltaf rétta leiðin fyrir fyrirtæki og stofnanir að velja sér einn birgja eða fyrirtæki þegar kemur að upplýsingatækni. Farsælla sé að velja það besta frá hverjum framleiðanda fyrir sig og búa þar með til tækniumhverfi sem sé sérsniðið að þörfum hvers og eins. Þar kemur Þekking hf. inn í myndina sem sá óháði aðili sem aðstoðar við slíka uppbyggingu enda býr fyrirtækið yfir þéttofnu tengslaneti fyrirtækja í upplýsingatækni.
Framtíðarsýn
Þekking hf. hefur ákaflega skýra framtíðarsýn. Að vera fyrsti valkostur fyrirtækja og stofnana í rekstri upplýsingakerfa og þjónustu við þau. Það hafa opnast algjörlega nýjar leiðir til að láta tæknina vinna fyrir sig og Þekking hf. leggur ríka áherslu á ráðgjöf hvernig megi hámarka árangur með skynsamlegri notkun upplýsingatækni. Það er einnig trú fyrirtækisins að í flóknum heimi tækninnar sé farsælast að leita til óháðra sérfræðinga eins og Þekking hf. býr yfir, sérfræðinga sem geta kallað réttu aðilana og komið með bestu lausnirnar að borðinu, óháð birgjum og vörumerkjum, til að hámarka hagsmuni viðskiptavina. Þekking hf. mun sem alltaf tryggja hlutleysi þar sem einu hagsmunirnir eru árangur viðskiptavinarins.
Aðsetur
Höfuðstöðvar Þekkingar hf. eru við Hafnarstræti 93-95 á Akureyri þar sem starfa ríflega
20 manns auk þess sem tæplega 50 manns starfa hjá Þekkingu hf. í Urðarhvarfi 6 í Kópavogi. Starfsfólk Þekkingar hf. hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, hjá fyrirtækinu er m.a. að finna tölvunarfræðinga, viðskiptafræðinga, kvikmyndagerðarfólk, stjórnmálafræðinga, kerfisstjóra og mætti svo lengi telja. Þekking hf. leggur áherslu á þá fjölbreytni og frjóu hugsun sem kemur með fjölbreyttum bakgrunni starfsfólks.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd