THG arkitektar ehf.

2022

Starfsemi THG Arkitekta ehf. hefur frá upphafi snúist um heildarhönnun bygginga, að utan sem innan, ásamt áætlanagerð varðandi þróun umhverfis- og deiliskipulaga fyrir einstaklinga og sveitarfélög. Á undanförnum áratugum hefur stofan jafnframt, haslað sér völl sem framsækinn brautryðjandi í verkefna- og byggingastjórnunun auk eftirlits með framkvæmdum. Helstu viðfangsefni stofunnar hafa verið og eru enn, m.a. hönnun iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæðis, hótelbygginga, fjölbýlishúsa, öldrunarstofnana, skóla og íþróttamannvirkja auk endurbyggingar og útlitsbreytinga á eldra húsnæði ásamt þátttöku í umhverfismati. Hluti verkefna hefur verið sóttur út fyrir landsteinana, þótt minna hafi farið fyrir því hin síðari ár, en enn er oft á tíðum náið samstarf við ýmsar erlendar arkitektastofur. Eitt mikilvægasta metnaðarmál fyrirtækisins er að uppfylla óskir og þarfir viðskiptavina á faglegan og hagkvæman hátt. THG Arktektar eru staðsettir í Faxafeni 9 í Reykjavík og starfsmannafjöldi fyrirtækisins telur um 26 manns. Þar er um að ræða sterkan kjarna vel menntaðs fagfólks sem býr að fjölþættri reynslu og þekkingu, hérlendis og erlendis, sem hefur í mörgum tilvikum unnið lengi saman. Mikil áhersla er lögð á að hvetja hvern og einn til sífelldrar virkni hugvits og sköpunkrafts í þágu góðra verka með fagmannlegu handbragði.

Sagan
Skammstöfun THG Arkitekta stendur fyrir Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar og er hún kennd við stofnanda og núverandi framkvæmdastjóra fyrirtæksins. Eftir útskrift frá Kunstakademiets Arktektskole í Kaupmannahöfn árið 1976 hóf hann störf hjá Gísla Halldórssyni í Teiknistofunni Ármúla 6 og gerðist meðeigandi þar árið 1980. Starfsemi THG Arkitekta hófst síðan opinberlega árið 1994 að undirlagi Halldórs ásamt þremur öðrum fyrrum starfsmönnum Teiknistofunnar Ármúla. Í dag er eignarhald stofunnar dreift á sjö eigendur; Halldór Guðmundsson, Odd Kristján Finnbjarnarson, Ragnar Auðunn Birgisson, Samúel Guðmundsson, Frey Frostason, Elínbjörgu Gunnarsdóttur og Paolo Gianfrancesco.Árið 2015 fengu THG arkitektar ISO.9001 vottun á starfsemi sinni.

Umhverfisþættir og notagildi
Öldrunarmálin hafa löngum verið THG arkitektum hugleikin. Frá upphafi ferils síns hefur Halldór Guðmundsson sinnt þeim í nánu samstarfi við Sjómannadagsráð og kjölfarið hafa THG arkitektar komið að hönnun allflestra hjúkrunarheimila og -íbúða á landinu. Á þeim 26 árum frá því að stofan hóf starfsemi, hefur hún skilað af sér fjöldamörgum athyglisverðum byggingum og mannvirkjum sem eru órækur vitnisburður um hvernig umhverfisþættir og notagildi geta haldist hönd í hönd. Nærtæk dæmi um þetta má t.d. finna í mörgum helstu hótelbyggingum í Reykjavík, íbúðabyggingum á þéttingasvæðum og nýjum hverfum, flugtengdum byggingum, verslunarmiðstöðvum og stórverslunum. Þá hefur endurbygging fasteigna að utan sem innan leikið stórt hlutverk í starfsemi stofunnar og lausnir hennar ýtt undir ímyndarsköpun viðkomandi fyrirtækja. Í öllum verkferlum THG Arkitekta gengur hvert viðfangsefni í gegnum þrepaskipta greiningu og er markmiðið að tryggja hámarksgæði gagnvart verkkaupum. Allt frá upphafi hefur helsta metnaðarmál THG Arkitekta verið að stuðla að náinni samvinnu á milli kaupenda og seljenda þjónustunnar og uppfylla væntingar eins og best verður á kosið, með hagsmuni umhverfsins og verkkaupans að leiðarljósi.

Verkefnastjórnun og framkvæmdaeftirlit
Verkefnastjórnun, skv. skilgreiningu, snýst um að taka að sér yfirumsjón með tilteknum framkvæmdum fyrir hönd verkkaupa. Í verklýsingu eru tiltekin fyrirfram skilgreind markmið og áætlanir, t.d. varðandi kostnað, tímasetningar og gæðamál auk framkvæmdaeftirlits sem tryggir að verkefnið sé unnið í samræmi við gefnar forsendur. Fyrirkomulag verkefnastjórnunar af slíkum toga hefur sannað gildi sitt á síðustu árum en þar hafa THG Arkitektar verið öflugir brautryðjendur. Með því hefur stofan tvinnað saman fagþekkingu arkitekta, verkfræðinga og annarra tæknimanna við lausn verkefna frá grunnhugmynd til fullmótaðrar byggingar.

Umhverfisvæn þróunarverkefni
Á undanförnum árum hafa THG Arkitektar unnnið náið með ýmsum fasteignafélögum að margs konar þróunarverkefnum þar sem kannaðir eru byggingamöguleikar á óbyggðum lóðum, viðbyggingar og breytingamöguleikar á þegar byggðum fasteignum og oftar en ekki eru væntanlegir leigutakar þátttakendur í mótun lausnar verkefnisins. Þá hefur stofan tekið þátt í ýmsum hönnunarsamkeppnum með góðum árangri. THG Arkitektar hafa innan sinna vébanda BREEAM vottunaraðila, sem er alþjóðleg umhverfisvottun, sem gerir stofuna að löggiltum vottunaraðila fyrir umhverfisvænar byggingar. Sömuleiðis kom stofan að fyrstu Svansvottuðu endurbyggingu skrifstofuhúsnæðis á Norðurlöndunum í samvinnu við eiganda fasteignarinnar, leigjanda og aðra ráðgjafa.

BIM – Aðferðafræði framtíðarinnar
THG Arkitektar hafa í auknum mæli tileinkað sér BIM (Building Information Model) í stærri verkum. Metnaður fyrirtækisins liggur í að til framtíðar verði öll verkefni unnin þannig að þau gögn sem stofan skilar frá sér standist viðmið í BIM.
Allar nánari upplýsingar má nálgast inn á heimasíðunni: www.thg.is

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd