ÞG verk

2022

Starfsemi félagsins
ÞG verk er byggingafyrirtæki sem á sér langa og farsæla sögu. Félagið var stofnað árið 1998 af Þorvaldi H. Gissurarsyni sem er forstjóri og eigandi félagsins. Félagið er byggt upp á traustum grunni og hefur staðið af sér öll áföll í íslensku efnhagslífi sem og íslenskum byggingariðnaði. Markmið félagsins hefur ávallt verið að skila góðu verki til sinna viðskiptavina á íbúðamarkaði sem og útboðsmarkaði, að stunda traust og örugg viðskipti og uppfylla væntingar viðskiptavina sinna. Félagið hefur áunnið sér gott orðspor og er í dag eitt stærsta verktakafyrirtæki landsins í byggingu íbúðarhúsnæðis.

Starfsfólk og aðsetur
ÞG verk hefur alla tíð verið eftirsóttur vinnustaður enda lagt upp úr því að viðhalda góðum starfsanda og bjóða upp á gott og öruggt vinnuumhverfi. Hjá félaginu starfa að jafnaði um 160 starfsmenn auk fjölmargra undirverktaka.
Aðalskrifstofur félagsins eru við Lágmúla 7 í Reykjavík, en verkstaðir eru hins vegar fjölmargir og þar eru flestir starfsmenn félagsins staðsettir. Á hverjum verkstað eru staðarstjóri, tæknimenn og verkstjórar en yfirstjórn er staðsett í Lágmúlanum eins og áður segir.

Systurfélög
Systurfélög ÞG verks eru fjölmörg og má þar nefna Einingaverksmiðjuna ehf. Lövubetong í Færeyjum sem er stærsti sölu og dreifingaraðili sements í Færeyjum auk þess að reka steypu-stöð, kranaþjónustu og einingaverksmiðju. Þá má nefna Reykjastræti sem er öflugt leigufélag á atvinnuhúsamarkaði og að lokum eignarhaldsfélagið Arcus ásamt dótturfélögum.

Verkefnin
Rekstrarárið 2020 var farsælt hjá ÞG verk og systurfélögum. Eins og undanfarin ár skiptust verkefnin á milli útboðsverka og eigin verka sem er bygging fjölbýlis- og atvinnuhúsa til sölu eða útleigu. Helstu verkefni á árinu voru bygging fjölbýlishúsa í nýju hverfi í Reykjavík sem kallast Vogabyggð. Þar reisir félagið 380 íbúðir. Fyrsta áfanga þess var lokið á árinu 2020 og gert er ráð fyrir að verkefninu í heild verði lokið á árinu 2023. ÞG verk var með 37 íbúðir í byggingu við Maríugötu í Urriðaholti árið 2020 ásamt því að vera með í gangi undirbúning 70 íbúða við sömu götu. Í undirbúningi eru fjölmörg stór verkefni og má þar nefna 165 íbúðir við Sunnusmára, fjölbýlishús í Hafnarfirði, Akranesi og fleiri verkefni í Urriðaholtinu.
Haldið var áfram með að innrétta skrifstofur, lækna- og skurðstofur í stórhýsi við Urðarhvarf í Kópavogi auk frágangs á atvinnuhúsnæði við Dalveg 32 og á Hafnartorgi í Reykjavík.
ÞG verktakar voru með stór útboðsverk í gangi á árinu 2020 og má þar nefna byggingu glæsihótels fyrir Lindarvatn á Landsímareit við Austurvöll. Þá var í fullum gangi uppsteypa nýrra höfuðstöðva Landsbankans og undirbúningur fyrir brúargerð á Sólheimasandi.

Sérstaða og framtíðarsýn
Húsnæðis og byggingamarkaðurinn á Íslandi er sveiflukenndur en þar hefur félagið getað nýtt sér þá sérstöðu sína að vera bæði með eigin byggingarverk ásamt því að vera öflugir á útboðsmarkaði. Þannig hefur félaginu tekist að halda úti öflugri starfsemi hvernig sem árar og jafna út sveiflur sem einkenna byggingarmarkaðinn. Stjórnendur félagsins líta björtum augum til næstu ára því að líkur eru á því að þörfin fyrir íbúðarhúsnæði verði mikil á næstu árum auk þess sem talsverð gróska verður á útboðsmarkaði.

Stjórnendur
ÞG verk býr að því að innanborðs eru öflugir stjórnendur og starfsmenn. Rekstrar- og fjármálastjóri félagsins er Örn Tryggvi Johnsen, verkfræðingur og MBA. Yfirverkfræðingur er Birgir Karlsson, byggingaverkfræðingur. Innkaupastjórnun er í höndum Steingríms Björnssonar, viðskiptafræðings. Hrefna Þorvaldsdóttir, viðskiptafræðingur sér um sölu og markaðsmál. Agnar Sigurjónsson, byggingaverkfræðingur er yfir hönnunarstjórnun og verkefnastýringu í eigin verkum. Bergur Helgason verkfræðingur er gæða- og öryggisstjóri félagsins. Emma Valsdóttir er mannauðsstjóri félagsins og aðalbókari er Hugrún Ester Sigurðardóttir. Staðarstjórar eru þeir: Benedikt Karlsson, Óskar Gunnarsson, Hjörtur Freyr Jóhannsson, Skúli Sigvaldason, Pétur Jóhannsson og Gunnar Valur Gunnarsson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd