Þingvangur ehf. er öflugt byggingarfélag á Íslandi í eigu Pálmars Harðarsonar. Árin eftir hrun voru afar krefjandi fyrir allan byggingariðnaðinn og það þurfti frjóa hugsun. Pálmar fékk þá hugmynd að kaupa gamla Iðnskólann á Akureyri og breyta í hótel. Þessi áform gengu upp og úr varð glæsilegt Icelandairhótel sem markaði upphafið að vexti Þingvangs.
Mikil byggingarætt og athafnarmenn, Pálmar Harðarson
Pálmar Harðarson hefur unnið í byggingargeiranum nánast alla ævi. Hann kemur úr ætt mikilla bygginga- og athafnamanna sem hefur byggt yfir þúsundir íbúða og atvinnuhúsnæði á Íslandi. Hann byrjaði ungur að vinna í byggingageiranum með föður sínum, Herði Jónssyni, en auk hans hafa bæði afi hans og langafi reist fjölmörg hús á Íslandi. Þegar Pálmar ekur um landið getur hann bent á fjölmörg hús sem fjölskyldan hans hefur komið að. Að því sögðu verður farið yfir helstu byggingar sem fjölskyldan hefur komið að með einum eða öðrum hætti.
Fyrsta húsið, Kristján Kristjánsson
Fyrsta húsið sem vitað er um er húsið sem Kristján Kristjánsson (1844-1928) hreppstjóri í Stapadal byggði árið 1888. Húsið kom tilhöggvið frá Noregi ásamt gluggum, hurðum og gleri. Ein hæð og ris, með spón á þaki. Niðri var betri stofa, borðstofa, stórt eldhús, búr og forstofa. Geymsluskúr var með efri hlið með inngangi þar og salerni í endanum að sunnanverðu. Í risi voru þrjú svefnherbergi. Stigi lá úr eldhúsinu upp á loftið. Lofthæð niðri var 2,5m og hurðir 2m á hæð. Stofan var veggfóðruð, en dagstofa með brjóstpanel og spjöldum að neðan. Þetta mun hafa verið fyrsta timburhús sem byggt var á sveitabæ í Auðkúluhreppi (íbúðarhús úr steinsteypu var byggt skömmu fyrir 1930).
Mikið byggt út á landi, Páll Kristjánsson
Sonur Kristjáns, Páll Kristjánsson byggði mörg hús og flest þeirra á Ísafirði. Árið 1931 byggði hann m.a. bæjarskrifstofuna og Kaupfélag Ísfirðinga sem er hornhúsið við Hafnarstræti og Austurveg. Þá voru allmörg hús við Túngötu byggð af honum og ólst Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands upp í einu slíku húsi en það var á Túngötu 3. Á Reykjanesi í Ísafjarðadjúpi byggði Páll sundlaug ásamt tengibyggingu og Héraðskólann þar sem í dag er rekið hótel. Páll byggði nokkra grunnskóla á Suðurlandinu, einnig Félagsheimilið Hlégarð í Mosfellssveit og viðbyggingu við Laufásveg 21-23 sem ameríska sendiráðið lét byggja svo eitthvað sé nefnt. Eitt af síðari verkum Páls var þyrping einnar hæðar raðhúsa sem kölluðust „Sólbyrgi“ við Snekkjuvog sem hann byggði ásamt syni sínum, Gunnlaugi Pálssyni arkitekt. Húsin voru hin fyrstu sinnar gerðar í Reykjavík og birtist umfjöllun um þau í yfirlitsriti um norræna byggingarlist sem út kom á vegum Nordisk Byggedag í Helsinki árið 1955. Það allra síðasta sem Páll vann við voru innréttingar fyrir Dvalarheimilið Hrafnistu á Brúnavegi ásamt því að annast eftirliti á þeirri uppbyggingu.
Ný tækni í uppsteypu, Jón Pálsson
Jón Pálsson, sonur Páls Kristjánssonar, var umsvifamikill byggingameistari og athafnamaður. Fyrsta verk hans var Félagsheimilið í Bolungarvík árið 1952. Fjórum árum síðar stofnaði Jón fyrirtækið Stapa ehf. ásamt bróður sínum Gunnlaugi Pálssyni, báðir ættaðir frá Stapadal. Það ár, nánar tiltekið 13. ágúst 1956, var enn brotið blað í byggingarsögunni þegar Jón reisti blokkir í Gnoðarvogi með skriðmótum, í fyrsta sinn á Íslandi. Var þetta áður en byggingarkranar komu til sögunnar. Stapi ehf. var stofnað í þeim tilgangi að leigja skriðmótin til þeirra sem vildu notfæra sér þennan byggingarmáta. Talið var að með þessari nýju aðferð hafi byggingarkostnaður lækkað um 15%, en ótalin voru þau verðmæti sem urðu til vegna tímasparnaðar. Fjölmörg hús voru byggð með þessari aðferð, til dæmis var Háskólabíó byggt á þennan hátt og vann Jón sem smiður við það verk. Einnig ber að nefna sjötíu metra reykháf fiskimjölsverksmiðjunnar á Kletti í Laugarnesi sem einnig var byggður með skriðmótum. Jón var mjög athafnamikill og byggði fjöldan allan af einbýlishúsum, raðhúsum og fjölbýlishúsum.
Athafnamaðurinn Hörður Jónsson, sonur Jóns Pálssonar og faðir Pálmars Harðarsonar
Hörður Jónsson byrjaði sinn feril í byggingageiranum á því að byggja nokkur raðhús með bróður sínum, Kristjáni Jónssyni. Hann stofnaði síðar fyrirtækið ÁHÁ ásamt öðrum og var byggingafyrirtækið mjög umsvifamikið á sínum tíma. Félagið gerði hvað mest af því að byggja atvinnuhúsnæði, byggði t.d. Hótel Cabin sem er í Borgatúni 32, Origo áður Nýherjahúsið í Borgtúni 37 og skrifstofuhúsnæðið sem hýsir Samtök Atvinnulífsins í Borgartúni 35. Jafnframt byggði ÁHÁ Lágmúla 4 og Smáratorg ásamt Álþynnuverksmiðjunni Becromal sem heitir í dag TDK Foil Iceland á Krossanesi á Akureyri. Þá byggði Hörður nokkrar blokkir í Ugluhólum ásamt Sléttuvegi 15-17 sem í eru íbúðir fyrir 55 ára og eldri. Eitt af síðustu verkum Harðars var bygging 90 íbúða, 42 raðhúsa og fleira á Álftanesi. Hörður byrjaði á verkinu en börn hans tóku svo við því og luku verkinu.
Þingvangur í dag
Undanfarin ár hefur Þingvangur ehf. tekið þátt í ótal metnaðarfullum verkefnum á áberandi stöðum svo sem á Lýsisreitnum svokallaða en þar eru 141 íbúð á Grandavegi 42, Hljómalindarreitnum en þar er að finna hótel, verslanir, 25 íbúðir og Brynjureitnum sem inniheldur 72 íbúðir auk verslana. Einnig byggði Þingvangur þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar á Fiskislóð. Starfsemin er þó alls ekki bundin við höfuðborgarsvæðið og hafa verið unnin stór verk á landsbyggðinni, t.d. Icelandairhótel á Akureyri, hótel á Höfn í Hornafirði, hús sem hýsir Eldfjallamiðstöðina á Hvolsvelli, ellefu heilsárshús í Kjarnaskógi, 37 íbúðir á Akranesi og eitt stærsta nautabú landsins á bænum Sandhóli í Meðallandi í Skaftárhreppi. Í dag er meðal annars unnið að 83 íbúðum á Elliðabraut í Norðlingaholti, 82 íbúðum á Hallgerðargötu fyrir Bjarg íbúðafélag, 129 íbúðum á Hafnarbraut á Kársnesi fyrir Upphaf og fimm íbúðum fyrir Landssamtökin Þroskahjálp í Beykiskógum, einnig er Þingvangur ehf. að byrja á 252 íbúðum, verslun og þjónustu og aðstöðu fyrir eldri borgara fyrir systurfélag sitt, Húsbygg ehf. á Álftanesi. Þingvangur ehf. hefur jafnframt tekið að sér ýmis verk fyrir önnur fyrirtæki og tekið þátt í útboðum. Hjá Þingvangi starfa í dag 80 manns og fjöldinn allur af verktökum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd