Stofnun þjóðgarðs og heimsminjar
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum varð til þegar svæðið var friðlýst með sérstökum lögum, sem samþykkt voru á Alþingi 7. maí 1928. Í lögunum sagði að Þingvellir við Öxará og nágrenni þeirra skuli frá ársbyrjun 1930 vera „Friðlýstur helgistaður allra Íslendinga”. Hið friðhelga land markaðist upphaflega af Almannagjá í vestri og Hlíðargjá og Hrafnagjá í austri, en í suðri var miðað við línu frá hæstu brún Arnarfells beina stefnu á Kárastaði og í norðri frá Ármannsfelli þvert austur yfir hraunið að Hlíðargjá. Við stofnun þjóðgarðsins var kjörin Þingvallanefnd en í henni sátu þrír kjörnir þingmenn. Þeir réðu þjóðgarðsvörð til daglegs reksturs. Fyrsti þjóðgarðsvörður Þingvalla hafði verið einn helsti talsmaður friðunar Þingvalla; Guðmundur Davíðsson. Með nýjum lögum 47/2004 stækkaði þjóðgarðurinn og er nú 228 ferkílómetrar: Mörk þjóðgarðsins á Þingvöllum og hins friðhelga lands skulu vera: Að sunnan eru mörkin um línu sem dregin er úr landamerkjum jarðanna Arnarfells og Mjóaness á Langatanga, vestur yfir vatnið og í Grjótnes sem er á landamerkjum jarðanna Skálabrekku og Kárastaða. Þaðan ráða landamerki þeirra jarða að landamerkjum Selkots og síðan landamerki Selkots og Kárastaða að sýslumörkum Árnessýslu og Kjósarsýslu á Há-Kili. Þaðan ráða sýslumörk til norðausturs til upptaka Öxarár við Myrkavatn og í hátind Háusúlu og þaðan bein stefna til austurs í efsta tind Gatfells. Þaðan liggja mörkin til suðurs í Hrafnabjörg og með austur- og suðurmörkum jarðarinnar Gjábakka og með austurmörkum jarðarinnar Arnarfells í Langatanga.
Sama ár var þjóðgarðurinn samþykktur á heimsminjalista UNESCO. Með samþykktinni urðu Þingvellir meðal rúmlega 1200 menningar- og náttúruminjastaða á heimsminjaskránni sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Þingvellir þykja geyma einstaka heimild um norrænt þinghald til forna og sérstæð tengsl við bókmenntasögu þjóðarinnar.
Sagan
Á Þingvöllum var Alþingi stofnað árið 930. Hér sátu goðar í Lögréttu, samþykktu þar lög réttu við eldri og kusu lögsögumann. Lögsögmaður var kosinn til þriggja ára í senn. Hann átti að tryggja þinghald og sagði upp rétt lög í landinu en utan þings hafði hann engin völd. Þá var gengið frá deilumálum á Þingvöllum, ýmist tókust á sættir eða mál enduðu fyrir dómstólum. Á Alþingi voru tvö dómsstig; annarsvegar fjórðungsdómur og ef það leystist ekki þar var hægt að áfrýja til fimmtardóms. Þingvellir urðu sumar hvert höfuðborg landsins þegar þing hittist um sólstöðubil og starfaði í tvær vikur. Talið er að þinginu hafi verið helgaður völlur hvert sumar.
Þinghelgin náði frá frá tveim hraunhólum í norðri, Köstulum, að ósum Öxarár í suðri. Til austurs var þinghelgin mörkuð af Flosagjá og í vestri Almannagjá. Hér reistu goðar búðir sínar fyrir sig og þingmenn sína. Þá sóttu kaupmenn, sverðskriðar og aðrir þingið til koma varningi sínum í verð og flytja fréttir. Talið er að allt að 4000 manns gætu hafa sótt þingið þegar mest lá á og stór mál voru til umfjöllunar. Þó hlutverk Alþingis breyttist í gegnum tíðina, sérstaklega með nýjum lögbókum á 13. öld, komnum frá Noregi, fyrst Járnsíðu og svo Jónsbók. Voru Þingvellir þó enn mikilvægur staður í hinum stærri málum. Hér hittust þeir sem voru skipaðir til þingsetu; sýslumenn, lögmenn og lögréttumenn og gátu lagt fram beiðni til breytinga á lögum þó endanlegt löggjafarvald væri komið í hendur Noregs- eða Danakonunga. Upp úr miðri 16. öld voru refsingar þyngdar og aukin tíðni dauðarefsinga fór í hönd. Voru þá sakamenn leiddir til Þingvalla og fullnusta refsinga fór fram hér. Þannig má rekja ýmis örnefni refsinga, og annara til þess tíma sem teygði sig allt fram á 18. öld. Eru þetta örnefni eins og Drekkingarhylur, Höggstokkseyri, Kagarhólmi, Gálgaklettur og Brennugjá. Undir lok 18. aldar var hlutverk Þingvalla orðið úrelt miðað við þá stjórnsýslu sem var á margan hátt búin að festa sig í sessi. Alþingi kom því síðast saman á Þingvöllum 1798. Staðurinn féll þó ekki í gleymsku heldur varð hann vinsæll viðkomustaður evrópskra ferðalanga og ævintýramanna á 19. öld. Voru þetta upp til hópa menntamenn sem höfðu lesið sér til um um sögu og menningu Íslands. Fönguðu þeir gjarnan mikilfengleika staðarins í teikningum, ljóðum eða öðrum texta. Einna þekktastur slíkra er W.G. Collingwood en málaði hann marga sögufræga staði. Nýstofnuð Bandaríki, frönsku byltingarnar, áhersla á lýðræði og aðkomu að ákvörðunum voru hugmyndir sem íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn drukku í sig og vildu miðla áfram til íslensku þjóðarinnar. Leitað var að fyrirmyndum að sameiningartákni og hugmyndum um lýðræði. Lágu þá Þingvellir vel við. Fá ljóð hafa fangað umhverfi Þingvalla og mótað huga landans um staðinn og ljóðið Skjaldbreiður eftir Jónas Hallgrímsson. Hugmyndin um Þingvelli varð mörgum innblástur í rökræðum um aukið sjálfræði Íslands gagnvart valdi Dana. Þó Alþingi hafi verið fundinn staður í Reykjavík styrktist ímynd Þingvalla sem hinn forni þingstaður.Friðunarhugmynda gætir fyrst í grein árið 1907 frá þá fornminjaverði Íslands Matthíasi Þórðarsyni. Næstu 20 árin var þó umræða keyrð áfram fyrst og fremst af barnakennaranum Guðmundi Davíðssyni. Í mörgum greinarskrifum sínum lýsti hann hve vel Þingvellir pössuðu sem þjóðgarður líkt og í þá tíð væri verið að koma víða upp í Bandaríkjunum. Hugmyndin um friðun Þingvalla óx ásmegin á þriðja áratug 20. aldar og var loks samþykkt með lögum 1928
Jarðfræði
Sigdældin á Þingvöllum er hluti af virku eldgosa- og sprungusvæði sem nær utan frá Reykjanesi norður í Langjökul. Ytri mörk þess eru við Súlnaberg í Botnssúlum og austur á Lyngdalsheiði og Laugarvatnsfjalli. Á Suðurlandi jagast flekarnir hvor framhjá öðrum en á Þingvöllum færast þeir í sundur og spilda á milli sígur. Fjarri flekaskilunum er hreyfingin jöfn, 2 cm á ári en á þeim sjálfum safnar bergið spennu á löngum tíma sem síðan losnar í umbrotahrinum þegar brotamörkum er náð. Hið stöðuga landsig hefur valdið ágangi vatns upp í þinghelgina. Frá því að Alþingi var stofnað árið 930 má gera ráð fyrir að sigið nemi upp undir 4 metrum. Vatnságangur og landsig hafði áhrif á þingstörfin en talið er að Þingvallakirkja hafi verið flutt á 16. öld þangað sem hún er nú. Lögrétta var færð úr stað 1594 því þá hafði hún einangrast á hólma í Öxará. Við landsigið 1789 fór nokkuð af túni á Þingvöllum undir vatn og gjár opnuðust.
Þingvallavatn
Hin nánu tengsl á milli vistkerfis Þingvallavatns og jarðsögunnar skapa Þingvallavatni sérstöðu meðal vatna heimsins. Meirihluti vatnasviðsins er þakið hrauni og vatn hripar þar auðveldlega í gegn. Ungur aldur hraunanna gerir það að verkum að upptaka steinefna er mikil í grunnvatninu sem er ein af undirstöðum fjölbreytts lífríkis í Þingvallavatni.
Vegna landsigs og hrauns skapast fjölbreytni í búsvæðum, til dæmis fylgsni fyrir fiska í gjám og gjótum meðfram strandlengju Þingvallavatns. Þingvallavatn er sérstaklega frjótt og gróðursælt þó svo að það sé mjög kalt. Um þriðji hluti botnsins er þakinn gróðri og magn þörunga er mikið. Lággróður nær út á 10 metra dýpi en hágróður myndar stór gróðurbelti á 10-30 metra dýpi. Um 150 tegundir jurta og 50 tegundir smádýra beita sér á þennan gróður, frá fjöruborði og út á mikið dýpi.
Í Þingvallavatni finnast þrjár tegundir ferskvatnsfiska af þeim fimm sem finnast á Íslandi, urriði bleikja, og hornsíli. Talið er að þessar þrjár tegundir fiska hafi allar lokast í vatninu í kjölfar síðustu ísaldar þegar land lyftist við suðurenda Þingvallavatns. Þessar þrjár fisktegundir eru lifandi vitnisburður um hvernig þróun tegunda er í náttúrunni því þær hafa á einungis 10.000 árum lagað sig að mismunandi búsvæðum í vatninu. Sú aðlögun endurspeglast m.a. í mismunandi afbrigðum bleikjunnar og hornsílisins og mismunandi stofnum urriðans. Vegna þessa hefur Þingvallavatn á undanförnum árum orðið vettvangur rannsókna á fyrstu stigum afbrigða og tegundamyndunar.
Gróður og dýralíf
Birkiskógur er einkennandi fyrir Þingvallasvæðið enda er eitt elsta nafn svæðisins Bláskógar. Í þjóðgarðinum hafa verið greindar 172 tegundir háplantna sem er um 40% íslensku flórunnar. Birkið ásamt víði, lyngi og fjalldrapa breyta ásýnd Þingvalla þegar haust tekur við af sumri og leggja þá margir leið sína á staðinn til að njóta þeirrar litadýrðar sem við blasir.
Þingvallavatn er sérstaklega djúpt og dregur af þeim sökum ekki til sín eins marga vatnafugla og grynnri vötn. Að staðaldri lifa 52 fuglategundir við vatnið og 30 aðrar koma og fara. Þekktasti fugl vatnsins er himbriminn sem verpir á fáeinum stöðum við vatnið. Hann er styggur og ver svæði sitt af ákafa. Ísland er austasta landnám himbrimans en þessi sérstæði fugl á ættir sínar að rekja til Norður Ameríku. Vestan um haf koma líka húsönd og straumönd. Örn verpti forðum í Dráttarhlíð og Arnarfelli en er nú aðeins stopull gestur.
Refurinn læðist um holt og hæðir en hann hefur deilt landsins gæðum með manninum allt frá landnámi. Hann má finna við Þingvallavatn sem víðar á Íslandi. Nýjasti íbúinn sem dvelst að staðaldri við Þingvallavatn er líklega minkurinn en hann var fyrst fluttur til Íslands 1931 til loðdýraræktar. Fljótlega sluppu nokkrir minkar úr búrum sínum og nú finnst minkurinn um allt land. Minkurinn kann vel við sig á Þingvöllum og verður hans víða vart við strandlengju vatnsins.
Skipulag og sérstaða
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er elsti þjóðgarður landsins og sá fyrsti til að komast á heimsminjalista UNESCO. Þá er þetta líka sá þjóðgarðurinn sem er hvað næst miklu þéttbýli á landinu. Þannig eru einungis 50 km til höfuðborgarsvæðisins þar sem 2/3 hluti landsmanna býr. Eðlilega er garðurinn því mikið nýttur af íbúum þess svæðis og öðrum gestum. Í dag sitja sjö þingmenn í Þingvallanefnd sem ráða til sín þjóðgarðsvörð er heldur utan um daglegan rekstur þjóðgarðsins. Lengst af var þjóðgarðurinn undir forsætisráðuneytinu en fluttur undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið 2017. Þingvellir hafa nýst sem samkomustaður fyrir stórhátíðir. Stjórnarskrárgjöf danakonungs, Kristján IX, fór fram hér þegar fagnað var 1000 ára landnámi 1874. Þá var blásið til mikilla hátíðahalda 1930 til að fagna 1000 ára Alþingi um land allt og ekki síst á Þingvöllum þar sem ríflega 20.000 manns kom saman. Lögberg á Þingvöllum var nýtt til undirskriftar sjálfstæðis 1944 og þrjátíu árum seinna var þjóðinni aftur boðið á Þingvöll til að gleðjast yfir 1100 ára landnámi Íslands. Þá voru Þingvellir miðpunktur 50 ára afmæli lýðveldisins 1994. Árið 2000 var 1000 ára kristnitöku fagnað. Á öllum þessum hátíðum hafa vellirnir nýst til hátíðahalda og hinar ýmsu hraunbrekkur, landanum til áhorfs.
Framtíðarsýn
Margt hefur breyst frá því að Guðmundur Davíðsson var fyrst ráðinn umsjónarmaður 1920-1924 og hann taldi í kringum 5000 gesti til Þingvalla yfir sumarið. Upp úr 2010 óx ferðamannafjöldi til Íslands í veldisvexti. Hvert ár var um 20% fjölgun. Þingvellir eru sá staður sem tekur við einna hæsta hlutfalli þeirra erlendu gesta er sækja Ísland heim. Tölur frá 2018 gefa til kynna að nærri 1,6 milljón gesta hafi komið til Þingvalla. Þá eru staðsettir teljarar í Almannagjá sem töldu að rúm 1,3 milljónir gesta gengu í gjánni árið 2019. Þó snuðra hafi hlaupið á þráðinn vegna heimsfaraldurs COVID-19 árið 2020 eru vísbendingar um að slíkt sé einungis tímabundið ástand.
Á Þingvöllum er unnið eftir stefnumörkun þjóðgarðsins sem gildir til 2038. Þar er þess getið að öll aðstaða til afþreyingar, sem byggð verður upp í þjóðgarðinum, taki mið af menningar- og náttúrufarslegri sérstöðu Þingvalla með það að markmiði að gestir fari fróðari heim. Þjóðgarðurinn verði auðveldlega aðgengilegur gestum sem koma akandi án þess að bílar séu áberandi. Áhersla er lögð á að þinghelgin verði að mestu án bílaumferðar en að bílum sem flytja gesti sé lagt utan þinghelgarinnar, einkum á vestari gjárbarminum, þ.e. á Hakinu og við Langastíg. Innan þjóðgarðsins verði fjölda bílastæða og gjaldtöku fyrir þau stýrt samræmi við þann fjölda gesta sem unnt er að taka á móti án þess að náttúra eða sögulegar minjar hljóti skaða af. Í samstarfi við önnur yfirvöld verði banni við lagningu bíla utan skilgreindra bílastæða fylgt fast eftir. Akstur bíla spilli ekki yfirbragði og kyrrð þjóðgarðsins en stígakerfið gegni þeim mun meira hlutverki. Þá verður gert reglubundið mat á ástandi viðkvæmra svæða. Farið verður yfir lista af vöktunaratriðum og niðurstöður ástandsskoðunar bornar saman við viðmiðunarástand.
Húsnæði
Elsta húsnæði sem starfsfólk þjóðgarðsins hefur aðgang að er ein burst Þingvallabæjarins sem reistur var árið 1928 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar. Þar er skrifstofa þjóðgarðsvarðar staðsett ásamt skrúðhúsi fyrir presta og notendur Þingvallakirkju.
Árið 1970 var byggð þjónustumiðstöð við tjaldstæði þjóðgarðsins á Leirum. Þar er kaffi- og veitingasala rekin af utanaðkomandi rekstraraðila. Starfsfólk þjóðgarðsins sinnir þar upplýsingagjöf til gesta garðsins.
Mikil breyting varð í starfsemi þjóðgarðsins með tilkomu gestastofu við Hakið ofan Almannagjár 2002. Hægt var að taka á móti hópum innandyra, vera með fyrirlestra og sett var upp margmiðlunarsýning fyrir gesti. Með auknum fjölda ferðamanna var gestastofan stækkuð árið 2018 og er nú 1400 fm. Jafnframt var sett upp ný sýning Hjarta lands og þjóðar þar sem gestir geta fræðst um þjóðgarðinn á gagnvirkan hátt. Viðbyggingin hlaut umhverfis- og byggingarvottun BREEAM 2020.
Auk þessara eru ýmsar þjónustubyggingar og salerni í þjóðgarðinum við tjaldstæði og mannmörg svæði.
Þjóðgarðurinn heldur utan um umhirðu og bókanir í Þingvallakirkju. Kirkjan var reist árið 1859 en turni skeytt við hana 1907 og er hún friðuð. Kirkjan er hefðbundin timburkirkja eins og þær voru reistar nokkuð vítt um land á 19. öld. Í henni eru gripir frá fyrri Þingvallakirkjum eins og málverk eftir Ófeig Jónsson frá Heiðarbæ, máluð á fyrri hluta 19. aldar. Þá er þarna predikunarstóll frá 1683 sem gert var við í lok 20. aldar og komu þá í ljós eldri myndir sem málað hafði verið yfir. Í turninum eru þrjár klukkur; ein sögð forn útlits en lítið vitað um aldur hennar, önnur var gjöf séra Jóns Vídalíns vígsluárið hans 1698 og sú stærsta „Íslandsklukkan“ er frá 1944 og hringdi inn sjálfstæðið.
Tekjur þjóðgarðs
Þingvellir eru reknir á föstum framlögum sem samþykkt eru í hverjum fjárlögum frá Alþingi fyrir sig. Jafnframt er þjóðgarðinum heimilt að inniheimta þjónustugjald fyrir þá sem nota bílastæði þjóðgarðsins og nýta sér Silfru. Þjónustgjöldin hafa gert þjóðgarðinum kleift að bregðast við auknu álagi sem hlýst af gestakomum. Tekjurnar hafa því nýst til innviðauppbyggingar er verndar þjóðgarðinn til framtíðar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd