Þjóðleikhúsið er lifandi og kraftmikið leikhús sem á brýnt erindi við fólkið í landinu
Í Þjóðleikhúsinu eru settar á svið framúrskarandi leiksýningar sem skemmta áhorfendum, ögra þeim, vekja þá til umhugsunar og veita þeim innblástur. Þjóðleikhúsið sýnir fjölbreytt úrval sviðsverka sem er ætlað að höfða til ólíkra áhorfendahópa, með það að markmiði að efla og glæða áhuga landsmanna á list leikhússins og auðga leikhúsmenningu í landinu.
Á hverju ári eru um 30 ólíkar sýningar á fjölum leikhússins. Þar af er um tugur nýrra frumsýninga, en að auki sýnir leikhúsið verk frá fyrra leikári ásamt samstarfs- og gestasýningum.
Þjóðleikhúsið – byggingin
Guðjón Samúelsson arkitekt (1887-1950) teiknaði Þjóðleikhúsið. Hann var fyrstur Íslendinga á 20. öld til að ljúka háskólaprófi í byggingarlist og gegndi hann embætti húsameistara ríkisins í þrjá áratugi, allt frá árinu 1920 til ársins 1950. Hann var einn mikilvirkasti og áhrifamesti arkitekt landsins, hannaði fjölda opinberra bygginga og hafði mikil áhrif á hugmyndir um borgarskipulag. Byggingar sem hann hannaði er að finna í flestum byggðarlögum á Íslandi og má þar nefna Háskóla Íslands, Hallgrímskirkju og Akureyrarkirkju.
Efnið sem notað var utan á Þjóðleikhúsið var uppfinning Guðjóns. Þrjár bergtegundir: hrafntinna, kvars og silfurberg, voru muldar saman og steypan húðuð með þessu efni. Þannig fékk húsið sinn sérstaka svip og í kjölfarið var bergmulningur, eða steining, notuð víða á íslensk hús.
Fjölbreytt verkefnaval
Á verkefnaskránni eru að jafnaði ný og eldri innlend og erlend verk, klassískar leikbókmenntir, söngleikir og barnasýningar, sem og sýningar af ýmsu tagi unnar í samstarfi við leikhópa, danslistafólk og listastofnanir. Sérstök rækt er lögð við innlenda nýsköpun og ný íslensk leikverk.
Þjóðleikhúsið leggur einnig ríka áherslu á að efla áhuga og skilning yngri kynslóða á leikhúsinu með sýningum fyrir börn og unglinga og fræðslustarfi. Leikið er á fimm ólíkum leiksviðum í leikhúsinu, en Þjóðleikhúsið sýnir einnig sýningar á leikferðum um landið.
Metnaður á öllum sviðum
Fastráðið starfsfólk leikhússins er um 100 manns, en einnig starfa tæplega 200 lausráðnir starfsmenn við leikhúsið á ári hverju. Eru þá ótaldir starfsmenn gesta- og samstarfsverkefna. Í Þjóðleikhúsinu starfar metnaðarfullt sviðslistafólk í fremstu röð, og leikhúsið á í samstarfi við heimsþekkta erlenda listamenn og leikhús. Þar er lögð alúð við að efla innra starf og starfsánægju, með áherslu á jafnréttismál. Þjóðleikhúsið er eign íslensku þjóðarinnar og um starfsemi þess er fjallað í lögum nr. 165/2019 um sviðslistir.
Fræðslustarf – Þjóðleikur, námskeið, leikferðir og fleira
Þjóðleikhúsið hefur mikilvægt fræðsluhlutverk sem það leysir af hendi með margvíslegum hætti. Fræðsluverkefnið Þjóðleikur hefur verið mikilvægur þáttur í að tengja leikhúsið landsbyggðinni. Reglulega eru haldin námskeið á vegum Þjóðleikhússins, ýmist fyrir leikara eða tæknifólk. Á vegum Endurmenntunar HÍ er einnig boðið upp á námskeið á hverju ári þar sem leikhúsgestir geta kafað ofan í ákveðið leikverk. Börnum og ungu fólki um allt land er boðið að kynnast töfrum leikhússins með ókeypis leiksýningum og leikferðum.
Stóra sviðið – þar sem töfrarnir gerast
Margar af glæsilegustu uppsetningum íslenskrar leikhússögu hafa verið sýndar á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Allt frá því að Nýársnóttin eftir Indriða Einarsson var frumsýnd á sumardaginn fyrsta árið 1950 hafa áhorfendur hrifist af eftirminnilegum leiksýningum, stjörnur hafa fæðst á sviði og galdrar leikhússins snert við okkur á einstakan hátt.
Stóra sviðið er útbúið snúningssviði sem enn er notað í dag í nánast óbreyttri mynd. Grunnur hringsviðsins er smíðaður úr járni úr gömlu Ölfusárbrúnni sem endurgerð var árið 1944.
Kassinn – ennþá meiri nánd
Kassinn er leiksvið sem opnað var árið 2006 á efri hæð hússins við Lindargötu 7 sem í daglegu tali er nefnt Jónshús, eftir Jóni Þorsteinssyni íþróttakennara sem lét reisa það árið 1935 og kenndi þar íþróttir og leikfimi um árabil. Kassinn ber nefn með rentu enda er hann svokallað „black-box“ þar sem hægt er að færa til áhorfendabrekkur.
Litla sviðið – barnaleikhús Þjóðleikhússins
Litla sviðið er á neðri hæð Jónshúss. Þar eru einkum sýndar sýningar fyrir börn, en einnig sýningar fyrir fullorðna.
Kjallarinn – klassabúllan
Þjóðleikhúskjallarinn á sér langa sögu og hefur ekki verið einhamur í gegnum tíðina. Nú hefur rýmið fengið kærkomna andlitslyftingu; nýtt færanlegt svið og endurnýjaður tækjabúnaður eru tilvalin vettvangur fyrir afburða afþreyingu.
Þjóðleikhússtjórar frá upphafi
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd