Þjóðminjasafn Íslands

2022

Þjóðminjasafn Íslands, höfuðsafn á sviði menningarminja
Þjóðminjasafn Íslands er eign íslenska ríkisins og fer mennta-og menningarmálaráðherra með yfirstjórn þess. Safnið er höfuðsafn á sviði menningarminja og háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag. Kostnaður af rekstri Þjóðminjasafnsins greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum. Þjóðminjavörður stjórnar starfsemi og rekstri safnsins. Hann ræður starfsmenn þess og er í fyrirsvari fyrir safnið. Þjóðminjasafni Íslands er ætlað að vera miðstöð þjóðminjavörslu og rannsókna á menningarsögulegum minjum í landinu. Hlutverk þess er að auka og miðla þekkingu á menningararfi íslensku þjóðarinnar og stuðla að því að sem flestir geti haft gagn og gaman af sögu og minjum lands og þjóðar. Meginhluti safnhússins við Suðurgötu hýsir grunnsýningu Þjóðminjasafnsins: Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár, þar fer fram fjölþætt menningarstarfsemi á sviði menntunar, fræðslu og ferðaþjónustu.

Um starfsemi Þjóðminjasafns Íslands gilda sérstök lög nr. 140/2011. Auk þess starfar safnið samkvæmt safnalögum nr. 141/2011 og lögum um menningarminjar nr. 80/2011. Um safnið gildir einnig reglugerð um Þjóðminjasafn Íslands nr. 896/2006. Lög um Þjóðminjasafn Íslands nr. 140/2011 og Siðareglur ICOM 2006.

Sagan, stofnendur, eigendur og stjórnendur
Þjóðminjasafn Íslands er meðal elstu stofnana landsins, stofnað árið 1863. Í lögum um Þjóðminjasafn Íslands, lögum um menningarminjar og safnalögum er kveðið á um á hvern hátt safnið skuli sinna hlutverki sínu með því að safna, skrá og varðveita menningarminjar, taka við og varðveita fornmuni, sýni og önnur rannsóknargögn úr fornleifarannsóknum, rannsaka og annast kynningu, útgáfu og aðra fræðslustarfsemi, miðla þekkingu um íslenska menningu til skóla, fjölmiðla og almennings, stuðla að samvinnu safna og veita ráðgjöf. Safnið starfar jafnframt samkvæmt alþjóðlegum siðareglum og samþykktum safna. Samkvæmt lögum eru söfn: „… varanlegar stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Þau skulu vera opin almenningi.“ Í stefnu Þjóðminjasafns fyrir menningarminjasöfnin er kveðið á um að söfn séu grunnstoðir í menningarsamfélaginu og að þau taki „þátt í að framfylgja markmiðum lýðræðis með því að tryggja aðgengi að heimildum um uppruna og þróun mannlífs í landinu. Það er hlutverk safna að miðla upplýsingum um sögu og menningu til almennings. Þau eru jafnframt orðin að órjúfanlegum þætti menntakerfisins.“

Brjóstnælur frá miðöldum og röntgenmynd af þeim.

Skipulag og sérstaða
Þjóðminjasafns Íslands sem höfuðsafns er traust meðal landsmanna og stjórnvalda, en það er forsenda góðs árangurs á sviði þjóðminjavörslu. Sem höfuðsafn, er Þjóðminjasafnið í forystu fyrir viðurkenndum menningarminjasöfnin í landinu, stendur fyrir virku samtali og samvinnu þeirra á milli, og styður faglega við hvers kyns verkefni þeirra. Stofnunin er í virkum tengslum við önnur söfn í landinu og í nágrannalöndum okkar, sem og við aðrar menningarstofnanir og menntastofnanir. Árlega býður Þjóðminjasafnið fulltrúum minjasafna til samráðsfundar, vorfundar, sem er gagnlegur samráðsvettvangur. Sem höfuðsafn, er Þjóðminjasafn Íslands í forystu og ber því að móta safnastefnu á sviði menningarminja og vera leiðandi um fagleg vinnubrögð á fagsviðinu, svo sem um stjórnsýslu, við öflun upplýsinga og skráningu, fullnægjandi varðveisluskilyrði og hvers konar miðlun menningarminja. Samkvæmt gildandi safnalögum ber höfuðsöfnum að stuðla að samræmdri safnastefnu á sínu sviði og fylgja henni eftir í samstarfi við safnaráð. Safnastefnan er unnin á grundvelli menningarstefnu og er ætlað að stuðla að framgangi safnastarfs og fagmennsku á sviði vörslu, rannsókna og miðlunar menningarminja.

Framtíðarsýn
Leiðarljós í starfi Þjóðminjasafns Íslands, er að safnið stuðli að varðveislu og þekkingu á menningararfi íslensku þjóðarinnar frá upphafi til samtíma og standi fyrir vandaðri miðlun um sögu og minjar lands og þjóðar með fjölbreyttu sýningar- og menningarstarfi. Þjóðminjasafn speglar þannig fortíð og samtíð í starfi sínu með virðingu fyrir fjölbreytileika menningar og samfélags á hverjum tíma. Þjóðminjasafn Íslands er safn allra landsmanna og einn af hornsteinum íslensks menningarsamfélags. Þar er varðveittur menningararfur þjóðarinnar, brunnur heimilda um menningarsögu Íslands. Þannig mun safnið í framtíðinni stuðla að nýrri þekkingu, umræðu og nýsköpun samfélaginu til góðs. Hlutverk safna í samtímanum er víðtækt á svið menningar, menntunar og ferðaþjónustu auk varðveislu menningararfs og rannsókna. Það leggur áherslu á gott aðgengi og almenna þátttöku í fjölmenningarsamfélaginu. Þjóðminjasafn Íslands er þannig vettvangur til umræðu, upplifunar og íhugunar. Þjóðminjasafn Íslands er safn allra landsmanna, einn af hornsteinum íslensks menningarsamfélags og mun án efa þróast áfram með öðrum grunnstofnunum menningar- og menntasamfélagsins.

Aðsetur
Starfsemi Þjóðminjasafns Íslands er á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Að auki er 71 hús á 40 minjastöðum um allt land á ábyrgð stofnunarinnar. Þjóðminjavörður er Margrét Hallgrímsdóttir. Framkvæmdastjóri er Þorbjörg Gunnarsdóttir. Sviðsstjóri munasafns er Lilja Árnadóttir, sviðsstjóri húsasafnsins er Guðmundur Lúther Hafsteinsson og sviðsstjóri Ljósmyndasafns Íslands er Inga Lára Baldvinsdóttir. Mannauðsstjóri er Hildur Halldórsdóttir. Höfuðstöðvar Þjóðminjasafns Íslands eru á Suðurgötu 41. Varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafns Íslands er er á Tjarnarvöllum 11 í Hafnarfirði. Ljósmyndasafn Íslands er með aðsetur í Vesturvör 16-20 í Kópavogi. Safnahúsið við Hverfisgötu 15 er hluti af Þjóðminjasafni Íslands og er þjóðminjavörður forstöðumaður þess. Safnahúsið, sem áður var lengst af aðsetur Landsbókasafns Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands var sameinað Þjóðminjasafninu árið 2013. Nánari upplýsingar er að finna á vef stofnunarinnar www.thjodminjasafn.is

Mannauður og starfsmannafjöldi
Við Þjóðminjasafn Íslands starfa um sextíu starfsmenn með fjölþætta menntun og reynslu á sviði rekstrar og þjónustu, sem og þjóðminjavörslu, varðveislu, rannsókna, og miðlunar á menningararfi þjóðarinnar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd