Skjalasafn allra landsmanna
Þjóðskjalasafn Íslands er samkvæmt lögum nr. 77/2014 skjalavörslustofnun íslenska ríkisins og skjalasafn þeirra sveitarfélaga sem ekki eru aðilar að héraðsskjalasafni. Safnið fer með yfirstjórn skjalamálefna ríkisins, setur reglur fyrir alla opinbera skjalavörslu, veitir ráðgjöf og hefur eftirlit með skjalavörslu stjórnvalda, miðlar safnkostinum með ýmsum hætti og heldur námskeið um skjalavörslu. Í Þjóðskjalasafni eru frumheimildir um sögu íslensku þjóðarinnar frá miðöldum fram á okkar daga. Elsta skjalið er frá 12. öld. Hvergi annars staðar eru til meiri heimildir um íslenska sögu. Safninu er ætlað að varðveita heimildir um sögu þjóðarinnar, svo sem ákvarðanir stjórnvalda og mikilvægar upplýsingar um þegnana til þess að tryggja hagsmuni þeirra. Almennt er aðgangur opinn að gögnum í Þjóðskjalasafni þó með undantekningum er varða persónuvernd. Þannig eru viðkvæm persónuleg gögn opin almenning þegar 80 ár eru liðin frá tilurð gagnanna og 100 ár þurfa að líða uns almenningur fær aðgang að sjúkragögnum. Þó fær einstaklingur ávallt aðgang að gögnum sem varða hann sjálfan. Aðgang að skjölum í safninu fá menn á lestrarsal sem er öllum opinn, en einnig er talsvert magn skjala aðgengileg með stafrænum hætti á vefsvæðinu www.heimildir.is
Þjóðskjalasafn tekur bæði við pappírsgögnum og stafrænum gögnum til varðveislu. Nú varðveitir það tæplega 45.000 hillumetra af pappírsskjölum og um 1 terabæti af rafrænum gögnum. Það miðlar upplýsingum um safnkost sinn á vefnum (www.skjalasafn.is) og á vefnum www.heimildir.is eru birtar valdar heimildir um sögu þjóðarinnar. Í Þjóðskjalasafni starfa að jafnaði ríflega þrjátíu manns. Þjóðskjalavörður er Hrefna Róbertsdóttir.
Upphaf og saga
Stofnun Þjóðskjalasafns Íslands miðast við auglýsingu um landsskjalasafn sem Hilmar Finsen landshöfðingi gaf út 3. apríl 1882. Þar var mælt fyrir um, að skjalasöfn helstu embætta skyldu geymd hvert í sínu herbergi á dómkirkjuloftinu í Reykjavík, og áttu forsvarsmenn viðkomandi embætta að gæta hver síns skjalasafns svo sem verið hafði. Sérstakt herbergi var ætlað til að geyma skjöl frá embættismönnum úti á landi.
Safnið flutti í Alþingishúsið árið 1900 og var þá opnað almenningi. Stórhuga heimastjórn reisti sérstaka byggingu, Safnahúsið við Hverfisgötu, yfir helstu söfn landsins árin 1906 – 1909. Þar var Þjóðskjalasafnið næstu áratugi. Árið 1985 var hús Mjólkursamsölunnar að Laugavegi 162 keypt fyrir safnið enda húsakostur þess löngu orðinn of lítill. Flutningi þangað lauk árið 1998.
Í upphafi 20. aldar miðaðist starfsemi safnins einkum við varðveislu og skráningu skjalasafna frá helstu embættum landsins. Með tímanum hafa hlutverk og skyldur Þjóðskjalasafns aukist verulega, einkum hlutverk þess að setja reglur um skjalavörslu og hafa eftirlit með skjalavörslu stjórnvalda. Lögin, sem sett voru um starfsemi opinberra skjalasafna árið 2014 mörkuðu tímamót í því efni.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd