Þórbergssetur

2022

Þórbergssetur á Hala í Suðursveit hóf starfsemi sína formlega í nýju og glæsilegu húsnæði 1. júlí árið 2006. Áður hafði undirbúningur að starfsemi þess staðið í fimm ár. Árið 2003 var stofnuð sjálfseignastofnun um verkefnið með stuðningi fjölmargra stofnana á sviði fræðslu, menningar og safna. Má þar nefna Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Rithöfundasamband Íslands, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Þjóðminjasafnið, Árnastofnun, Þjóðskjalasafn Íslands, Landsbókasafnið, Háskólasetur Hornafjarðar o.fl.

Þórbergssetur er menningarsetur sem varpar ljósi á sögu Skaftfellinga og lífsbaráttu fólks er bjó í sambýli við óblíð og voldug náttúruöfl. Þannig fá verk Þórbergs Þórðarsonar mikilvægt hlutverk til að tengja saman og varðveita frásagnarmáta og orðsnilld liðinna alda inn í alþjóðlega og tæknivædda fjölmiðlaveröld nútímans.

Helstu markmið Þórbergssetur eru skilgreind í skipulagsskrá og eru eftirfarandi:

  1. Efla rannsóknir og umfjöllun um ævi, störf og ritverk Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar frá Hala í Suðursveit
  2. Efla fræðastörf er tengjast söfnun, varðveislu og skráningu menningarminjha í Suðursveit og síðar Austur Skaftafellssýslu
  3. Miðla þekkingu á fjölbreyttan hátt og standa fyrir fræðslu til ferðamanna og almennings um Þórberg Þórðarson, sögu og mannlíf í Austur Skaftafellssýslu

Stjórnendur
Í stjórn Þórbergsseturs sitja: Þórgunnur Torfadóttir, skólastjóri Hornafirði formaður, Steinþór Torfason, bóndi Hala ritari, Eyrún Helga Ævarsdóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar, Bergljót Soffía Kristjánsdóttir frá Hugvísindasviði Háskóla Íslands og Pétur Gunnarsson fyrir hönd Rithöfundasambands Íslands. Forstöðumaður frá upphafi er Þorbjörg Arnórsdóttir á Hala í Suðursveit og leigutaki veitingareksturs er Fjölnir Torfason Hala í Suðursveit.

Starfsemin
Starfsemi Þórbergsseturs hefur einkennst af móttöku sívaxandi fjölda ferðamanna alls staðar að úr heiminum. Upplifunarsýning um Þórberg Þórðarson sem sett var upp á fyrsta ári hefur sannað gildi sitt sem sígild og alþjóðleg fræðsla og skemmtun, en hægt er að fá hljóðleiðsögn um hana á 9 tungumálum. Jón Þórisson leikmyndahönnuður er hönnuður að bókaveggnum á norðurvegg hússins og einnig að sýningunni innan dyra ásamt arkitektinum Sveini Ívarssyni, dóttursyni Þórbergs. Veitingahús er rekið í setrinu þar sem á boðstólum er íslenskur þjóðlegur matur og kjörorðið ,,matur er menning” haldið í heiðri. Veitingahúsið hefur reynst mikið aðdráttarafl fyrir staðinn og á sinn þátt í þeim fjölda ferðamanna sem heimsótt hefur Þórbergssetur undanfarin ár. Auk móttöku ferðamanna hefur Þórbergssetur staðið fyrir ýmsum menningarviðburðum. Bókmenntahátíð er alltaf í mars í tengslum við afmælisdag Þórbergs. Þá koma rithöfundar og fjalla um verk sín og kórar að flytja söngdagskrá. Hrossakjötsveisla og bridgehátíð eru haldin að vori, tónleikar að sumri og síðan málþing í október. Auk þess eru ýmsir viðburðir eða sýningar sem falla til ár hvert. Þórbergssetur hefur nú seinni árin stutt kröftuglega við ýmis fræðistörf tengd Þórbergi og/eða Suðursveit. Má þar nefna stuðning við bókaútgáfu, söfnun upplýsinga og skráningu fornra býla og búsetuminja í Suðursveit, rannsóknum um ferðir Fljótsdælinga yfir jökul til sjósóknar í Suðursveit, leit að vörðum jöklamælingamanna á Breiðamerkursandi o.fl. Allt eru þetta samstarfsverkefni með aðilum sem eru að starfa á sama sviði og unnið með sérhæfðum fræðimönnum.
Á árinu 2020 komu fjölmargir Íslendingar í heimsókn í Þórbergssetur yfir sumarmánuðina. Í Þórbergssetri er mikið lagt upp úr að kynna bókmenntir sem þann menningararf sem að við eigum dýrastan. Til sýnis eru gömlu bækurnar sem lesnar voru í fjósbaðstofunni á Hala á uppvaxtarárum Þórbergs. Þar ber vitanlega hæst gullaldarbókmenntir okkar Íslendinga, Njála, Laxdæla og fleiri Íslendingasögur í bland við fornar húslestrabækur, elstu frá því um 1830 svo og Passíusálmar og Biblía Benedikts afa. www.thorbergur.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd