Þorbjörn hf.

2022

Þorbjörn hf. stundar mjög umsvifamikla útgerð og fiskvinnslu í Grindavík. Mikið starf hefur verið unnið í hagræðingu og tæknivæðingu framleiðslunnar og veiðanna og hefur mjög jákvæður árangur náðst. Hjá fyrirtækinu starfa í dag um 290 manns, en ársverkin eru í kringum 300. Starfsmannafjöldinn skiptist þannig að á sjó eru 160, í landsvinnslu eru 114, í framkvæmdastjórn eru 6, á skrifstofu eru 7 og þjónustudeildum eru 3. Fyrirtækið gerir út tvö flakafrystiskip, tvö línuskip og eitt togskip. Skipin eru með aflaheimildir sem nema yfir 20.000 þorskígildum. Veiðiheimildunum hefur verið safnað af um 45 fiskiskipum frá því að kvótakerfi við fiskveiðar var komið á árið 1984, með kaupum á aflahlutdeild, tilfærslum og hagræðingaraðgerðum, samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Þetta hefur verið mikið átak, sem treyst hefur grundvöll Þorbjarnar hf. og starfsmanna fyrirtækisins, sem koma af öllu landinu. Má geta þess að um 70% sjómanna okkar eru búsettir annarsstaðar en í Grindavík. Stjórnendur fyrirtækisins hafa lagt sig fram um að byggja upp öflugt og nútímalegt fyrirtæki og veita þannig bæði fyrirtækinu og starfsmönnum þess öruggari og ábatasamari tilveru og er um leið öflugur bakhjarl í atvinnulífinu í Grindavík.

Endurnýjun skipaflotans
Fyrri hluta árs 2015 seldi Þorbjörn hf. frystitogarann Hrafn GK (smíðaár 1983) til Rússlands, togarinn hafði verið í eigu félagsins frá árinu 1999. Vorið 2019 tók fyrirtækið á móti frystitogara, í flotann, sem var keyptur frá Grænlandi og fékk hann nafnið Tómas Þorvaldsson GK 10. Í ársbyrjun 2021 seldi Þorbjörn frystitogarann Gnúp GK 11, sem var í eigu félagsins frá árinu 1994, hann var seldur til Rússlands. Félagið keypti líka vorið 2020 togskip frá Vestmannaeyjum og fékk það nafnið Sturla GK 12. Þá var línuskipið Tómas Þorvaldsson GK, sem kom fyrst inn í flota félagsins árið 1975 (smíðaár 1966 ), seldur vorið 2018 til niðurrifs. Sturla GK líka línuskip, sem félagið keypti árið 2004 (smíðaár 1967) var líka selt til niðurrifs í árslok 2020.

Skipakostur
Frystitogarar:

Frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarson GK 255.

Frystitogarinn Tómas Þorvaldsson GK 10.

 

Línuskip:

Línuskipið Valdimar GK 195.

Línuskipið Hrafn GK 111.

 

Ísfisktogari:

Ísfisktogarinn Sturla GK 12.

Landvinnsla
Saltfisk- og ferskflakavinnsla fyrirtækisins er í Grindavík. Línuskip fyrirtækisins hafa verið á bolfiskveiðum og aflað fiskvinnslu fyrirtækisins hráefnis og selt hluta aflans á innlendum- og erlendum fiskmörkuðum. Fyrirtækið hefur nýtt sér ýmsar hagkvæmar lausnir í saltfiskverkun hér á landi. Þar ber hæst tölvustýrt flokkunar- og matskerfi sem hefur að stærstum hluta leyst mannshöndina af hólmi. Kerfið er í stakk búið til þess að flokka saltfiskinn niður eftir þyngd og gæðum. Þá eru fyrir hendi sérstakir rafknúnir saltdreifararar sem sinna sama starfi og skóflusaltarinn gerði áður. Megin uppistaðan í saltfiskframleiðslunni er söltun þorskflaka og er Spánn aðal markaðslandið fyrir þá vöru. Í ferskflakavinnslu fyrirtækisins eru notaðar nýjustu gerðir af tölvustýrðum fiskvinnsluvélum til að tryggja hámarks nýtingu og gæði. Á síðustu árum hefur töluvert magn verið framleitt af ferskum þorskflökum, en góður markaður hefur skapast fyrir þá vöru víðar í Evrópu, einnig hefur hluti framleiðslunnar farið til Bandaríkjanna. Fersku flökin eru flutt héðan á erlenda markaði ýmist með skipum eða með flugvélum, þá eru flökin tilbúin til dreifingar í markaðslandinu daginn eftir vinnslu og frágang hér á landi.
Sumarið 2020 var unnið að því að sameina saltfisk- og ferskvinnslu fyrirtækisins í eitt hús og var því lokið um haustið. Í dag eru landvinnslur fyrirtækisins þá orðnar tvær, önnur í Grindavík og hin í Vogum. Nú er stefnt að því að sameina vinnsluna í Vogunum vinnslunni í Grindavík.

Sjóvinnsla
Flakafrystitogarar Þorbjarnar hf. hafa verið á bolfisk- og grálúðuveiðum innan landhelgi og karfaveiðum bæði innan og utan landhelgi. Helstu tegundir eru þorskur, ýsa, ufsi, karfi og grálúða auk þess hafa skipin veitt töluvert af gulllaxi og markíl undanfarin ár. Þorsk-, ýsu-, og ufsaflök eru eingöngu unnin roðlaus og beinlaus fyrir Bandaríkjamarkað. Evrópumarkaður tekur flökin ýmist með eða án roðs og beina. Karfinn er ekki flakaður um borð en stærstur hluti hans er hausaður og unninn fyrir fyrir markaði í Evrópu og Asíu en Kórea hefur verið að taka nokkurt magn af heilfrystum karfa. Grálúðan er haus- og sporðskorin og er mest seld til Kóreu, Taiwan og Japans, en einnig til Evrópu. Þá hefur útflutningur aukist á heilfrystri grálúðu ti Kína. Grálúðuhausar og sporðar eru einnig seldir til Asíu á ágætu verði.

Markaðsmál
Afurðir Þorbjarnar eru seldar um mest allan heim. Afurðir frystiskipa félagsins hafa verið seldar til Evrópu, Bandaríkjanna, Kanada og Asíu. Frystur makríll hefur verið seldur til Japans, en einnig til Rússlands, Bandaríkjanna, Afríku, Kóreu og Kína. Þá hefur síld og makríll líka verið notaður sem beita við línuveiðar. Saltfiskur blautverkaður, hefur verið seldur til, Spánar, Ítalíu og Grikklands, en lítilháttar til Portúgals, auk Suður-Ameríkulanda. Skreið hefur verið seld til Ítalíu og Nígeríu. Frystur fiskur hefur verið seldur til Bandaríkjanna, Asíu, Bretlands og annarra Evrópulanda.

Útflutningur
Til þess að hráefnið nýtist sem best í vinnslunni, þá er mikið lagt upp úr þekkingu á neysluvenjum viðkomandi landa. Í Portúgal telst saltfiskur til hátíðarmatar. Hæsta verðið fæst fyrir stóran, þykkan, flattan og saltaðan þorsk. Fiskurinn er fyrst þurrkaður, en rétt fyrir matreiðslu er hann útvatnaður og skorinn í hæfilega stór stykki. Í Miðjarðarhafslöndum á borð við Spán, Ítalíu og Grikkland tíðkast hvítur og þykkur saltfiskur af ýmsum stærðum og er hann snæddur bæði flattur og flakaður. Í öllum þessum löndum er fyrir hendi aldagömul hefð fyrir saltfiskneyslu og er þar leitað fyrst og fremst eftir verkunar- og fiskbragði.
Í Bandaríkjunum eru fiskafurðir fyrirtækisins mest seldar til veitingahúsa, mötuneyta, sjúkrahúsa og skóla. Einstaklingar kaupa helst sjófrystan fisk sem skorinn hefur verið í hæfilegar stærðir þannig að hver biti passi á einn disk. Bandaríkjamenn hafa löngum viljað elda sjávarfangið í djúpsteiktu deigi eða í raspi, en upp á síðkastið hefur eftirspurnin orðið meiri eftir fiskmeti í sínum náttúrulega hvíta lit. Í Japan er sjófrysti karfinn unninn á fjölbreytilegasta máta. Hann er skorinn niður í litla „kótilettubita”, flattur og flakaður, en hryggurinn fylgir ávallt öðru flakinu. Karfinn er einnig settur í ýmsar sósur, en vinsælust þeirra er „sake lees” sósa sem myndast sem afgangsafurð við bruggun á hrísgrjónavíninu „Sake”, þjóðardrykk Japana. Grálúðan er skorin í þunnar sneiðar og matreidd á svipaðan hátt eins og karfinn, en hún er einnig notuð hrá í ýmsa sushirétti. Í Bretlandi er mikil og sterk hefð fyrir fiskneyslu, þar er mikið selt af fiski í tilbúnum réttum. Markaður fyrir ferskan fisk í neytendapakkningum er vaxandi. En þekktastir eru Bretar án efa fyrir hinn fræga fiskrétt „Fish and Chips”. sem eru djúpsteikt þorskflök með steiktum kartöflum. Í dag eru nær eingöngu notuð sjófryst þorskflök í „Fish and Chips”.
Þá er töluvert af fiskafurðum selt til fyrirtækja hér innanlands. Þar má helst nefna afskurð og heilfrystan fisk, sem fyrirtæki nýta sér til framhaldsvinnslu.

Öryggismál
Þorbjörn hf. hefur alla tíð haft öryggismál starfsmanna fyrirtækisins í fyrirrúmi. Sérstakur öryggisstjóri var ráðinn til fyrirtækisins árið 2017 og hefur hann ásamt stjórnendum og starfsmönnum fyrirtækisins unnið ötullega að öryggismálum og velferð starfsmanna, nú þegar hefur verulegur árangur náðst og skráðum slysum hefur fækkað umtalsvert.

Samfélagsleg ábyrgð
Þorbjörn hf. hefur undirritað stefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í samfélagslegri ábyrgð, sem grundvallast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og bera þannig ábyrgð á að henni sé framfylgt. Þorbjörn hf. hefur innleitt jafnlaunakerfi og á árinu 2020 fékk Þorbjörn hf. jafnlaunavottun, sem felur í sér faglega úttekt innan fyrirtækisins á launum starfsfólks, starfaflokkun og öðrum þáttum sem hafa áhrif á kjör starfsmanna.

Þátttaka í öðrum félögum
Þorbjörn hf. og Vísir hf. eiga saman fyrirtækið Haustak hf., það var stofnað haustið 1999. Fyrirtækið sérhæfir sig í að þurrka og verka bolfisk, fiskhausa og fiskafskurð. Haustak selur sínar afurðir aðallega til Nígeríu. Fyrirtækið rekur öflugar þurrkverksmiðjur á Reykjanesi.
Hjá Haustaki starfa rúmlega 60 manns. Framleiðslan nam um 2.500 tonnum af þurrkaðri skreið, hausum og beinum, auk 330 tn. af lifrarlýsi til manneldis. Velta fyrirtækisins var um 1,2 milljarðar króna árið 2020. Um áratuga skeið undirbjó Codland fyrirtæki Þorbjarnar hf. og Vísis í Grindavík byggingu verksmiðju til að vinna fiskroð. Árið 2013 var félagið Marine Collagen stofnað og eru hluthafar félagsins Brim hf., Samherji hf., Vísir hf. og Þorbjörn hf., ásamt spænska félaginu Junca. Strax var hafist handa við að undirbúa byggingu verksmiðju í Grindavík til að einangra collagen og gelatín úr fiskroði. Fullkomin verksmiðja byggð á nýjustu og bestu tækni var svo tilbúin árið 2020. Vorið 2019 stofnaði Þorbjörn hf. markaðsfyrirtæki á Spáni ásamt tveimur Spánverjum. Félagið heitir Artic Saga og á Þorbjörn hf. 70% eignahlut. Artic Saga selur og dreifir saltfisk- og sjófrystum afurðum fyrir Þorbjörn hf. og önnur sjávarútvegfyrirtæki aðallega á Spáni.
Þorbjörn hf. seldi á árinu 2020 eignarhlut sinn í markaðsfyrirtækinu Pytheas í Grikklandi, kaupandinn var Vísir hf.

COVID-19 árið 2020 hvernig gekk
Strax í byrjun marsmánðar 2020 þegar flest markaðslönd fyrirtækisins fóru að grípa til hertra aðgerða vegna veirufaraldursins sem fékk nafnið COVID-19, þá þyngdi veruleg fyrir í sölu og dreifingu afurða félagsins. Fyrstu verulegu vandræðin voru í Kína þar sem veiran herjaði fyrst þetta hafði ekki mikil áhrif á vöruflæði fyrirtækisins. Asíulöndin fóru að mestu í eðlilegt horf fljótlega um vorið 2020 nema Kína þar kom upp mikil hræðsla við að veiran lifði á umbúðum frystra matvæla og tafðist verulega tollafgreiðsla inn til Kína og varði það allt árið 2020.
Bandaríkin nánast stoppuðu ferðir fólks frá Evrópu, þetta hafði veruleg áhrif á flutning á ferskum fiski til Bandaríkjanna sem treystir alfarið á fragtflutninga með flugi. Flugferðum fækkaði verulega og fragt hækkaði í kjölfarið, þetta breyttist þó þegar líða tók á vorið og flugfélögin fjölguðu flugvélum í fragt flugi. Á meginlandi Evrópu lokuðu veitingarstaðir, hótel, skemmtiferðaskip og mötuneyti fyrirtækja og stofnana lentu í vandræðum. Sum bæjarfélög lokuðu á flutninga inn á sitt svæði og olli það vandræðum hjá flutningafyrirtækjum við að dreifa vöru. Þetta lagaðist þegar fólk fór að átta sig á hegðun veirunnar og fólk fór að loka sig meira af, vinna heima og versla matvöru í stórmörkuðunum og hverfisverslunum. Heimsendingarþjónusta með matvæli tók verulega við sér og t.d. í Bretlandi brugðu veitingastaðir á það ráð að efla heimsendingar t.d. „fish and chips“ veitingastaðir og hafði þetta verulega jákvæð áhrif á viðskipti með sjófryst þorsk- og ýsuflök sem er stór hluti af framleiðslu frystitogara fyrirtækisins. Á Spáni fóru fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í að útvatna og dreifa saltfiski að leggja enn meiri áherslu á viðskipti við stórmarkaði og hverfisverslanir og fóru að pakka fiskbitum sem áður höfðu farið til veitingastaða í minni pakkningar sem hentuðu einstaklingum og fjölskyldum. Þannig fóru flestir að reyna að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og koma til móts við neytendur. Þegar litið er yfir árið í heild þá fór ástandið að batna þegar leið fram á haustið og um áramótin 2020/2021 var birgðastaða fyrirtækisins sambærileg við það sem eðlilegt er.

Gæðamarkmið
Gæðamarkmið í vinnsluferli fiskafurða er að framleiða ávallt vöru eftir kröfum viðskiptavina og að sinna gæðamálum af kostgæfni á markaðsvæðum fyrirtækisins. Settar hafa verið upp starfsreglur sem byggja á áhættugreiningu (HAACP) þar sem heilnæmi og gæði eru höfð að leiðarljósi. Lagt er upp úr virku gæðaeftirliti og við framleiðslu eru reglur um eftirlit og mat á sjávarafurðum lögð til grundvallar, svo og gæðahandbækur og pökkunarreglur söluðaðaðila. Afurðir sem ekki teljast neysluhæfar eru aðgreindar og þeim eytt. Starfsfólki fyrirtækisins ber að fylgja gæðamarkmiðum og er því veitt kerfisbundin þjálfun til þess. Þorbjörn hf. er meðlimur í Ábyrgum fiskveiðum ses. (Iceland Responsible Fisheries) og notar merki félagsins á allar framleiðsluvörur sínar.

Stjórn:
Formaður: Gerður Sigríður Tómsdóttir
Gunnar Tómasson
Gunnlaugur Eiríksson
Forstjóri: Eiríkur Tómasson
Framkvæmdastjóri: Gunnar Tómasson

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd